Breytingar á innheimtu vegna hirðu og meðhöndlun úrgangs

Nýverið voru sendir út álagningarseðlar til íbúa sveitarfélagsins. Eins og undanfarin ár eru gjöld vegna hirðu og meðhöndlunar úrgangs innheimt samhliða. Sú breyting hefur orðið á að nú er innheimt eftir því rúmmáli sem íbúar hafa til umráða við sín hús en ekki föst gjöld. Þessi breyting er tilkomin vegna lagabreytinga en samkvæmt lögum nr.55/2003 er sveitarfélögum skylt samkvæmt lögum að innheimta gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs sem næst raunkostnaði. Skylt er að innheimta gjald sem miðast við magn og gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun hans.

Sveitarfélagið byggir gjaldskrá sína á áætluðum kostnaði við málaflokkinn. Skylt er að flokka í fjóra flokka við heimili en íbúar geta nú, að einhverju leyti, stýrt því hvaða tunnur henta best við sitt heimili svo lengi sem krafan um fjóra flokka er uppfyllt sbr. lög um meðhöndlun úrgangs.

Á álagningarseðlum sem íbúar fá í ár er að finna upplýsingar um gjöld annars vegar byggð á stærðum, fjölda og tegundum íláta og hins vegar gjöld vegna fasts kostnaðar vegna reksturs grenndar- og söfnunarstöðva og annars fasts kostnaðar.