Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga

165. fundur 19. febrúar 2014 kl. 07:00 - 08:30 á bæjarskrifstofu
Nefndarmenn
  • Kristinn Björgvinsson formaður
  • Oddur Ragnar Þórðarson
  • Bergur Álfþórsson
Fundargerð ritaði: Ásgeir Eiríksson bæjarstjóri
Dagskrá

1.Uppbygging raforkuflutningskerfis á Reykjanesi

0707013

Landsnet áframsendir til kynningar nýja skýrslu frá verkfræðistofunni Eflu um líftímakostnað loftlína og jarðstrengja.
Lögð fram skýrsla Verkfræðistofunnar Eflu frá janúar 2014 um loftlínur og jarðstrengi, kostnaðarsamanburður 220kV - fimm tilfelli. Landsnet sendi sveitarfélaginu skýrsluna til kynningar.

2.Uppbygging hjúkrunarheimila á Suðurnesjum

1302037

Samfylkingin sendir sveitarfélaginu til kynningar ályktun stjórnar Landssamtakanna 60+
Lögð fram ályktun stjórnar Landssamtakanna 60+, sem Samfylkingin sendi sveitarfélaginu til kynningar. Ályktunin fjallar um útvistun á rekstri hjúkrunarheimila til einkaaðila, landssamtökin gera alvarlegar athugasemdir við vaxandi einkavæðingu í rekstri hjúkrunarheimila á Íslandi.

3.Styrktarsjóður EBÍ 2014

1402018

Eignarhaldfélag Brunabótafélags Íslands vekur athygli á styrktarsjóði félagsins, sem aðildarfélögum gefst nú kostur á að sækja um framlag úr.
Lagt fram bréf Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands (EBÍ), dagsett 4. febrúar 2014. Bréfið er sent öllum aðildarsveitarfélögum EBÍ. Í bréfinu er athygli aðildarsveitarfélaganna vakin á Styrktarsjóði EBÍ, en tilgangur sjóðsins er að styrkja með fjárframlögum sérstakar athuganir eða rannsóknir á ýmsum þróunarþáttum í atvinnulífi, samgöngum, fræðslu- og menningarmálum í aðildarsveitarfélögum. Sveitarfélögunum er boðið að senda inn umsókn um stuðning við verkefni sem fellur undir reglur sjóðsins. Bæjarstjóra falið að kanna frekar möguleika á verkefnum sem sækja má um stuðning við.

4.Mótun landsskipulagsstefnu 2015-2026

1401069

Skipulagsstofnun býður sveitarfélaginu að taka þátt í störfum samráðsvettvangs um mótun landsskipulagsstefnu 2015-2026
Lagt fram bréf Skipulagsstofnunar dags. 20. janúar 2014. Í bréfinu er boð til sveitarfélagsins um þátttöku í samráðsvettvangi vegna mótunar landsskipulagsstefnu 2015 - 2026.

5.Beiðni um samstarf

1402009

Inkasso ehf. óskar eftir samstarfi við bæjarráð um innheimtur sveitarfélagsins.
Lagt fram bréf Inkasso ehf. dags. 31. janúar 2014. Í bréfinu býður fyrirtækið sveitarfélaginu samstarf í innheimtu. Bæjarstjóra falin nánari skoðun málsins.

6.styrkbeiðni 2014

1402022

Lundur forvarnarfélag sækir um fjárhagsstyrk til starfsemi sinnar.
Lagt fram bréf Lunds, forvarnarfélags (ódagsett) þar sem óskað er eftir fjárhagsstuðningi við starfsemi félagsins. Bæjarráð getur ekki orðið við erindunu.

