150 ára afmæli skólahalds í Sveitarfélaginu Vogum. Afmælisþættir (34) - Hvernig var í skólanum 1970-1990?

34. þáttur: Hvernig var í skólanum 1970 – 1990 ?

Það breytist margt á hálfri öld. Árið 1974 voru 3 barnadeildir og tvær unglingadeildir í skólanum, 11-12 ára og unglingadeildir fyrir hádegi, en 7-10 ára eftir hádegi. Það ár var skólatími unglingadeilda lengdur úr 7½ mánuði í 8. Þá voru aðeins 3 kennslustofur og skólinn var tvísetinn fram að aldamótum.

Við skólasetningu 1976 sagði Hreinn Ásgrímsson, skólastjóri, okkur lifa á öld hraðra breytinga. Árlega eru teknar upp nýjungar, nýjar kennslubækur, nýjar aðferðir við kennslu. Próf sem skipað hafa háan sess í skólastarfi okkar eru óðum að tapa tölunni. Barnapróf hefur verið fellt niður, gangfræðipróf verður tekið í síðasta skipti næsta vor, unglingapróf eiga örfá ár eftir ólifuð og í staðinn er gert ráð fyrir einu grunnskólaprófi að loknum 9. bekk (síðar 10. bekk).

Árið 1978 var 6 ára deild starfrækt í fyrsta sinn, var hún til húsa í leikskólanum Sólvöllum í Vogum, þar sem nú Lionsheimilið. Fyrstu tvo áratugina var viðveran stutt, d. árið 1980 kl. 11 – 12.30 fjóra daga vikunnar.

Haldin var vinnuvika nemenda í mars 1982. Verkefnið var sveitarfélagið okkar, fiskiskip, fjörulíf og sjávarlíf. Vel heppnuð, fjölsótt sýning. Bryndís Schram kom frá sjónvarpinu og gerði flottan þátt um Voga sem sýndur var í Stundinni okkar.

Árið 1973 voru nemendur um 50 talsins, en 1980 voru þeir 100, hafði fjöldinn tvöfaldast á 7 árum! Haustið 1985 hafði efsti bekkurinn bæst við og varð nemendafjöldinn þá 150, nánast sama tala og nú, árið 2022! Frjósemin hefur sannarlega minkað. Um aldamótin var fjöldi nemenda um 130 en komst hæst yfir 200 áratug síðar.

Kringum 1980 var bryddað upp á ýmsum nýjungum; leikhúsferðum, diskótekum, íþróttamótum, málfundi þar sem nemendur stýrðu og héldu framsöguræður (vísir að skólaþingum sem haldin voru á 2. áratug 20 aldar), skákmót, árlegar skíðaferðir í Bláfjöll, íþróttamót, opnar starfsvikur og Litlu jólin, sem voru eins konar árshátið.

Stofnað var foreldra- og kennarafélag haustið 1984 og gegndi Herdís Herjólfsdóttir þar formennsku. Þátttaka var dræm til að byrja með, en skánaði. Farið var að halda opnar vikur þar sem foreldrar máttu mæta og fylgjast með námi barna sinna. Skólastjórnendur á Suðurnesjum höfðu stofnað félagið Skósuð, til að bera saman bækur sínar og skipuleggja sameiginleg verkefni og viðburði, m.a. sameiginlega fundi og námskeið kennara.

Stofnað var kennararáð 1984 sem 4 kennarar og skólastjóri sátu. Var fysta mál þess að semja reglur fyrir ástundun og hegðun nemenda í 4. - 9. bekk, m.a. hegðunareinkunn nemenda. Ráðið hélt reglulega fundi fyrstu árin en síðar stopult, ef marka má fundargerðir. Kennarafundir voru haldnir mánaðarlega eða oftar, þar sem fjölmörg praktísk mál voru tekin fyrir og færð til bókar. Skólasálfræðingur kom reglulega í skólann til ráðgjafar. Haldið var fjölsótt uppeldismálaþing í skólanum 17. okt. 1987.

