Áframhaldandi samstarf á sviði fræðslumála

Magnús Stefánsson bæjarstjóri Suðurnesjabæjar og Gunnar Axel Axelsson bæjarstjóri í Vogum við undirr…
Magnús Stefánsson bæjarstjóri Suðurnesjabæjar og Gunnar Axel Axelsson bæjarstjóri í Vogum við undirritun samningsins í morgun.

Gunnar Axel Axelsson bæjarstjóri í Vogum og Magnús Stefánsson bæjarstjóri Suðurnesjabæjar undirrituðu í dag samning um aðkeypta þjónustu Sveitarfélagsins Voga af fræðsluþjónustu Suðurnesjabæjar. Byggir samningurinn á grunni eldri samnings en undanfarin ár hafa sveitarfélögin tvö átt í farsælu samstarfi um veitingu stoðþjónustu á sviði fræðslumála. Samningurinn er til þriggja ára og mun Fræðsluþjónusta Suðurnesjabæjar veita skólastofnunum Voga stoðþjónustu í samræmi við áherslur sem koma í reglugerð um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga nr. 444/2019. Fræðsluþjónusta Suðurnesjabæjar veitir sálfræðiþjónustu, talmeinaþjónustu, sérkennsluráðgjöf og almenna kennsluráðgjöf sem felur í sér greiningu og ráðgjöf til nemenda, foreldra og starfsmanna skóla. Í nýjum samningi er tekið sérstaklega á samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna í samráði við bæjaryfirvöld í Vogum og skólasamfélagið. Nemendum og foreldrum barna í Stóru-Vogaskóla og Suðurvöllum standa opin úrræði á vegum fræðsluþjónustunnar, en þar má nefna uppeldisnámskeið.

Gunnar Axel Axelsson bæjarstjóri segir að samstarfið hafi reynst farsælt fyrir bæði sveitarfélög og það hafi því verið mikill samhljómur í vinnu við endurnýjun samningsins.

„Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu þétt og góð samvinna er á milli stjórnenda og starfsfólks í skólum sveitarfélaganna tveggja. Með áframhaldandi öflugu og góðu samstarfi skólanna á svæðinu og samnýtingu þekkingar og krafta okkar ætlum við að halda áfram að byggja upp og efla skólana sem faglegar stofnanir sem hafa burði til að geta leyst þau fjölbreyttu viðfangsefni sem upp koma í daglegu skólastarfi.“

Segir Gunnar Axel Axelsson bæjarstjóri í Vogum í tilefni af undirritun samningsins.