150 ára afmæli skólahalds í Sveitarfélaginu Vogum. Afmælisþættir (46) - Jólahald í 150 ár - og sögulok

46. þáttur. Jólahald í 150 ár – og sögulok 7. des.

Fyrstu áratugi barnaskólans voru miðsvetrarpróf haldin dagana fyrir jól, gjarna á Þorláksmessu og upplestrarfrí 1 – 2 daga áður. Fer engum sögum af jólahaldi í skólanum frá þeim tíma.

Í desember 1921 var Viktoría Guðmundsdóttir orðin skólastjóri. Þá var eftir sem áður upplestrarfrí 19. og 20. des. og próf 21. og 22. des. Að loknum prófum sungu börnin jólasálma, kennarinn las jólaguðspjallið og talaði nokkur orð til barnanna áður en þau gengu heim til sín. Síðan var jólaleyfi til 3. jan. 1922.

Árið 1922 skrifar Viktoría í dagbók skólans: 13. des vantaði 6 börn og „þau sem komu voru öll mjög lasin af kvefi og heyrðist varla mannsmál í skólastofunni sökum hósta“ og gaf kennari þá þriggja daga leyfi – upplestrarleyfi. Var vel mætt 19. og 20. des. og næstu tvo daga voru próf. Á þorláksmessu komu börnin í skólann kl. 10. „Las þá kennarinn prófeinkunnir þeirra og afhenti þeim jólakveðju dönsku sunnudagsskólabarnanna. Síðan voru sungnir sálmar, kennari sagði börnunum jólasögu og las jólaguðspjallið. Var svo gefið jólaleyfi til 3. janúar.“

3, janúar „komu öll skólabörnin. Var þá sungið, minnst nýbyrjaða ársins, myndir sýndar og lesin saga. Loks var börnunum sett fyrir til næsta dags.“ 6. janúar síðdegis kom hjálpræðisherinn í Hafnarfirði og hélt jólatré (jólaball), líkt og fyrri ár. Koma hjálpræðishersins lagðist af fljótlega eftir þetta, en áfram bárust kveðjur frá dönskum sunnudagaskólabörnum næstu ár.

Þann 16. des. 1924 voru flest börnin lögst í mislinga. Ákvað formaður skólanefndar og kennarinn að gefa jólafrí þá þegar. „Var svo komandi jóla minnst í skólanum, þennan síðasta kennsludag, á líkan hátt og undanfarna vetur með sálmasöng, lestri og stuttri bæn og börnunum síðan gefið jólaleyfi til 3. janúar 1925.“

Þau 31 ár sem Viktoría sá um kennsluna voru dagarnir kringum jólin á þennan veg, en þó eftir aðstæðum. Til dæmis 1926 var ráðgert að prófa að venju 21. og 22. des, „en báða þá daga var veður ill og komu fá börn svo að kennara þótti ekki taka að prófa þau, en á Þorláksmessu ekki unt að prófa, sökum þess að þann dag skyldi jólatré skreytt þar. Síðasti starfsdagur var því 21. des., er nokkur börn voru prófuð í kristnum fræðum.“

1927 var yngri deildin prófuð 21. des og þann 22. var „munnlegt próf í eldri deild til klukkan 2. Barnastúkufundur eftir það. Í lok fundarins var jólanna minst á venjulegan hátt. Börnin sungu jólasálma, kennari las upp jólasögu, og talaði nokkur orð til barnanna um hátíðina og þýðingu hennar og las að síðustu jólaguðspjallið. Síðan var gefið jólaleyfi til 3. janúar 1928.“ Í 27. þætti segir frá því hve sorglega næsta skólaár byrjaði.

Í Brunnastaðaskóla og fyrsta áratug Stóru-Vogaskóla voru litlu jólin helsti viðburður félagslífsins, eins konar árshátíð að mati Hreins Ásgrímssonar. Æfð voru leikrit og atriði sem tengdust ekki endilega jólahaldi.

Árið 1982 var til dæmis foreldrasýning og jóladiskó föstud. 17. des og kennarar gengu frá mánud. 20. des og hófst jólaleyfi þeirra eftir það. Nemendur mættu svo eftir jólaleyfi 5. janúar.

Frá því um 1990 hefur sérstök árshátíð nemenda, þar sem foreldrum er boðið, verið haldin skömmu fyrir páskaleyfi, en sérstakar foreldrasýningar á litlu jólum lagðar af. En litlu jólin eru haldin engu að síður, aðallega fyrir nemendur. Bergsveinn skólastjóri stóð fyrir þessum breytingum, einnig því að 6. bekkur fór árlega að æfa og sýna helgileik sem byggður er á jólaguðspjallinu. Hér er mynd af slíkum helgileik í skólanum, líklega 1995.

Löng hefð er fyrir jólaföndurdegi á aðventu. Nemendur skreyta skólann; klippa, stimpla, teikna og skrifa á jólakort til nemenda, kennara og síns heimilisfólks. Sérstakir póstkassar eru settir upp við hverja bekkjarstofu. Höfundi þessara þátta hlýnar um hjartarætur er hann minnist handgerðra jólakorta með hlýjum kveðjum frá nemendum.

Í desember 2013 var til dæmis skipulagt jólaföndur á 8 stöðvum í skólanum með þessum vinnustöðvum:

Krukkur og kökubox; smíðastöð; saumastöð; dagatal 2014; matarstöð í salnum – piparkökur og kókoskökur; saumuar/sköpun: könglar, vatt, pípuhreinsarar; trölladeig í heimilisfræði; krukkur málaðar.

Jólakortaefni var á öllum stöðvum og músastigar, í námsveri jólakort og bíó.

Síðasta kennsludag ársins halda umsjónarkennar stofujól, hver með sínum bekk, þar sem lesin er jólasaga og nemendur skiptast á lukkupökkum. Síðan eru litlu jólin þar sem allir koma saman, dansa kringum jólatréð og syngja og jólasveinn kemur í heimsókn. Síðan hefst jólafrí nemenda upp úr hádegi. Þetta fyrirkomulag hefur verið frá því fyrir 1980.

Frá því fyrir 2000 hafa kennarar og annað starfsfólk – annað en eldhússtarfsfólkið – eldað hangikét með tilheyrandi og átt saman hátíðlega stund eftir hádegi þegar nemendur eru farnir heim, uns þeir sjálfir halda heim í jólafrí. Á myndinni eru Jón Ingi, Guðmundur og Helgi Hólm viðeigandi klæddir við þau störf.

Löng hefð er fyrir þrettándaskemmtun með grímudansleik, en venjulega ekki á vegum skólans heldur félaga eins og Þróttar, kvenfélagsins Fjólu, Lionsklúbbsins Keilis og Björgunarsveitarinnar Skyggnis.

Heimildir: Dagbók Suðurkotsbarnaskóla 1917 – 1932. Fundagerðabók kennarafunda 1981–1989. Ræður Hreins Ásgrímssonar. Samtöl við kennara og fyrrum nemendur og reynsla höfundar sem hefur verið viðriðinn skólann frá því árið 2000.

Þar með lýkur þessum þáttum úr sögu skóla í Vatnsleysustrandarhreppi og Sveitarfélaginu Vogum sem birst hafa vikulega í Víkurfréttum og á netinu. Hafið þökk þið sem lásu. Þættirnir verða áfram aðgengilegir – auknir og endurbættir – á storuvogaskoli.is, vogar.is og vf.is.

 

  •