Árið 1990 voru um 140 nenendur í 10 bekkjardeildum, í húsi sem hannað var fyrir 60 – 70 nemendur, með 6 almennum skólastofum auk lausrar smíðastofu úti. Kennarar voru 11 talsins, skólastjóri Bergsveinn Auðunsson. Staða yfirkennara (aðstoðarskólastjóra) var stofnuð 1988 og Jón Ingi Baldvinsson gegndi þeirri stöðu í 23 ár og útskrifaði m.a. 10. bekkinga við skólaslit. Nýr formaður skólanefndar var Hreiðar Guðmundsson og formaður foreldra- og kennarafélags Hildur Runólfsdóttir. Engar sérstofur voru í skólanum, nema laus smíðastofa á skólalóð. Aðstaða til að kenna heimilisfræði og kenna á tölvur var í undirbúingi. Íþróttir og sund var kennt í Njarðvík og Glaðheimar nýttir fyrir stærstu samkomur.

Hreinn Ásgrímsson lét af skólastjórn 1985, eftir 13 ára farsælt starf. Hann hafði tekið ársorlof 1980 – 1981 og kenndi þá í Grindavík. Hreinn veiktist og lést ári eftir að hann lét af störfum, tæplega fertugur að aldri.

Í tímaritinu Faxa, 1989 og 1990, er myndum skreyttur greinaflokkur um skóla á Suðurnesjum, en 1990 er ítarlega fjallað um sögu og starf skólans í Vogum, byggt á lokaritgerð kennaranemanna Eyjólfs R. Bragasonar, Magnúsar M. Jónssonar og Steinarrs Þórs Þórðarsonar. Þar er líka hugleiðing Bergsveins Auðunssonar, sem var skólastjóri 1986 – 1995. Þar álítur hann að til þess að hægt sé að tala um góðan skóla þurfi þetta þrennt:

  • 1) Hæfir, vel menntaðir kennarar, sem vel er búið að.
  • 2) Hentugt, hlýlegt og vel búið húsnæði og leikvellir, sem verka örvandi á vellíðan og skapandi hugsun nemenda og kennara.
  • 3) Ánægðir og námfúsir nemendur, sem búa við félagslega jákvætt og örvandi umhverfi, bæði í skóla og utan hans.
  • Bergsveinn telur Stephan G. Stephansson orða vel kjarna heillavænlegrar menntastefnu í þessari vísu:
  • Þitt er menntað afl og önd
  • eigirðu fram ad bjóða,
  • hvassan skilning, haga hönd,
  • hjartað sanna og góða.

 

Mynd af fyrsta 10. bekknum í Stóru-Vogaskóla (nem.f.1969), sem er fyrsti 10. bekkur á Suðurnesjum í skóla utan Keflavíkur, þótti ýmsum nágrönnum ósanngjarnt að minnsti skólinn færi þar á undan. Í fremstu röð er m.a. þáverandi skólastjóri, Hreinn Ásgrímsson, og núverandi skólastjóri, Hilmar Egill Sveinbjörnsson. Á myndinni eru (efri röð frá vinstri): Þuríður Ægis, Kristín Skjaldar, Steinvör Símonar, Páll Antons, Guðbjörn, Magnús Guðbergs, Rúnar, Bjartmar, Magnús Jónsson. Neðri röð: Hilmar Egill, Guðmundur Guðmunds, Hreinn Ásgrímsson, Bryndís Halldóra, Magnús Hlynur, Ingólfur Sveinsson og Vilhjálmur Erlendsson. Mynd ásamt upplýsingum á fb-síðunni Brunnastaðaskóli. Ljósmyndari Eyjólfur Guðmundsson.

Heimildira. grein Bergsveins Auðunssonar í Faxa 1990. Handskrifaðar skólasetingar- og skólaslitaræður Hreins Ásgrímssonar. Fundargerðir kennararáðs og kennarafunda. Upplýsingar frá samferðarfólki (Særúnu, Jóni Ingi, Margréti Hreins, Eyjólfi Guðmunds, Kára Ásgríms).