Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga

38. fundur 18. desember 2008 kl. 18:15 - 20:20 Hafnargötu 17-19

Fundur haldinn í bæjarstjórn fimmtudaginn 18. desember 2008, kl. 18.15 að
Hafnargötu 17- 19.
Mættir eru bæjarfulltrúarnir: Birgir Örn Ólafsson, Hörður Harðarson, Inga Rut
Hlöðversdóttir, Bergur Álfþórsson, Inga Sigrún Atladóttir, Íris Bettý Alfreðsdóttir og Jón
Elíasson.
Einnig mætt: Róbert Ragnarsson bæjarstjóri og Eirný Valsdóttir, bæjarritari sem ritar
fundargerð.
Birgir Örn Ólafsson, forseti bæjarstjórnar stýrir fundi.
Forseti leitar afbrigða til að taka á dagskrá tilnefningu í Ungmennaráð undir 2. lið.
Jólahús Voga 2008 undir 10. lið og bréf frá Ingu Rut Hlöðversdóttir bæjarfulltrúa undir 11.
lið.
Samþykkt samhljóða.
1. Fundargerðir 60. og 61. fundar bæjarráðs.
Forseti gefur orðið laust varðandi einstök atriði fundargerðanna.
Minnihluti bæjarstjórnar leggur fram eftirfarandi bókun.
Á bæjarráðsfundi þann 4.desember var samþykkt að bæjarstjóri aflaði frekari gagna um
þá drög að matsáætlun sem Landsnet hugðist senda til auglýsingar. Var honum falið að
kanna hvort samráð hafði verið haft við landeigendur í sveitarfélaginu um verkefnið þar
sem það var eitt af áherslumálum okkar í H listanum. Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu
frá 2.desember kemur fram að Landsnet hafi lagt mikla áhersla á samstarf og samráð við
sveitarfélög, landeigendur og aðra hagsmunaaðila. Nú hafa umbeðnar upplýsingar ekki
borist og frestur til að gera athugasemdir liðinn. Því viljum við spyrja bæjarstjórann hvort
óskað hafi verið eftir umbeðnum upplýsingum og þá hvort athugasemdir hafi verið gerðar
við málið, ef satt reynist að Landsnet hafi ekki ennþá haft samband við Landeigendur til
að semja um loftlínur um land þeirra.
Til máls tóku: Íris Bettý, Róbert, Bergur, Inga Sigrún
Fundargerðirnar samþykktar samhljóða.
2. Fundargerð 1. fundar frístunda- og menningarnefndar.
Forseti gefur orðið laust varðandi einstök atriði fundargerðarinnar.

2

Tilnefning Frístunda- og menningarfulltrúa í Ungmennaráð lögð fram.
Bæjarstjórn samþykkir að skipa Alexander Ríkharðsson í Ungmennaráð.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.
3. Fundargerðir 33. og 34. fundar fræðslunefndar.
Forseti gefur orðið laust varðandi einstök atriði fundargerðarinnar.
Bæjarstjórn samþykkir að vísa umsókn nefndarinnar um að auglýsa eftir kennara til
bæjarráðs.
Til máls tók: Inga Sigrún, Birgir Örn
Fundargerðirnar samþykktar samhljóða.
4. Fundargerð 5. fundar fjölskyldu- og velferðarnefndar
Forseti gefur orðið laust varðandi einstök atriði fundargerðarinnar.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.
5. Tillaga að gjaldskrám ársins 2009.
Bæjarstjóri fór yfir tillögu að gjaldskrám ársins 2009, ásamt samanburði við
álagningarstofna annarra sveitarfélaga á Suðurnesjum.
Ekki er gert ráð fyrir neinum breytingum á gjaldskrám frá árinu 2009 í samræmi við
aðgerðaáætlun bæjarráðs frá 23. október.
Forseti ber tillöguna upp til atkvæða.
Samþykkt samhljóða.
6. Fjárhagsáætlanir sameiginlega rekinna stofnana fyrir árið 2009.
Tillaga að fjárhagsáætlunum sameiginlega rekinna stofnana lögð fram. Bæjarstjóri fer yfir
helstu atriði. Fjárhæðirnar hafa verið teknar inn í þá fjárhagsáætlun sem liggur fyrir
fundinum til fyrri umræðu.
Framlag Sveitarfélagsins Voga til sameiginlega rekinna stofnana á vegum SSS er samtals
kr. 38.690.000.
Fjárhagsáætlanirnar eru samþykktar samhljóða.
7. Tilboð í kaup á landi HS orku hf.
Bæjarstjóri kynnti tilboð HS orku hf til Sveitarfélagsins Voga um kaup á landi félagsins
innan skipulagsmarka sveitarfélagsins. Jafnframt er lagt fram sérfræðimat Egils
Hreinsson, verkfræðiprófessors.
Minnihluti bæjarstjórnar leggur fram eftirfarandi bókun.

