Frístunda- og menningarnefnd Sveitarfélagsins Voga

67. fundur 22. maí 2017 kl. 19:30 - 21:15 á bæjarskrifstofu
Nefndarmenn
  • Þorvaldur Örn Árnason formaður
  • Guðmundur Kristinn Sveinsson varaformaður
  • Davíð Harðarson varamaður
  • Tinna Hallgrímsdóttir aðalmaður
Fundargerð ritaði: Stefán Arinbjarnarson frístunda- og menningarfulltrúi
Dagskrá
Varamaður Baltasar Bjarmi Björnsson mætti á fundinn í fjarveru Tinnu Hallgrímsdóttur.

1.Starfsemi í félagsmiðstöð 2017.

1702038

Mikið og blómlegt starf hefur verið í vetur fyrir krakka í 5. - 10. bekk. Í vetur var prófað að bjóða 5. bekkingum í félagsmiðstöðina einu sinni í mánuði. Óhætt er að segja að þetta hafi gefið góða raun og verður þessu haldið áfram næsta vetur. Ungmennaþing var einnig haldið í félagsmiðstöðinni og stofnað ungmennaráð. Ungmennaþing er kjörinn vettvangur fyrir ungmenni til að hafa lýðræðisleg áhrif á sitt nærumhverfi. Elstu nemendur grunnskólans mættu vel á ungmennaþing og sýndu mikinn áhuga en mæting var síðri hjá ungmennum á framhaldsskólaaldri.

Afgreiðsla FMN.
Málið rætt.

2.Sumarstörf í Vogum 2017

1704002

Búið er að gefa út bækling um sumarstarf í Vogum og hefur honum verið dreift í öll hús í sveitarfélaginu. Þar er farið yfir það starf sem í boði er fyrir börn og ungmenni í sveitarfélaginu í sumar. Má þar nefna leikjanámskeið, vinnuskóla, sumarstarf Þróttar, golfnámskeið GVS o.fl.
Vel hefur gengið að manna sumarstörf þrátt fyrir afar gott atvinnuástand. Umsækjendur í vinnuskóla eru hins vegar nokkuð færri en áður og á það sérstaklega við um elstu árgangana.

Afgreiðsla FMN.
Málið rætt.

3.Forvarnarmál

1702040

Frístunda- og menningarfulltrúi fræddi FMN um tvö forvarnarverkefni. Annars vegar mun forvarnarteymið Sunna, sem er sameiginlegt forvarnarteymi fyrir Voga, Garð og Sandgerði senda öllum nemendum og forráðamönnum í grunnskólum umræddra bæjarfélaga bréf við skólalok þar sem farið er yfir nokkur mikilvæg atriði sem hafa ber í huga á slíkum tímamótum þegar sumarið gengur í garð. Hins vegar er um að ræða forvarnarverkefni sem kallast Flugið og snýr að nemendum í framhaldsskólum. Verkefnið miðar að því að minnka líkur á brottfalli nemenda með því að vinna með nemendum, foreldrum og framhaldsskólum í samstarfi við félagsþjónustu og sveitarfélög.

Afgreiðsla FMN.
Nefndin lýsir ánægju með þessi mikilvægu verkefni.

4.Hátíðahöld á þjóðhátíðardaginn 17. júní

1509023

Þjóðhátíðardagurinn 17. júní verður haldinn hátíðlegur í Vogum. Kvenfélagið Fjóla og Lionsklúbburinn Keilir munu standa fyrir hátíðahöldunum í samstarfi við sveitarfélagið. Munu íbúar geta gert sér glaðan dag þar sem m.a. verður í boði kaffihlaðborð, uppblásin leiktæki blöðrur, nammi o.fl.

Afgreiðsla FMN.
FMN lýsir yfir ánægju með að 17. júní hátíðahöld séu orðin að föstum lið í bæjarlífinu í Vogum.

5.Starfsemi í Álfagerði 2017.

1702037

Félagsstarf aldraðra í Álfagerði hefur verið blómlegt í vetur og margir skemmtilegir viðburðir verið á dagskrá. Má sérstaklega nefna að 27. apríl öttu eldri borgarar kappi við bæjarfulltrúa og nefndarfólk í FMN um Kjötsúpubikarinn í boccia. Þar höfðu eldri borgarar betur og að keppni lokinni var haldið í Álfagerði þar sem öllum var boðið í dýrindis kjötsúpu og spjall. Vetrarstarfið lokar föstudaginn 26. maí með púttkeppni, grillveislu, söng og fjöri. Árleg vorferð eldri borgara verður svo farin dagana 30. maí - 1. júní en að þessu sinni verður farið austur á Fljótsdalshérað. Áfram verður heitur matur í hádeginu á boðstólnum í Álfagerði. Unnið er að endurskipulagningu á starfinu í samráði við öldungaráð og verður nýtt starf auglýst í sumarlok.

Afgreiðsla FMN.
Málið rætt.

6.Fundargerðir Samsuð 2017

1702031

Fundargerð frá Samsuðfundi 21. mars.

Afgreiðsla FMN.
Fundargerðin lögð fram og rædd. Aðalfundur FÍÆT, félags íþrótta- æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi, var haldinn af Samsuð á Suðurnesjum dagana 11. - 12. maí. FMN undirstrikar mikilvægi þess að samstarf á sviði frístundamála á Suðurnesjum sé öflugt.

Fundi slitið - kl. 21:15.

Getum við bætt efni síðunnar?