Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga

91. fundur 26. apríl 2010 kl. 06:30 - 07:30 Í bæjarráði

Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga

91. fundur

 

Fundur haldinn í bæjarráði Sveitarfélagsins Voga, mánudaginn 26. apríl 2010 kl. 6.30 að Iðndal 2.

 

Mættir eru: Birgir Örn Ólafsson, Hörður Harðarson og Inga Sigrún Atladóttir, auk Róberts Ragnarssonar bæjarstjóra og Eirnýjar Vals bæjarritara er ritar fundargerð í tölvu.

Inga Rut Hlöðversdóttir situr fundinn undir 11. lið.

 

Formaður bæjarráðs leggur fram eftirfarandi bókun.

 

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum eru fundir bæjarstjórnar opnir almenningi. Af því leiðir að fundir nefnda og ráða eru lokaðir, nema annað sé sérstaklega ákveðið. Í 52. gr. Samþykktar um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins Voga er þessi skilningur ítrekaður. Gögn sem send eru til bæjarfulltrúa fyrir lokaða fundi eru því ekki til opinberrar birtingar fyrr en bæjarstjórn hefur fjallað um þau.

 

Formaður bæjarráðs harmar það að oddviti minnihlutans geti ekki virt þann trúnað og fari með fundargögn bæjarráðs í fjölmiðla áður en umræða hefur farið fram í bæjarráði eða bæjarstjórn.

 

  1. Fundargerð 773. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Fundargerðin er lögð fram.

 

  1. Ársreikningur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Ársreikningurinn er lagður fram.

 

  1. Ársreikningur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf.

Ársreikningurinn er lagður fram.

 

  1. Bréf frá félagi íslenskra atvinnuflugmanna dags. 25. mars, 2010. Reykjavíkurflugvöllur áfram í Vatnsmýrinni.

Bréfið er lagt fram.

 

  1. Ársreikningur Sveitarfélagsins Voga fyrir árið 2009.

Ársreikningur ásamt endurskoðunarskýrslu lagður fram.

 

Gerðar hafa verið breytingar á ársreikningi þeim sem var tekinn til fyrri umræðu þann 23. mars í samræmi við álit Reikningsskila- og upplýsinganefndar nr. 1/2010 um færslu leigusamninga fasteigna og annarra mannvirkja í bókhaldi og reikningsskilum sveitarfélaga og nr. 2/2010 um færslu á lóðum og lendum í bókhaldi og reikningsskilum sveitarfélaga.

 

Breytingarnar hafa áhrif á efnahagsreikning sveitarfélagsins um síðustu áramót, þannig að lóðarleigusamningar og réttindi sveitarfélagsins skv fasteignaleigusamningum við EFF og Búmenn eru færð til eignar, meðan skuldbindingar vegna sömu fasteignaleigusamninga eru færðar til skulda. Breytingarnar leiða til rúmlega 606 milljóna króna lækkunar á eigin fé sveitarfélagsins. Bætist þessi lækkun við rúmlega 100 milljóna áður samþykkta lækkun á eigin fé til að leiðrétta eignarhluti í samstarfsverkefnum á Suðurnesjum og afskrifta á skuld hafnarsjóðs við aðalsjóð.

 

Eigið fé sveitarfélagsins verður eftir breytingarnar jákvætt um 879,5 m.kr.

 

Ársreikningurinn verður tekinn til fyrri umræðu þann 6. maí næstkomandi og seinni umræðu 27. maí.

 

  1. Upplýsingar vegna eldgoss og viðbrögð við öskufalli.

Upplýsingar frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum lagðar fram.

 

  1. Skýrsla um framkvæmd í skólamötuneyti.

Skýrslan er lögð fram.

Niðurstöður skýrslunnar gefa til kynna að matargerð verktaka sé ekki í samræmi við verklýsingu og heilsustefnu skólanna. Verktakanum hefur verið send skýrslan og óskað eftir viðbrögðum. Svör hafa ekki borist.

 

Skólastjórar og bæjarstjóri hafa ítrekað gert athugasemdir og óskað úrbóta á þeim þremur skólaárum sem samstarfið hefur verið við verktakann. Þykir þeim fullreynt að fá hann til að fylgja verklýsingunni og leggja því til að samningnum verði sagt upp með vísan til 18. liðar í Útboðs- og verklýsing vegna mötuneytis frá maí 2007.

 

Bæjarráð samþykkir tillöguna.

 

Meirihluti bæjarráðs ítrekar að uppsögn á samningum við Söluvitann hefur ekki áhrif á stefnu E-listans varðandi áframhald á gjaldfrjálsum skólamáltíðum.

 

  1. Hýsingarmiðstöð Midgard.

Minnisblað vegna verkefnisins liggur fyrir fundinum. Auk þess leggur bæjarstjóri fram gögn sem áður hafa verið kynnt fyrir bæjarfulltrúum vegna verkefnisins.