7.Umsókn um byggingarleyfi

1310012

Birgir Þórarinsson í Minna-Knarrarnesi óskað að nýju eftir framkvæmdaleyfi fyrir byggingu 40m2 kirkju að Minna-Knarrarnesi. Óskað er eftir að bæjarráð leiti eftir meðmælum Skipulagsstofnunar fyrir framkvæmdinni, með vísan til 57.gr.1.tl. Skipulagslaga nr. 123/2010.
Lagt fram bréf Birgis Þórarinssonar dagsett 12. febrúar 2014. Í bréfinu er óskað eftir framkvæmdaleyfi fyrir byggingu 40m2 kirkju að Minna-Knarrarnesi. Bréfritari fer þess á leit við sveitarfélagið að leitað verði eftir meðmælum Skipulagsstofnunar fyrir framkvæmdinni, ásamt því að vitna til fordæmis fyrir beitingu 57.gr. 1.tl. skipulagslaga nr 123/2010. Í bréfinu er einnig rökstuðningur fyrir beiðninni. Loks kemur fram í bréfinu að stefnt sé að gerð deiliskipulags fyrir Minna-Knarrarnes á næstu mánuðum að ljúka þeirri vinnu innan 1 árs.
Bæjarráð samþykkir beiðni bréfritara og leggur til við bæjarstjórn að leitað verði eftir meðmælum Skipulagsstofnunar fyrir framkvæmdinni, með vísan til 57.gr. 1.tl. skipulagslaga nr. 123/2010.

8.Kaup á húsnæði heilsugæslunnar

1311040

Fyrir liggja drög að kaupsamningi um húsnæði heilsugæslunnar. Kaupverð er 8,2 m.kr., útborgun er 1,2 m.kr. og eftirstöðvar greiðast með skuldabréfi til 3ja ára, óverðtryggt með 6% vöxtum.
Lögð fram drög að kaupsamningi um húsnæði heilsugæslunnar. Kaupverð er 8,2 m.kr., sem greiðist að hluta með handbæru fé og að hluta með skuldabréfi. Fyrir liggur heimild til kaupanna í samþykktri fjárhagsáætlun ársins.
Bæjarráð samþykkir kaupsamninginn fyrir sitt leyti og felur bæjarstjóra að undirrita skjölin og ganga frá kaupunum.

9.Æfinga- og áhaldahús Golfklúbbs Vatnsleysustrandar

1312012

Drög að samkomulagi vegna byggingar áhalda- og æfingahúss.
Lögð fram samkomulagsdrög sveitarfélagsins við Golfklúbb Vatnsleysustrandar um fjárhagsstuðning vegna byggingar æfinga- og áhaldahúss klúbbsins. Samkomulagið gerir ráð fyrir að fjárveitingin standi undir afborgunum og vöxtum af bankaláni sem klúbburinn tekur hjá bankastofnun, lánsfjárhæðin er 6 m.kr og lánstíminn er 8 ár. Samþykkt samhljóða.

10.Kynningarátak sveitarfélagsins

1209027

Kaja Studios býður fram þjónustu sína um gerð kynningarmyndbands fyrir sveitarfélagið
Lagður fram tölvupóstur Halldórs Pálssonar f.h. Kajastudios, dags. 7.2.2014. Fyrirtækið býður fram þjónustu í gerð kynningarmyndbanda fyrir sveitarfélagið. Bæjarráð þakkar frumkvæðið en getur ekki orðið við erindunu.

11.Samstarfssamningur við Sjálfstæðisfélag Voga

1402002

Á 164. fundi bæjarráðs lagði Bergur Brynjar Álfþórsson fram fyrirspurnir til Odds Ragnars Þórðarsonar vegna málsins.
Málið var áður á dagskrá 164. fundar bæjarráðs, þar sem fulltrúi E-lista, Bergur Brynjar Álfþórsson lagði fram fyrirspurnir til Odds Ragnars Þórðarsonar, fulltrúa H-lista í bæjarráði.

Af hálfu Odds Ragnars eru eftirfarandi svör fyrir fyrirspurnunum lögð fram:
Spurning: " 2. grein segir "Með samningi þessum viðurkennir sveitarfélagið vogar þjónustuhlutverk og gildi Munins í samfélaginu". Hvert er þjónustuhlutverk og hver eru þau gildi sem óskað er eftir að sveitafélagið viðurkenni?

Svar: Þjónustuhlutverkið er að þjónusta og hugsa um sjálfstæðismenn í Vogunum. Vera vettvangur fyrir þá til að koma skoðunum sínum á framfæri í bæjarpólitík og í landspólitík. Almenns eðlis er farið í gildi félaga í samstarfssamningum Sveitarfélagsins Voga án þess að það þurfi að kafa ofan í það sérstaklega enda er það nokkuð augljóst þegar Sjálfstæðisfélag er annarsvegar. Um er rætt eitt stærsta stjórnmálafélag landsins og því líklega vettvangur fyrir hlutfallslega alveg jafn marga íbúa Voga.

