Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga

115. fundur 07. júlí 2011 kl. 06:30 - 08:40 Iðndal 2

Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga

115. fundur

 

Fundur haldinn í bæjarráði Sveitarfélagsins Voga, fimmtudaginn 7. júlí, 2011 kl. 06.30 að Iðndal 2.

 

Mætt eru: Hörður Harðarson, Inga Sigrún Atladóttir, Oddur Ragnar Þórðarson og Kristinn Björgvinsson, auk Eirnýjar Vals bæjarstjóra er ritar fundargerð í tölvu.

 

 1. Tilboð í verkið ,,endurgerð gatna 2011“.

Fundargerð tilboðsfundar dags. 21. júní liggur fyrir fundinum.
Kostnaðaráætlun var 63.917.700.-
Þrjú tilboð bárust. Lægsta tilboð var 10,8% lægra en kostnaðaráætlun, frá Ellerti Skúlasyni hf.
Bæjarstjóra falið að ganga frá verksamning við lægstbjóðanda.

 1. Umhverfismál og umhirðuáætlun.

Bréf Þorvaldar Árnasonar varðandi lúpínu lagt fram.

Forstöðumaður umhverfis- og eigna, umhverfis- og skipulagsnefnd og frístunda- og menningarfulltrúi falið að vinna að endurskoðun umhirðuáætlunar og marka stefnu í umhverfismálum.

 

 1. Bréf frá Jöfnunarsjóði, dags. 9. júní, 2011. Framlög úr Jöfnunarsjóði.

Bréfið er lagt fram.

Bæjarráð bar saman úthlutanir framlaga úr Jöfnunarsjóði árið 2009 til nokkurra sambærilegra sveitarfélaga að stærð hvað íbúafjölda varðar. Áberandi er hve framlag Jöfnunarsjóðs til Sveitarfélagsins Voga er lágt og var beðið um skýringar á því.

Starfsmenn Jöfnunarsjóðs hafa farið yfir úthlutanir og er niðurstaðan sú að meginforsenda lægra framlags til sveitarfélagsins sé að skattstofnar eru ekki fullnýttir.

 

 1. Fundargerðir 23. og 24. verkfunda endurbóta fráveitu.

Fundargerðirnar eru lagðar fram.

Farið verður yfir sáningu þegar í ljós kemur hvernig til hefur tekist og endursáð eftir þörfum.

Verkinu er lokið.

Bæjarráð þakkar verktaka fyrir vel unnin störf og fagnar því að endurbótum fráveitu er lokið.

 

 1. Fundargerðir 15., 16., 17., 18., 19. og 20. verkfunda uppbyggingar knattspyrnuvalla.

Fundargerðirnar eru lagðar fram.

Forúttekt fór fram 23. júní. Þar kom fram að hreinsa þurfi upp torfusnepla á svæðinu og sópa mold og sandi af stéttum og stígum.

Lokaúttekt fer fram þegar úrbótum er lokið.

Þar sem kalt og þurrt var í júní hafa vellirnir verið seinni til að gróa en vonir stóðu til. Stefnt er að því að vígja íþróttavellina á fjölskyldudaginn 13. ágúst.

 

 1. Fundargerð 53. fundar fræðslunefndar.

Fundargerðin er lögð fram.

Bæjarráð óskar eftir greinargerð frá skólastjóra varðandi sérkennslumál í Stóru-Vogaskóla.

 

 1. Fundagerðir 787. og 788. funda stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Fundargerðirnar eru lagðar fram.

 

 1. Fundargerðir 338. og 339. funda stjórnar Hafnasambands Íslands.

Fundargerðirnar eru lagðar fram.

 

 1. Fundargerð 1. fundar stjórnar Atvinnuþróunarfélags Suðurnesja.

Fundargerðin er lögð fram.

 

Inga Sigrún Atladóttir víkur af fundi kl. 07.25

 

 1. Bréf frá Ungmennafélaginu Þrótti, dags. 25. júní, 2011.

Bréfið er lagt fram.

Bæjarráð þakkar Ungmennafélaginu Þrótti fyrir ómetanlegt framlag til bæjarbúa. Teknar verða upp viðræður um nýjan samning við félagið.

Vísað til fjárhagsáætlunar 2012.

 

Inga Sigrún Atladóttir mætir á fund kl. 07.45

 

 1. Erindi Minjafélags Vatnsleysustrandar frá 112. fundi bæjarráðs, ósk um styrk.

Vísað til fjárhagsáætlunar fyrir árið 2012.

 

 1. Bréf frá Icefitness ehf, dags í maí, 2011. Umsókn um styrk.

Bréfið er lagt fram.

Bæjarráð samþykkir að styrkja Icefitness, skólahreysti, um 50 þúsund krónur.

 

 1. Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 1. júní, 2011. Öryggi á sundstöðum.

Bréfið er lagt fram.

 

 1. Bréf frá Hestamannafélaginu Mána, ódagsett. Íslandsmót barna, unglinga og ungmenna 2011. Beiðni um styrk.

Bréfið er lagt fram.

Ekki er hægt að verða við beiðninni.

