Umhverfisnefnd Sveitarfélagsins Voga

4. fundur 05. maí 2004 kl. 17:30 - 19:50 Iðndal 2

4. fundur í Umhverfisnefnd Vatnsleysustrandarhrepps var haldinn

miðvikudaginn 5. maí 2004 að Iðndal 2 í Vogum kl. 17:30

Mættir eru: Þorvaldur Örn Árnason, Margrét Ingimarsdóttir, Guðrún Andrea

Einarsdóttir, Erna Margrét Gunnlaugsdóttir og Helga Ragnarsdóttir sem jafnframt

ritar fundargerð.

Einnig sátu fundinn: Garðar Þorsteinsson, fulltrúi og Björn Barkarson, deildarstjóri

hjá Landgræðslu ríkisins; ásamt Oktavíu J. Ragnarsdóttur og Snæbirni Reynissyni frá

Landgræðslu- og skógræktarfélaginu Skógfelli.

1. mál Gróðurverndarmál í hreppnum.

Þorvaldur bauð þá Björn og Garðar velkomna á fundinn, einnig Oktavíu og Snæbjörn.

Rætt var um stöðu landgræðslu í Vatnsleysustrandarhreppi.

Landgræðslan hefur lagt til tilbúinn áburð í beitarhólfin á Ströndinni, 10,8 tonn á

síðast ári. Stóru-Vogaskóli og Golfklúbburinn hafa fengið 600 kg af áburði hvor aðili

og einnig dálítið fræ. Landgræðslan hefur séð um girðinguna um beitarhólfið, en

Vegagerðin kemur einnig að því máli. Markmiðið með þessum verkefnum er

landgræðsla en með beitarhólfinu einnig friðun lands fyrir búfé.

Áburðar- og frædreifing á Vogastapa sem framkvæmt hefur verið með Páli

Sveinssyni, flugvél landgræðslunnar, þykir ekki eins aðkallandi og áður. Hefur

dreifing á Stapann dregist saman og var aðeins farin ein ferð í fyrra. Áburðarkaupin

hafa meðal annars verið styrkt af Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS).

Nefndu Björn og Garðar að í framtíðinni væri litið til þess að dreifing á tilbúnum

áburði minnkaði í hólfinu en lífrænn úrgangur væri þess í stað notaður til uppgræðslu.

Nýting á lífrænum úrgangi í sveitarfélaginu var nokkuð til umræðu. Mikið fellur til af

skít frá eggjabúinu Nesbúi og svínabúi Ali að Minni-Vatnsleysu. Það kom fram í

máli þeirra Björns og Garðars að það væri þungt í vöfum að nýta slíkan úrgang. Hann

er verðmætur en dýr í flutningi og erfitt að ákveða hver eigi að standa straum af

kostnaðinum. Heilbrigðiseftirlitið gerir kröfur um gerla- og lyktarmengun keyri ekki

úr hófi og að vatnsbólum sé ekki spillt.

Svínabúið hefur fjárfest í búnaði til að ná vatninu úr mykjunni og látið dreifa megninu

af þurrmykjunni á blásið land umhverfis búið. Einnig hefur svolitlu verið dreift í

Krísuvík til þess að bæta beitarhólf Hafnfirðinga og ber búið kostnað af flutningi en

Landgræðslan af dreifingu. Líklega fer mikið af níturáburðinum enn út í sjó en

fróðlegt væri að vita efnainnihald þurrmykjunnar. Úrgangurinn frá hænsnabúinu hefur

undanfarin ár aðallega verið nýttur til uppgræðslu á Miðnesheiði. Fram kom áhugi á

að nýta þennan áburð í meira til uppgræðslu í hreppnum. Svo fellur hrossaskítur til í

vaxandi mæli og er m.a. nýttur í garða og skógrækt.

Lausaganga búfjár frá Grindavík var einnig rædd. Sauðfé þaðan virðir ekki

hreppamörk og hefur m.a. valdið vandræðum á svæði Skógræktarfélagsins við

 

Háabjalla. Björn benti á að nú hafi verið ljáð máls á beitarhólfi í Grindavík til að friða

land fyrir búfé líkt og gert hefur verið í Vatnsleysustrandarhreppi og Sandgerði.

Björn sagði að Landgræðslan væri að breyta stuðningi sínum við landgræðslu. Föst

verkefni eins og hér um ræðir væru á undanhaldi en þess í stað muni þeir sem græða

vilja upp sækja um styrk í stérstakan sjóð, sem reyndar er heldur rýr ennþá. Hann taldi

stuðninginn við beitarhólfið ekki sjálfgefinn til lengdar. Þeir væru t.d. fúsari að styðja

dreifingu á skít en að kaupa tilbúinn áburð.

Björn, Garðar, Oktavía og Snæbjörn viku hér af fundi, kl. 18:40.

2. mál Vinna að umhverfisáætlun hreppsins – stutt kynning

Formaður gerði grein fyrir hugmyndum um að hreppurinn geri umhverfisáætlun til

næstu þriggja eða fimm ára. Að mati nefndarinnar falla slíkar hugmyndir vel að

verksviði nefndarinnar, sbr. erindisbréf hennar og verkefnaskrá. Áætlun sem þessi

gæti orðið farvegur að Staðardagskrá 21. Umhverfisnefnd fagnar þessu framtaki og

vill vinna ötullega að undirbúningi þess og framkvæmd.

3. mál Hreinsunarátak

Vísað er í meðfylgjandi tillögu að dreifibréfi. Sjá þarf til þess að rusl verði sótt inn á

strönd og að gámasvæðið verði opið báða dagana.

Nefndin leggur til að hreppsnefndarmenn og sveitarstjóri mæti í ruslatínslu við

tjörnina og í Aragerði annanhvorn daginn ásamt umhverfisnefndarmönnum og fleirum

til að undirstrika mikilvægi þess að halda umhverfi okkar hreinu og snyrtilegu.

Hugsanlega mætti einnig gera þar eitthvað til skemmtunar. Tími verði ákveðinn síðar.

4. mál Afgreiðsla og undirritun fundargerðar

Fundargerð síðasta fundar (nr. 3) sem rituð var í tölvu var lesin, samþykkt og

undirrituð. Fundargerð þessa fundar (nr. 4) var ekki hægt að rita jafnóðum í tölvu því

hún fór ekki í gang. Ritun hennar og undirritun dróst því um nokkra daga.

 

Fundi slitið kl. 19:50

Getum við bætt efni síðunnar?