Spurning: Í 4. grein segir " Muninn samþykkir að sinna pólitísku félagsstarfi almennt fyrir íbúa Sveitarfélagsins. Fulltrúi Munins sækir landsfund Sjálfstæðisflokksins á Íslandi sem og kjördæmis og fulltrúaráð flokksins í kjördæminu."
Mun Muninn sinna pólitísku starfi fyrir alla íbúa sveitarfélagsins, þar með talið félögum í VG, Framsóknarflokknum, Bjartri Framtíð, Pírötum, Samfylkingunni sem og óflokksbundnum?

Svar: Öllum ætti að vera ljóst að átt er við Sjálfstæðismenn í þessu samhengi án þess að það hafi verið talin sérstök þörf á að stafa það fyrir Berg Brynjar Álfþórsson og mætti flokka þessa spurningu hans sem útúrsnúning frekar en spurningu.

Með hvaða hætti sér Muninn að það þjóni hagsmunum íbúa sveitarfélagsins að fulltrúi félagsins sæki landsfund Sjálfstæðisflokksins á Íslandi og fulltrúaráðsfundi flokksins í kjördæminu?
Svar: Eins og áður sagði er um Sjálfstæðisfélag að ræða sem er eitt stærsta stjórnmálaafl landsins. Þar með má gera ráð fyrir að félagið sé málpípa stórs hluta íbúa Voganna. Með hliðsjón af því er það augljóst hagsmunaverk bæjarstjórnar hvers sveitarfélags að hlúa að svoleiðis félögum en ef hugsunin er aðeins fjárhagsleg ætti spyrjandi að enduskoða spurninguna og hlutverk sitt í bæjarráði / bæjarstjórn.

Telur stjórn Munins sér ófært að standa fyrir pólitísku félagsstarfi án aðkomu og stuðnings sveitarfélagsins?
Svar: Það kostar almenning um 15.000 kr. að leigja sal í Vogunum eina kvöldstund. Við skulum snúa spurningunni við og spyrja: Hvað hafa verið haldnir margir opinberir politískir fundir í Vogunum undanfarin 4 ár. Svarið er: Einn og hann var kostaður af Sjálfstæðisfélaginu Muninn. Enginn annar skipulagður fundur hefur verið haldinn svo vitað sé af hálfu nokkru öðru stjórnmálafélagi. Vert er að minna bæjarfulltrúa á verkefni sitt og menningarlegt gildi stjórnmálafélaga almennt.

Bergur Brynjar Álfþórsson óskar bókað: "Þakka framkomin svör fyrir spurningunum. Afstaða mín til málsins hefur ekki breyst, og leggst ég gegn því að gerðir verði samstarfssamningar við stjórnmálasamtök í sveitarfélaginu."

Kristinn Björgvinsson ítrekar fyrri afstöðu sína að hann telji óviðeigandi að sveitarfélagið geri samstarfssamning við stjórnmálasamtök.

12.Fundargerðir 2014

1402020

Lagt fram fundarboð aðalfundar Eignarhaldsfélags Suðurnesja
Lagt fram fundarboð aðalfundar Eignarhaldsfélags Suðurnesja, sem haldinn verður 27. febrúar 2014. Bæjarráð felur bæjarstjóra að sækja fundinn fyrir hönd sveitarfélagsins.

13.Fundir Reykjanes Jarðvangs 2014

1402026

Lögð fram fundargerð 9. fundar stjórnar frá 14.02.2014
Lögð fram fundargerð 9. fundar stjórnar Reykjanes Jarðvagns sem haldinn var 14.02.2014.

14.Fundargerðir Sambands íslenskra sveitarfélaga 2014

1402012

Lögð fram fundargerð 812. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarféalga
Lögð fram fundargerð 812. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var 31. janúar 2014.

15.Fundargerðir Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja, Kölku, 2014

1401072

Lögð fram fundargerð 445. fundar stjórnar Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja
Lögð fram fundargerð 445. fundar stjórnar Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sem haldinn var 13. febrúar 2014.

Fundi slitið - kl. 08:30.

Getum við bætt efni síðunnar?