 

 1. Fundargerð 410. fundar stjórnar Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja.

Fundargerðin er lögð fram.

 

 1. Fundargerð 4. fundar stjórnar DS.

Fundargerðin er lögð fram.

 

 1. Fundargerð fundar 12. maí, 2011 með sveitarstjórnarmönnum, eignaraðilum DS.

Fundargerðin er lögð fram.

 

 1. Fundargerð 32. fundar samvinnunefndar um svæðisskipulag Suðurnesja.

Fundargerðin er lögð fram.

 

 1. Fundargerð stjórnar Reykjanesfólkvangs frá 27. apríl, 2011.

Fundargerðin er lögð fram.

 

 1. Fundargerð 224. fundar heilbrigðisnefndar Suðurnesja.

Fundargerðin er lögð fram.

 

 1. Fundargerð 626. fundar stjórnar SSS.

Fundargerðin er lögð fram.

 

 1. Fjölsmiðjan á Suðurnesjum.

Vísað til fjárhagsáætlunar 2012.

 

 1. Eignarhaldsfélagið Fasteign.

Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga hefur fengið kynningu á hugmyndum að rammasamkomulagi sem mögulega kann að nást á milli Eignarhaldsfélagsins Fasteignar hf. (,,Fasteign“), lánadrottna félagsins, hluthafa og leigutaka. Megininntak fyrirliggjandi rammasamkomulags kemur fram í kynningu sem lögð hefur verið fram á fundinum, en inntak þess er í grundvallaratriðum eftirfarandi:

 • Íslandsbanki mun yfirtaka eignir Fasteignar sem ekki tilheyra sveitarfélögunum. Leigueign Arion banka hf. í Borgarnesi kann þó að verða undanskilin við yfirtökuna. Íslandsbanki mun jafnframt yfirtaka hluta af rekstrarláni félagsins, sem nemur samtals um 1 ma.kr., í hlutfalli við virkan eignarhlut bankans í Fasteign eftir útgöngu Álftaness og Garðabæjar úr félaginu.

 • Hlutafé Fasteignar verður fært niður í núll en aukið að nýju af þeim aðilum sem áfram munu vera leigutakar félagsins og þá í hlutfalli við leigugreiðslur þeirra. Samhliða því framselja aðrir núverandi hluthafar sem ekki verða áfram leigutakar félagsins hluti sína til félagsins.

 • Gengið verður frá breyttum/nýjum lánasamningum við lánadrottna Fasteignar. Álag á lánum Glitnis til Fasteignar verður fast, 1,45% frá miðju ári 2011 og út árið 2014. Vextir af lánunum verða greiddir að fullu, en afborganir frá miðju ár i 2011 og út árið 2014 lækka tímabundið um 50%. Stefnt er að því að endurgreiðslutími lánanna verði 25-27 ár og að mælt verði fyrir um sérstaka uppgreiðsluheimild án álags í samningunum. Íslandsbanki hefur að auki óskað eftir að EUR-lánum þeirra verði breytt í ISK-lán og að höfuðstóli lánanna verði breytt til samræmis við starfsreglur bankans. Fasteign mun gera samkomulag við bankana þess efnis að breytingar á lánasamningunum muni ekki hafa nein áhrif á réttarstöðu félagsins vegna gengislána.

 • Nýir leigusamningar munu verða gerðir milli Fasteignar og leigutaka félagsins. Mun leigugjald samkvæmt samningunum framvegis taka mið af raunverulegum afborgunum Fasteignar af lánum félagsins og rekstrarkostnaði þess. Með breytingunum verður rekstur félagsins lágmarkaður þannig að megintilgangur þess verður að móttaka leigugreiðslur og ráðstafa þeim til niðurgreiðslu lána og vaxta auk eftirlits með viðhaldi og meðferð fasteigna félagsins. Í samningunum verður jafnframt ákvæði sem mælir fyrir um heimild Fasteignar til að reikna 5% álag ofan á leigutekjur samkvæmt leigusamningum vegna kostnaðar við rekstur félagsins og til að tryggja sjóðstöðu þess. Stefnt er að því að heimildin verði rýmri til að byrja með ef nauðsynlegt reynist til að byggja upp sjóði félagsins. Í leigusamningunum verður jafnframt mælt fyrir um kauprétt leigutaka að þeim eignum sem þeir leigja. Kauprétturinn mun taka gildi í lok leigutímans og hefur það í för með sér að þegar áhvílandi lán viðkomandi fasteignar hafa verið gerð upp getur leigutakinn eignast viðkomandi eign gegn mjög lágri lokagreiðslu. Einnig er til skoðunar að útfæra kauprétt leigutaka sem yrði virkur áður en öll lán eru að fullu greidd. Þá er stefnt að því að leigutími allra samninganna verði samræmdur til 25-27 ára. Jafnframt mun samhliða þessu verða gerður sérstakur samningur milli leigutaka og Fasteignar þar sem leigutakar taka yfir og bera ábyrgð á viðhaldi, rekstri og endurnýjun þeirra eigna sem þeir leigja.

