Ársreikningur 2024 samþykktur í bæjarstjórn

Ársreikningur Sveitarfélagsins Voga fyrir árið 2024 var samþykktur samhljóða í bæjarstjórn þann 12. maí 2025. Rekstrarniðurstaða var jákvæð um 160 m.kr. sem er 110 m.kr. betri rekstrarniðurstaða en áætlað hafði verið.

Tekjur samstæðu, A og B hluta, námu 2,45 ma.kr. á árinu samanborið við áætlun með viðaukum sem nam 2,25 ma.kr. Rekstrargjöld samstæðu námu 2,1 ma. kr. en áætlun með viðaukum var 2,0 ma. kr. Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir var því jákvæð um 346 m.kr. samanborið við áætlun með viðaukum þar sem gert varð ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu að fjárhæð 247 m.kr.

Rekstrarniðurstaðan endurspeglar áframhaldandi jákvæða þróun í rekstri sveitarfélagsins og samstæðan uppfyllir nú fjárhagsleg viðmið samkvæmt reglugerð. Rekstrartekjur aukast um ríflega 350 m.kr. á milli ára eða um tæp 17% á meðan að rekstrarkostnaður hækkar um ríflega 200 m.kr. eða um 11%. Hvað rekstrarkostnað varðar, hefur töluverð vinna verið lögð í að rétta reksturinn af með ýmsum hagræðingaraðgerðum og kostnaðaraðhaldi á kjörtímabilinu. Jákvætt er að sjá þá vinnu skila sér enn frekar og varðar sveitarfélagið miklu að samstæðan uppfyllir nú viðmið reglugerðar um jafnvægi í rekstri. Þriggja ára uppsöfnuð rekstrarniðurstaða er jákvæð sem nemur 48 m.kr. árið 2024 samanborið við neikvæðan rekstrarjöfnuð að fjárhæð 340 m.kr. árið 2023.

Skýrustu merki viðsnúnings má sjá í þróun veltufjár frá rekstri. Veltufé frá rekstri nam 314 m.kr. árinu 2024 en til samanburðar nam veltufé frá rekstri 189 m.kr. árið 2023.

Fjárfestingar á árinu námu um 189 m.kr. og voru stærstu verkefnin framkvæmdir við heilsugæslusel sem opnað var í upphafi árs 2025, fjárfesting og endurbætur á færanlegri kennslustofu við Heilsuleikskólann Suðurvelli, áframhaldandi endurbætur í Stóru-Vogaskóla og endurgerð sundlaugar í íþróttamiðstöð.

Skuldaviðmið skv. reglugerð í árslok 2024 var 58% borið saman við 69% í árslok 2023. Efnahagsreikningur breyttist þó nokkuð á árinu í kjölfar breytinga á lóðaleigu. Um reikningshaldslega aðgerð er að ræða en fasteignir og lóðir í efnahagsreikningi hækka um 876 m.kr. á milli ára og nema 2,26 ma.kr. í árslok. Heildar eignir sveitarfélagsins í árslok 2024 nema 3,66 ma.kr. samanborið við 2,65 ma.kr. árið áður.

Mikilvægt er að halda áfram á þeirri vegferð að sýna ráðdeild í rekstri og viðhalda þannig
traustum rekstrargrunni. Með því móti er hægt að tryggja sjálfbærni sveitarfélagsins til framtíðar

Frekari upplýsingar veitir Guðrún P. Ólafsdóttir, bæjarstjóri

Ársreikningur 2024