 

Minnihluti bæjarráðs bókar að bæjarstjórn eigi að móta sér stefnu um styrki vegna atvinnuuppbyggingar áður en gengið er frá eignarhluta Framfarasjóðs í fyrirtækjum sem hyggja á atvinnustarfsemi í Vogum.

 

Meirihluti bæjarráðs áréttar að ekki er verið að fjalla um styrki heldur hlutafé til Midgard.

 

  1. Stuðningur við Virkjun. Endurupptekið frá 89. fundi.

Bæjarráð samþykkti á 89. fundi að styrkja Virkjun að því tilskyldu að allir aðilar sem óskað er eftir stuðningi frá taki þátt.

 

Nú er ljóst að Grindavíkurbær hefur ákveðið að taka ekki þátt.

 

Minnihluti bæjarráðs leggur fram tillögu um að fyrri ákvörðun standi.

Tillagan er felld með tveimur atkvæðum gegn einu.

 

Meirihluti bæjarráðs samþykkir að taka þátt í verkefninu, og greiða sömu upphæð og áður hafði verið ákveðið eða krónur 358.628.-

 

  1. Bréf frá SSS dags. 13. apríl, 2010 varðandi beiðni Þroskahjálpar um styrk.

Erindið er lagt fram og ekki tekin afstaða til þess, þar sem það varðar ekki Sveitarfélagið Voga.

 

Birgir Örn víkur af fundi kl. 07.08.

Inga Rut Hlöðversdóttir tekur sæti hans.

 

  1. Vogajarðir. Tilboð.

Á 90. fundi bæjarráðs var lagt fram tilboð landeiganda Stóru-Voga til Sveitarfélagsins Voga um kaup á hlut hans í heiðalandi Vogajarða.

 

Bæjarstjóra var falið að gera gagntilboð. Fyrir fundinum liggur undirritað gagntilboð eiganda Vogajarða við gagntilboði sveitarfélagsins, ásamt söluyfirliti, veðbandayfirliti og öðrum nauðsynlegum gögnum. Bæjarstjóri hefur undirritað tilboðið með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar.

 

Jafnframt er lagt fram bréf frá hluta landeigenda Vogajarða dags. 20. apríl, þar sem sjónarmið landeigenda eru reifuð og sveitarfélagið hvatt til þess að ganga ekki að tilboði landeiganda Stóru- Voga.

 

Með vísan til afstöðu annarra landeigenda í fyrrnefndu bréfi má ljóst vera að erfitt verður að ná samstöðu innan eigendahópsins um framtíðaruppbyggingu landsins. Í ljósi þess og vegna óvissu um hvort þörf verður á byggingarlandi innan sveitarfélagsins í bráð, telur bæjarráð að það kaupverð sem sveitarfélaginu stendur til boða sé of hátt og leggur því til að tilboðið verði ekki samþykkt.

 

Inga Rut víkur af fundi kl. 07.12.

Birgir Örn tekur sæti á fundi kl. 07.12.

 

  1. Tilboð í öryggiskerfi og brunavarnir.

Bæjarstjóri víkur af fundi meðan á afgreiðslunni stendur vegna tengsla við stjórnanda hjá einu þeirra fyrirtækja sem leitað var til.

 

Bæjarritari fer yfir tilboð sem hún og umsjónarmaður eigna hafa aflað í öryggiskerfi og brunavarnir.

 

Bæjarráð felur bæjarritara að ganga til samninga við Securitas og Slökkviþjónustu Suðurnesja.

 

  1. Úthlutunarreglur íbúðahúsalóða.

Á 90. fundi bæjarráðs var samþykkt að auglýsa lóðina Vogagerði 23 með 50% afslætti.

Bæjarstjóri leggur fram þær úthlutunarreglur sem notaðar hafa verið við úthlutun í Dalahverfi og Hólagötu.

 

Bæjarráð samþykkir að fylgja úthlutunarreglum vegna Dalahverfis við úthlutun lóðarinnar Vogagerði 23. Jafnframt samþykkir bæjarráð að í auglýsingu lóðarinnar verði bætt við ákvæðum um byggingarhraða í grónu hverfi í samræmi við þau ákvæði sem giltu við úthlutun lóða við Hólagötu.

 

  1. Endurgerð gatna. Breyting á forgangsröðun.

Bæjarstjóri leggur fram minnisblað með tillögu um að forgangsröðun í framkvæmdaáætlun verði breytt og Heiðargerði sunnan Ægisgötu verði endurgerð í ár, í stað Iðndals, og framkvæmdir fari fram sem fyrst.

 

Bæjarráð samþykkir tillöguna og felur skipulags- og byggingafulltrúa að útbúa verklýsingu og útboðsgögn.

 

  1. Endurbætur á lóð Heilsuleikskólans Suðurvalla. Undirritaður verksamningur.

Undirritaður verksamningur við Nesprýði er lagður fram.

Bæjarráð fagnar því að framkvæmdir séu hafnar.

 

 

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 07.30.

Getum við bætt efni síðunnar?