150 ára afmæli skólahalds í Sveitarfélaginu Vogum. Afmælisþættir (4) - Upphafsmaðurinn Stefán Thorarensen

4. þáttur: Upphafsmaðurinn Stefán Thorarensen

Stefán Thorarensen kom því til leiðar að hér var stofnaður skóli og byggt skólahús 1872, en þá voru starfandi tveir barnaskólar á landinu, á Eyrarbakka frá 1852 og Reykjavík frá 1862.

Stefán fæddist 10. júlí 1831 og dó 26. apríl 1892. Foreldrar voru Síra Sigurður Gíslason Thorarensen í Hraungerði og Guðrún Vigfúsdóttir sýslumanns Thoroddsen að Hlíðarenda, fædd að Stórólfshvoli, systir Bjarna amtmanns þjóðskálds.

Stefán útskrifaðist úr prestaskóla 1855, varð þá aðstoðarprestur föður síns, en fékk svo Kálfatjörn 8. júlí 1857 og var prestur þar í 29 ár, til 1886. Þá lét hann af prestsskap og flutti til Reykjavíkur. Þar bjó hann til æviloka, 1892, í húsi því sem nú er Humarhúsið. Hannes Hafstein, skáld og siðar ráðherra, keypti það hús að Stefáni látnum.

Stefán missti fyrri konu sína, Rannveigu Sigurðardóttur Sivertsens áður en hann flutti að Kálfatjörn. Hann giftist síðar alsystur hennar, Steinunni, og lifði hún mann sinn. Þeim varð ekki barna auðið.

Stefán var áhugamaður um öll fræðslumál. Kom hann á fót barnaskóla fyrir Vatnsleysustrandar-hrepp, en slikt var ekki fyrirhafnarlaust á þeim tímum. Lestrarfélag stofnaði hann einnig, sem stóð með blóma undir stjórn hans sem formanns, allt þar til hann flutti burt úr prestakallinu.

Heimili þeirra Kálfatjarnarhjóna var rómað fyrirmyndarheimili, glaðvært og gestrisið, og var viðurkent, að heimilishættir, sem þar tíðkuðust, hefðu haft mikil áhrif til bóta á ýmis heimili í báðum sóknum séra Stefáns, enda var hann sjálfur mjög dagfarsprúður maður.

Það sem hefur gert séra Stefán þjóðkunnan er sálmakveðskapur hans og afskifti af íslenskum sálmabókum. Hann sat í tveimur sálmabókamefndunum, lagfærði eða orkti 95 sálma í sálmabókina 1871 og 44 sálma í sálmabókina 1886. Hann var frábær söngmaður og manna söngfróðastur.

Það er ljóst að Stefán Thorarensen var enginn kotbóndi, hvorki á Kálfatjörn né í Reykjavík. Hann varð prestur á Kálfatjörn aðeins 26 ára gamall og gengdi því starfi í 29 ár, lét af störfum vegna heilsubrests aðeins 55 ára gamall, og var aðeins 61 árs er hann lést í Reykjavík og er jarðsettur í Hólavallagarði, leiði R-420. Hér er byggt á æviágripi Stefáns í Prestafélagsritinu 1931.

Kristleifur Þorsteinsson stundaði sjóróðra á Vatnsleysuströnd 10 vertíðir og segir svo frá í Kirkjuritinu 1940, bls. 361: ”Þá var séra Stefán Thorarensen, sálmaskáld, prestur á Kálfatjörn. Bar hann mjög af mönnum að líkamsatgerfi, en einkum var það hans frábæra söngrödd, sem gerði hann ógleymanlegan öllum þeim, sem til hans heyrðu. Organleikari í Kálfatjarnarkirkju var þá Guðmundur Guðmundssön í Landakoti. Hafði hann jafnan á vertíðinni flokk úrvalssöngmanna, sem hann æfði undir hverja messu. Á laugardögum tók séra Stefán sálmana til, sem átti að syngja við messu næsta dag. Sendi hann Guðmundi í Landakoti númer þeirra, til þess að hann gæti æft flokk sinn á laugardagskvöldum eða sunnudagsmorgna, áður en til messu var tekið. Öll messugjörð í Kálfatjarnarkirkju var þá, að mínum dómi, svo fögur og heillandi, að henni var ekki unt að gleyma.”

Hér er fjallað um einn af mörgum sálmum sem Stefán þýddi: Ó, hve dýrðlegt er að sjá.

Í næstu viku sjáum við hvað Ágúst Guðmundsson frá Halakoti segir um Stefán og skólann, en hann var fermingarbarn Stefáns og nemandi í Suðurkotsskóla.