100. fundur Bergs B. Álfþórssonar í bæjarstjórn

Bergur Álfþórsson, til vinstri, tekur við bókargjöf úr hendi Ingþórs Guðmundssonar
Bergur Álfþórsson, til vinstri, tekur við bókargjöf úr hendi Ingþórs Guðmundssonar

Miðvikudaginn 30. október var haldinn 161. fundur bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga. Á þeim fundi sat bæjarfulltrúinn og formaður bæjarráðs, Bergur Brynjar Álfþórsson, sinn 100. fund í bæjarstjórn.

Fyrsti fundur í bæjarstjórn Sveitarféalagsins Voga var haldinn þann 12 janúar 2006. Fram til þess tíma var nafn sveitarfélagsins Vatnsleysustrandarhreppur, og æðsta stjórnvaldið var á hendi hreppsnefndar. Bergur var kjörinn varabæjarfulltrúi í bæjarstjórn í sveitarstjórnarkosningunum sem fram fóru í maí 2006. 11. fundur bæjarstjórnar var haldinn þriðjudaginn 5. september 2006. Í fundargerð kemur fram að þá hafi Bergur Álfþórsson setið fundinn, sem varamaður fyrir Birgi Örn Ólafsson og mun þetta hafa verið fyrsti fundur Bergs í bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga.

 Bergur hefur setið óslitið í bæjarstjórn frá 2006, fyrst sem varabæjarfulltrúi en frá árinu 2010 sem bæjarfulltrúi.

Sveitarfélagið óskar Bergi til hamingju með þennan áfanga og þakkar honum störf hans í þágu sveitarfélagsins. Af þessu tilefni færði sveitarfélagið Bergi bókargjöf og á meðfylgjandi mynd má sjá Ingþór Guðmundsson foresta bæjarstjórnar afhenda Bergi gjöfina.