3
Okkur í H listanum þykir mjög mikilvægt að Bæjarfélagið eignist umrætt land enda er um
mikilvæg auðlindaréttinda að ræða auk fastra leigutekna.
Í samningnum kemur fram að bæjarfélagið greiði fyrir landið í peningum. Við viljum
leggja til að leitað verði eftir samningum við HS um að þau hlutabréf sem bærinn á í HS
verði settur upp í kaupverðið á landinu. Við leggjum einnig til að afgangurinn af
kaupverðinu verði greiddur upp á fjórum árum með vöxtunum af Framfarasjóðnum
þannig að ekki þurfi að ganga á höfðustólinn. Ef samningar nást ekki við HS um að dreifa
greiðslunum getum við samþykkt tillögu meirihlutans um að skerða höfuðstól
Framfarasjóðnum sem nemur verðbótum þessa árs en aðeins til að kaupa umrætt land en
ekki til að setja beint inn í rekstur sveitarfélagsins.
Meirihlutinn tekur undir með minnihlutanum um nauðsyn þess að eignast þetta land enda
er um framtíðarlandsvæði að ræða.
Bæjarstjóra veitt heimild til að ganga til samninga með fyrirvara um samþykkt
bæjarstjórnar.
Til máls tóku: Inga Sigrún, Hörður
8. Tillaga um að verðtrygging höfuðstóls Framfarasjóðs Sveitarfélagsins Voga verði
felld niður.
Fyrir fundinum liggur tillaga um að verðtrygging höfuðstóls Framfarasjóðs
Sveitarfélagsins Voga verði felld niður fjárhagsárin 2008 og 2009 til að bregðast við
fjárþörf vegna rekstrarhalla og fjárfestinga. Bæjarstjóri gerði nánari grein fyrir tillögunni.
Tillaga um að ganga á verðbætur sjóðsins er lögð fram í ljósi þess alvarlega
efnahagsástand sem nú er í landinu, ástands sem má í raun líkja við hamfarir. Með vísan
til þess er lagt til að ekki verið farið að fullu eftir ákvæðum 5. gr. samþykktar um
Framfarasjóð Sveitarfélagsins Voga, heldur verði tillagan rædd og afgreidd við fyrri og
seinni umræðu um fjárhagsáætlun ársins 2009 og kynnt á íbúafundi um fjárhagsáætlun
sem halda á þann 8. janúar næstkomandi. Á íbúafundinum verði sérfræðiálit um
ráðstöfunina kynnt og rætt.
Minnihluti bæjarstjórnar leggur fram eftirfarandi bókun.
Á þessum tímum þar sem óvissa er mikil í fjármálum landsins og tekjur sveitarsjóðs
ótryggar finnst okkur mikilvægt að varðveita þann tekjustofn sem Framfarasjóðurinn er.
Við viljum því bíða þar til auðsýnt er hver staðan verður á árinu 2009 og hvort
nauðsynlegt verður að ganga á höfuðstólinn á næsta ári. Okkar stefna er að ganga ekki á
sjóðinn til að fjármagna rekstrarhalla heldur eigi að nota hann til að efla einstaklinga og
félagasamtök innan bæjarins og vinna með ávöxtun hans að afmörkuðum verkefnum til
framfara fyrir bæjarfélagið.
Við getum því ekki fallist á tillögu meirihlutans.
Tillagan er samþykkt með fjórum atkvæðum gegn þremur og vísað til kynningar á
íbúafundi og seinni umræðu.
Til máls tóku: Inga Sigrún, Hörður, Jón, Bergur, Inga Rut, Róbert, Birgir

4

9. Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Voga fyrir árið 2009. Fyrri umræða.
Fjárhagsáætlun ársins 2009 er lögð fram til fyrri umræðu.
Bæjarstjóri fer yfir forsendur og tillögu að fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Voga fyrir árið
2009.
Helstu þættir eru eftirfarandi.
Áætlun
Tekjur: 2009
Skatttekjur................................... 306.394
Framlög jöfnunarsjóðs............ 147.861
Aðrar tekjur................................. 104.336
558.591

