Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga

64. fundur 24. ágúst 2011 kl. 18:00 - 18:40 Álfagerði

Fundur haldinn í bæjarstjórn miðvikudaginn 24. ágúst, 2011 kl. 18.00 í
Álfagerði.
Mættir eru bæjarfulltrúarnir: Ingþór Guðmundsson, Erla Lúðvíksdóttir, Hörður
Harðarson, Inga Sigrún Atladóttir, Oddur Ragnar Þórðarson, Sveindís Skúladóttir og
Kristinn Björgvinsson.
Einnig mætt: Eirný Vals, bæjarstjóri er ritar fundargerð.
Inga Sigrún Atladóttir, forseti bæjarstjórnar stýrir fundi.
1. Fundargerð 116. fundar bæjarráðs.
Fundargerð 116. fundar. Forseti gefur orðið laust varðandi einstök atriði hennar.
Fundargerðin er samþykkt samhljóða.
Til máls tóku: Inga Sigrún, Hörður Harðarson.
2. Kjör forseta, varaforseta, annars varaforseta, tveggja skrifara og tveggja
varaskrifara bæjarstjórnar.
Tilnefnd er Inga Sigrún Atladóttir sem forseti bæjarstjórnar.
b) Tilnefndur er Bergur Brynjar Álfþórsson sem varaforseti.
c) Tilnefndur er Oddur Ragnar Þórðarson sem annar varaforseti.
d) Tilnefnd eru Erla Lúðvíksdóttir og Sveindís Skúladóttir sem skrifarar og Hörður
Harðarson og Björn Sæbjörnsson sem varaskrifarar.
Tilnefningarnar eru samþykktar samhljóða.
Til máls tók: Inga Sigrún.
3. Skipan í nefndir og ráð.
Kjör í bæjarráð:
a) Tilnefnd eru Hörður Harðarson, formaður, Inga Sigrún Atladóttir, varaformaður
og Bergur Brynjar Álfþórsson, aðalmenn í bæjarráði.
b) Varamenn Oddur Ragnar Þórðarson, Erla Lúðvíksdóttir og Sveindís
Skúladóttir.
c) L-listinn tilnefnir Kristinn Björgvinsson sem áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og
tillögurétt.
Tilnefningarnar eru samþykktar samhljóða.

Til máls tók: Inga Sigrún.

4. Bæjarmálasamþykkt - Samþykkt um breytingu á samþykkt um stjórn og
fundarsköp Sveitarfélagsins Voga með síðari breytingum, seinni
umræða.
Forseti fer yfir helstu breytingar en þær eru:
Í 7. gr. samþykktar er orðið fimmtudagur fellt út og orðið miðvikudagur kemur í
staðinn. Fyrsta setning fyrstu málsgreinar hljóðar svo eftir breytingu: Bæjarstjórn
heldur fundi að jafnaði einu sinni í hverjum mánuði að jafnaði síðasta miðvikudag
mánaðar.
Á B- lið 60. gr. eru gerðar breytingar:
Eftirtöldum nefndum er bætt inn:
Til eins árs á fundi í apríl ár hvert:
Suðurlindir ohf.,
Suðurlindir ohf. er félag í eigu Hafnarfjarðarbæjar, Grindavíkur og Sveitarfélagsins
Voga. Þriðja hvert ár fer sveitarfélag með formennsku þá er einn aðalmaður og einn
varamaður kjörinn. Önnur ár eru kjörnir tveir aðalmenn og tveir til vara.
Til fjögurra ára á fyrsta eða öðrum fundi að afloknum sveitarstjórnarkosningum.
Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja,
Stjórn Atvinnuþróunarfélagsins er skipuð af stjórn Sambands sveitarfélaga á
Suðurnesjum. Í stjórn sitja sjö aðilar og skulu þeir skipaðir með eftirfarandi hætti: einn
frá hverju sveitarfélagi auk tveggja fulltrúa atvinnulífs á svæðinu. Byggðastofnun
hefur heimild til að tilnefna áheyrnafulltrúa til setu á stjórnarfundum með málfrelsi og
tillögurétti þegar málefni atvinnuþróunar eru til umfjöllunar. Stjórnin skiptir með sér
verkum.
Breytingarnar eru samþykktar samhljóða.
Forseti upplýsti að stefnt er að því að taka upp nýja samþykkt um stjórn og
fundarsköp Sveitarfélagsins Voga þann 28. september.
Til máls tók: Inga Sigrún.

5. Tillaga um að höfuðstóll Framfarasjóðs Sveitarfélagsins Voga verði
nýttur til uppgreiðslu skulda A-hluta við sjóðinn, til greiðslu
framkvæmda árið 2011 og heimild til að draga á sjóðinn allt að 50
milljónum til að mæta rekstri árið 2011. Seinni umræða.
Samþykkt að kynna tillöguna á almennum íbúafundi þann 8. september. Seinni
umræðu frestað til næsta fundar bæjarstjórnar.
Til máls tók: Inga Sigrún.