 • Fasteign mun einnig ganga frá uppgjöri við Álftanes og greiðir til Íslandsbanka það sem fæst greitt upp í eftirstöðvar veðskuldabréfsins (u.þ.b. 68%). Íslandsbanki mun aflétta veðböndum af þeim eignum sem Álftanes yfirtekur og lækka lánin í samræmi við verklagsreglur bankans um láns sem breytt er yfir í ISK. Þá munu Íslandsbanki og Fasteign gera með sér nýjan lánasamning um eftirstöðvar lánsins sem ekki hafa fengist greiddar. Stefnt er að því að Fasteign fái greitt 68% af vangreiddri leigu. Að öðru leyti gerir Fasteign kröfu um að viðmið í uppgjöri verði endurkaupaverð/bókfært verð leigueigna sveitarfélagsins. fasteign hefur ekki lokið samningum við fjárhaldsstjórn Álftaness.

 

Bæjarráð samþykkir að haldið verði áfram samningsumleitunum á þessum forsendum með það að markmiði að ganga frá samningum í samræmi við þetta.

 

Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga ítrekar að Eignarhaldsfélagið Fasteign hefur ekki sinnt viðhaldi sem skyldi á fasteignum þeim sem sveitarfélagið leigir af félaginu. Fasteignirnar voru metnar þegar Fasteign keypti þær og áföllnu viðhaldi haldið eftir. Ekki hefur verið bætt úr því sem þá var talið áfallið viðhald. Einnig eru gallar á nýbyggingu við íþróttamiðstöð, bent var á þær þegar verk var tekið út. Þá hefur allt frá því Tjarnarsalur var tekinn í notkun verið farið fram á að gólf yrði lagfært. Mikil þörf er á viðhaldi sundlaugar, sjálfs laugarkassa. Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga hafnar því að taka yfir viðhald leigueigna í því ástandi sem eignirnar eru í dag.

 

 1. Boð umhverfisráðherra til VII. Umhverfisþings.

Boðið er lagt fram. Umhverfisþing verður haldið á Selfossi þann 14. október, 2011.

Vísað til umhverfis- og skipulagsnefndar.

 

 1. Almenningssamgöngur, tillaga að áætlun.

Tillaga að áætlun lögð fram.

Forseta bæjarstjórnar falið að vinna áfram að bættum almenningssamgöngum við sveitarfélagið.

 

 1. Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 1. júní, 2011. Leiðbeinandi fyrirmynd að gjaldskrá samkvæmt skipulagslögum.

Lagt fram.

Bæjarstjóra og byggingarfulltrúa falið að vinna drög að gjaldskrá fyrir sveitarfélagið.

 

 1. Bréf frá Vegagerðinni, dags. 9. júní, 2011. Vinnusvæðamerkingar í þéttbýli.

Bréfið er lagt fram.

Bæjarráð samþykkir að frá og með 1. maí, 2012 gildi reglugerðin hjá Sveitarfélaginu Vogum.

 

 1. Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 25. maí, 2011. Umsögn um frumvarp til sveitarstjórnarlaga.

Bréfið er lagt fram.

 

 1. Bréf frá Ungmennafélagi Íslands, dags. 20. maí, 2011. Ráðstefnan ungt fólk og lýðræði.

Bréfið er lagt fram.

Vísað til frístunda- og menningarnefndar.

 

 1. Bréf frá Þjóðskjalasafni Íslands, dags. 19. maí, 2011. Skil á eldri skjölum sveitarfélagsins til Þjóðskjalasafns Íslands.

Bréfið er lagt fram.

 

 1. Fundargerð stýrihóps og verkefnahóps um eflingu menntunar á Suðurnesjum.

Fundargerðin er lögð fram.

 

 1. Minnispunktar frá fundi um velferðarmál á Suðurnesjum.

Minnispunktarnir eru lagðir fram.
Athygli er vakin á að samstarfshópur velferðarvaktarinnar um velferð á Suðurnesjum hefur skilað fyrstu áfangaskýrslu sinni.  Í skýrslunni er meðal annars að finna umræðu um  félagslegar aðstæður á svæðinu, helstu aðgerðir ríkisins og yfirlit yfir styrkleika svæðisins, sjá slóðina

http://www.velferdarraduneyti.is/rit-og-skyrslur-vel/nr/32835

 

 1. Námstæknimiðstöð.

Erindi Hjálmars Árnasonar framkvæmdastjóra Keilis lagt fram.

Beiðni um sameiginlega námstæknimiðstöð fyrir Suðurnes vísað til fjárhagsáætlunar 2012.

 

 1. Undirbúningur fjárhagsáætlunar.

Bæjarstjóra veitt heimild til að vinna með bæjarstjórum á Suðurnesjum, leitað verði leiða til að auka samstarf, bæta þjónustu og lækka kostnað.

 

 1. Viðbragðsáætlun.

Samkvæmt lögum um almannavarnir ber sveitarfélögum að áhættugreina og gera áætlanir við samfélagsáföllum.

Bæjarráð beinir þeim tilmælum til stjórnar SSS að unnin verði viðbragðsáætlun fyrir Suðurnes í heild sinni.

 

 

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 08.40

Getum við bætt efni síðunnar?