Áhrif verkfalla aðildarfélaga BSRB á starfsemi Sveitarfélagsins Voga

Aðildarfélög BSRB hafa boðað til verkfalla í stofnunum sveitarfélaga frá og með mánudeginum 5. júní næstkomandi. Boðað hefur verið verkfall starfsfólks Sveitarfélagsins Voga sem eiga aðild að Starfsmannafélagi Suðurnesja og ná verkfallsaðgerðir til starfa á Heilsuleikskólanum Suðurvöllum, á bæjarskrifstofu og þjónustumiðstöð. 

Komi til verkfallsaðgerða hefur það óhjákvæmilega áhrif á starfsemi sveitarfélagsins og þjónustu við bæjarbúa. 

Eftirfarandi eru upplýsingar um fyrirhugaða skerðingu á þjónustu hjá sveitarfélaginu komi til verkfallsaðgerða.

Leikskóli

Leikskólastjóri mun hafa beint samband við  foreldra og forráðamenn varðandi útfærslu skólastarfs komi til verkfalls og gera má ráð fyrir því að talsverð röskun verði á starfi leikskólans á meðan verkfalli stendur. Eru foreldrar jafnframt hvattir til að fylgjast með framvindu málsins í fjölmiðlum næstu daga.

Leikskóla- og fæðisgjöld barna falla niður þann tíma sem börnin geta ekki mætt í skólann vegna verkfallsins. Þetta á við þegar dvalartími barna er skertur og/eða þegar ekki er hægt að bjóða upp á fæði. Sá kostnaður verður endurgreiddur til foreldra um næstu mánaðarmót.

Bæjarskrifstofa

Móttaka sveitarfélagsins á bæjarskrifstofu verður lokuð á tímabilinu 5. júní-5. júlí. Þjónusta mun skerðast sem snýr að móttöku, símsvörun, bókun og greiðslu reikninga. Íbúar og aðrir eru hvattir til að senda tölvupóst á starfsfólk vegna erinda sinna, nánari upplýsingar má finna hér.

Þjónustumiðstöð

Starfsemi þjónustumiðstöðvar verður skert á tímabilinu 5. júní-17. júní. Komi til verkfalls munu ferðir Vogastrætó falla niður á meðan á verkfalli stendur.