Gjöld:
Laun og launatengd gjöld....... 352.481
Annar rekstrarkostnaður.......... 323.703
Afskriftir....................................... 26.313
702.497
Niðurstaða án fjármagnsliða -143.906
Fjármunatekjur 140.945
Rekstrarniðurstaða -2.960
Gert er ráð fyrir fjárfestingum fyrir um 100 milljónir í göngustígum að mislægum
gatnamótum við Reykjanesbraut, gatnagerð og veitum á miðbæjarsvæði og fjárfestingu í
skrifstofuhúsnæði í nýju verslunar- og þjónustuhúsnæði.
Gert er ráð fyrir um 226 milljóna framlagi úr Framfarasjóði til rekstrar og fjárfestinga.
Veltufé frá rekstri er áætlað um 100 milljónir eða um 18% af tekjum.
Afborganir lána eru áætlaðar um 67 milljónir.
Minnihluti bæjarstjórnar leggur fram eftirfarandi bókun.
Í útkomuspá ársins 2008 kemur fram að fyrir mistök hafi ekki verið gerð ráð fyrir
fjármagni sem þurfti til að kaupa iðnaðarhús og lóð að Iðndal 9 fyrir um 21 miljónir
króna. Þegar umrædd landakaup voru til umræðu í bæjarráði fannst okkur í H listanum
mikilvægt að nákvæmlega væri farið í allar hliðar sölunnar þannig að hún væri hafin yfir
allan vafa ekki síst vegna fjölskyldutengsla forseta bæjarstjórnar við seljendur.
Ég spurði m.a. að því á bæjarráðsfundi hvort umrædd kaup hefðu ekki örugglega verið á
fjárhagsáætlun ársins því við höfðum ekki heyrt að umrædd kaup stæðu til. Ég var
fullvissuð um að svo væri og í einfeldni minni treysti ég þeim upplýsingum. Því var mér
verulega brugðið þegar gerð var grein fyrir þessum mistökum í útkomuspá ársins.
Sjálfri finnst mér í raun að fjölskyldutengsl forsetans og þær deilur sem upp frá þeim hafa
sprottið, með réttu eða röngu, setji á okkur í bæjarstjórninni skyldu til að setja okkur
kjörnum fulltrúum siðareglur þannig að gagnsæi ríki í ákvarðanatöku og til að tryggja að
grunsemdir vakni ekki um að annað en lögmæt og málefnaleg sjónarmið ráði för í
ákvarðanatökum okkar.

5

Minnihluti bæjarstjórnar leggur fram eftirfarandi bókun.
Á fyrsta heila rekstrarári E-listans var að mati forsetans um algjöran viðsnúning að ræða í
rekstri sveitarfélagsins og væri sá viðsnúningur vegna mikillar vinnu við að endurskoða
ferla við áætlanagerð, hæfum ráðgjöfum og skipulagsbreytingum. Í fundargerð síðan um
umræðu reikninga frá 2007 kemur í ljós að forseti telur að um styrka fjármálastjórn E
listans sé að ræða þegar rekstrarniðurstaðan varð jákvæð en ekki ávöxtun fjármuna í
Framfarasjóðnum eins og við vildum meina.
Nú er reiknað með rúmlega 170 milljón króna rekstrarhalla á málaflokkum ársins 2009.
Við viljum því spyrja forseta bæjarstjórnar:
Hvað fór úrskeiðis í ábyrgri fjármálastjórn E listans?
Í umræðum um ársreikninga 2007 kom fram að forseti telur að ábyrg fjármálastefna E
listans sé forsenda þess að hægt sé að halda áfram uppbyggingu fjölskylduvæns samfélags
í sveitarfélaginu. Ef áætlunargerð E listans er ekki áræðanlegri en raun ber vitni, þýðir
það þá að E listinn þarf að hverfa frá stefnu sinni í fjölskyldu- og velferðarmálum?
Forseti bæjarstjórnar áskilur sér rétt til að bóka á síðari stigum um bæði þau mál sem
beint var að honum.
Hörður leggur fram eftirfarandi bókun.
Veit minnihlutinn hve hátt hlutfall af tekjum bæjarsjóðs fer í leigugreiðslur?
Forseti leggur til að áætluninni verði vísað til kynningar á íbúafundi og seinni umræðu.
Samþykkt samhljóða.
Til máls tóku: Íris Bettý, Inga Rut, Inga Sigrún, Róbert, Hörður, Birgir, Bergur, Jón
10. Jólahús Sveitarfélagsins Voga 2008.
Bæjarstjórn samþykkir að veita húseigendum að Mýrargötu 10 viðurkenningu fyrir
Jólahús ársins 2008 og jafnframt að veita eigendum húsanna Heiðardal 1- 7 sérstaka
viðurkenningu fyrir skemmtilegan heildarsvip. Bæjarstjórn óskar íbúum húsanna til
hamingju með jólahús 2008.
Eftirfarandi hús fengu tilnefningar:
Aragerði 11
Aragerði 17
Brekkugata 4
Hvammsgata 4
Kirkjugerði 3
Leirdalur 8
Mýrargata 10
Fyrir skemmtilegan heildarsvip í götu.
Heiðardalur 1- 7
Hvammsgata 10- 20
Leirdalur 14-16
Raðhús við Brekkugötu

6

11. Bréf frá Ingu Rut Hlöðversdóttur, bæjarfulltrúa.
Forseti les upp bréf frá Ingu Rut Hlöðversdóttur, bæjarfulltrúa þar sem hún óskar eftir
leyfi frá störfum til að stunda nám í gullsmíði í Osló frá janúar til maí á næsta ári.
Forseti leggur til að leyfi verður veitt og óskar Ingu Rut velfarnaðar í námi sínu.
Bæjarstjórn veitir leyfið og óskar Ingu Rut velfarnaðar í námi sínu.
Bæjarstjórn óskar bæjarbúum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 20.20

Getum við bætt efni síðunnar?