6. Deiliskipulag Akurgerði, Stóru-Vogaskóli, Vogatjörn.

Deiliskipulagsbreytingin hefur verið auglýst skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr.
123/2010. Umhverfis- og skipulagsnefnd fjallaði á 33. fundi sínum um þær
athugasemdir sem bárust að liðnum athugasemdafresti og skilaði tillögu um
afgreiðslu þeirra og skipulagsins til bæjarstjórnar í sérstakri greinargerð dags.
09.08.2011.
Niðurstaða umhverfis- og skipulagsnefndar:
Umhverfis- og skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að gerðar verði eftirfarandi
breytingar og lagfæringar:
1. Lagfæringar verði gerðar á skilmálum skipulagsins, í kafla 1.5 greinagerðar að
íbúðafjöldi innan deiliskipulagsins er 35 að viðbættum þeim 4 íbúðum sem bætast við
breytinguna og að tilgreint verði nýtingarhlutfall 0,4 fyrir húsgerð B og 0,6 fyrir
húsgerð C í köflum 3.2 og 3.3.

Að öðru leyti er lagt til að breytt deiliskipulag á reitnum Akurgerði, Stóru-Vogaskóli,
Vogatjörn verði samþykkt óbreytt frá auglýstri tillögu.
Bæjarstjórn samþykkir deiliskipulagið samhljóða skv. uppdrætti og greinargerð dags
20. apríl, 2011 með þeim breytingum sem gerðar hafa verið samkvæmt tillögu
umhverfis- og skipulagsnefndar þó með þeirri breytingu að nýtingarhlutfall
húsagerðar C1 og C2 er 0,4 í stað 0,6. Bæjarstjórn tekur fram að á uppdrætti dags.
20. apríl, 2011 sem kynntur var á heimasíðu sveitarfélagsins er breyting frá uppdrætti
dags. 14. apríl, 2011 sem hékk uppi á skrifstofu sveitarfélagsins á kynningartímanum.
Breytingin er að getið er húsagerðar C1 og C2 í skýringum svo samræmi er á milli
skýringa og skýringasniða er sýna hæðir húsa en engar efnislegar breytingar.
Málsmeðferð verði í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Til máls tóku: Inga Sigrún.
7. Deiliskipulag Kálfatjarnar.
Deiliskipulagstillagan hefur verið auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr.
123/2010. Umhverfis- og skipulagsnefnd fjallaði á 33. fundi sínum um þær
athugasemdir sem bárust að liðnum athugasemdafresti og skilaði tillögu um
afgreiðslu þeirra og skipulagsins til bæjarstjórnar í sérstakri greinargerð dags.
09.08.2011.
Niðurstaða umhverfis- og skipulagsnefndar:
Umhverfis- og skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að gerðar verði eftirfarandi
breytingar og lagfæringar:

1. Lagfærð verði skipulagsmörk á uppdrætti, þannig að skipulagsmörk við Hlið
verði færð til norðvesturs að endamörkum Harðangursbletts og línur sem sýna slóða
norðan við sumarhúsið verði fjarlægðar.
2. Í greinargerð á uppdrætti verði gerð grein fyrir hvernig frárennsli og
neysluvatni er háttað og hvaðan brunavörnum er sinnt.
3. Í sérskilmálum svæðis B verði hámarkshæð áhaldahúss lækkuð í 6,5m og
gerð verði grein fyrir hámarkshæð skýlis fyrir jarðvegsefni 3,0m.
4. Í sérskilmálum svæða B, C og E verði nýtingarhlutfall minnkað í 0,2.
5. Í almennum skilmálum fyrir svæðið í heild verði ákvæði líkt því sem nú er í
sérákvæðum um svæði B um að mikilvægt sé að byggingar á svæðinu í heild, utan
Kálfatjarnarkirkju og þjónustuhúss, verði látlausar í landslagi og að allur frágangur
taki mið af því, og ákvæðið jafnframt fellt út úr sérskilmálum fyrir svæði B.
6. Í almennum skilmálum verði bætt við svohljóðandi ákvæði: „Allt svæðið er
hraunsvæði sem nýtur sérstakrar verndar samkvæmt 37. gr. laga nr. 44/1999 um
náttúruvernd og því er mikilvægt að öllu raski á hrauni beggja vegna
Vatnsleysustrandarvegar verði haldið í lágmarki og að heildstæðar hraunmyndanir fái
að halda sér. (Þessi viðbót kemur á eftir texta ,, ....... skal jarðrask, vegir og stígar
vera í lágmarki.“)

Að öðru leyti er lagt til að deiliskipulag Kálfatjarnar verði samþykkt óbreytt frá
auglýstri tillögu.
Bæjarstjórn samþykkir deiliskipulagið samhljóða skv. uppdrætti og greinargerð dags.
18. ágúst, 2011 með þeim breytingum sem gerðar hafa verið samkvæmt tillögu
umhverfis- og skipulagsnefndar. Málsmeðferð verði í samræmi við 1. mgr. 42. gr.
skipulagslaga nr. 123/2010.

Til máls tók: Inga Sigrún.

Fleira ekki gert og fundi slitið við undirritun fundargerðar kl. 18.40

Getum við bætt efni síðunnar?