150 ára afmæli skólahalds í Sveitarfélaginu Vogum. Afmælisþættir (5) - Séra Stefán og stofnun skólans

5. þáttur: Séra Stefán og stofnun skólans

Ágúst Guðmundsson frá Halakoti (1869 – 1941) segir frá Stefáni Thorarensen í bók sinni, Þættir af Suðurnesjum (1942) og lýsir manninum og prestinum mjög líkt og Kristleifur, sbr frásögn í 4. þætti. Ágúst segir m.a. um Stefán og um skólann sem hann stofnaði:

„Hann vildi að messur sínar væru sem háfleygastar og tókst að gera það. Hann kom orgeli í kirkjuna hér í kringum 1876, og lék Guðmundur Guðmundsson í Landakoti á það. Var hann hér forsöngvari um 40 ár. .......

Mörgu góðu kom hann hér til leiðar, og ætla ég aðeins að minnast á barnaskólabygginguna, sem var mikið velferðarmál, — og hann hafði mikinn áhuga fyrir velferð sveitarinnar. Færði hann það fyrst í tal við sóknarbændur, og tóku margir vel í það, enda þótt sumir stæðu fast á móti því. En þeir voru fleiri, sem skildu málið rétt og studdu prest til framkvæmda með peningagjöfum og vinnu eftir efnum og ástæðum.

Mest gaf stórbóndinn Egill Hallgrímsson. Hann gaf 100 dali og Guðmundur Ívarsson 50 dali, og svo flestir meira og minna. Skólinn var byggður sumarið 1872, mest af samskotafé og svo frá hlutaveltu. Lán, sem tekið var, fékk séra Stefán með óvanalega hagstæðum skilmálum, og svo naut skólinn árlegs styrks úr Thorkilliisjóði, svo að byggingin kom æði létt niður á sveitina, og flest börn höfðu ókeypis kennslu.

Kennsla byrjaði 1. október 1872 með 29 börnum. Kennarinn var Oddgeir, sem síðar var lengi prestur í Vestmannaeyjum. Skólinn starfaði alla daga rúmhelga til síðasta marz árlega. Kennslulaun hans voru 350 krónur yfir þennan umtalaða tíma. Fæddi hann sig sjálfur, en hafði ókeypis hús og hita, en varð að leggja sér til ljós. Hafði kennarinn eina stofu og svefnherbergi, en kennslulaunin stigu síðar upp í 400 krónur og síðast í 500 krónur, en aldrei meira í tíð séra Stefáns. Hann hafði alla umsjón með skólanum, fjármálum hans og niðurröðun á kennslu. Þá var kennt: lestur, skrift, reikningur, kver, biblíusögur og seinustu tvo veturna, þeim sem bezt voru að sér, landafræði, saga réttritun og einnig danska. — Kennsla byrjaði kl. 10 árdegis og stóð til kl. hálfþrjú alla daga. Gengu börnin daglega heim og að heiman, sem var langur vegur, innan úr Kálfatjarnarhverfi og suður í skóla, en hann var í Suðurkoti í Brunnastaðahverfi. Það var klukkutíma gangur aðra leið að Brekku við Vogastapa, og vont var veður, ef börnin létu sig vanta í skólann, enda gengu kennararnir stranglega eftir því, að þau kæmu daglega. Tvisvar í viku var kenndur söngur. Hann kenndi Guðmundur í Landakoti. Allt gerði prestur til þess, að skólinn næði tilgangi sínum og vandaði vel til kennara. ........

Skólahúsið var byggt úr timbri, 16 álnir á lengd og 14 á breidd, loftbyggt, og var hver þilja, gluggar og hurðir handunnið. Kennsla fór fram í einum sal, sem var í norðurenda hússins, með góðum og stórum ofni. — Uppi á loftinu bjuggu hjón, sem hirtu um skólastofuna og lögðu í ofninn. Fyrir þá vinnu höfðu þau ókeypis húsavist. Sá, sem það gerði á umræddum tíma. hét Daníel Grímsson, ættaður úr Borgarfirði, en fluttist til Ameríku rétt fyrir síðustu aldamót. Sá, sem stóð aðallega fyrir smíði skólans, hét Stefán, og var kallaður snikkari, þá bóndi í Minni-Vogum í Vogum. .......

Flest voru börnin í skólanum 39 og var kennarinn vanalega einn. Þó hjálpaði Daníel Grímsson honum í reikningstímum sum árin, þegar börnin voru flest, og sagði hann þeim til, sem voru á byrjunarstigi. Annars var það nærri undarlega mikið, hvað kennararnir afköstuðu þá. Flestir voru þeir strangir og alvarlegir, og höfðu börnin ótta af þeim, ef þau lærðu ekki vel, en þá var sá siður að læra allt utanbókar, og kunnu öll vel, sem höfðu námsgáfur. Vanalega voru kennararnir góðir við börnin og sumir skemmtilegir.”

Hér er hægt að nálgast bók Ágústs: https://baekur.is/bok/000019716/0/10/THaettir_af#page/n9/mode/2up