Skipulagsnefnd Sveitarfélagsins Voga

33. fundur 18. janúar 2022 kl. 17:30 - 18:30 Fjarfundur
Nefndarmenn
  • Áshildur Linnet formaður
  • Friðrik V. Árnason varaformaður
  • Ingþór Guðmundsson aðalmaður
  • Andri Rúnar Sigurðsson aðalmaður
  • Gísli Stefánsson áheyrnarfulltrúi
  • Guðmundur Kristinn Sveinsson varamaður
Starfsmenn
  • Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri
  • Davíð Viðarsson
Fundargerð ritaði: Davíð Viðarsson skipulags-og byggingarfulltrúi.
Dagskrá

1.Fagridalur 6 - Umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi

2201008

Þórhallur Garðarsson sendir inn fyrirspurnarteikningu vegna fyrirhugaðar byggingu bílgeymslu við Fagradal 6. Um er að ræða 76,7 fermetra bílgeymslu á lóð við lóðamörk. Útveggir eru staðsteyptir að þeim hliðum er snúa að Fagradal 8 og Miðdal 7, klæðning veggja á framhlið og hlið sem snýr að bakgarði verður úr timbri eins og fyrir er á íbúðarhúsi.
Samþykkt
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Umsóknin samræmist aðalskipulagi en deiliskipulag liggur ekki fyrir og er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Samþykkt er að grenndarkynna erindið í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 áður en umsókn um byggingarleyfi er afgreidd. Erindið skal kynna íbúum og eigendum Fagradals 3,4,5,7,8 og Miðdal 5, 7 og 9.

2.Iðndalur 7-11 fyrirspurn vegna breytinga á deiliskipulagi

2201013

Jón Magnús Halldórsson sendir inn fyrirspurn er snýr að auknu byggingarmagni og fleiri hæðum húsa. Til stendur að gera tvö 5. hæða hús með 28 íbúðir 2-3ja herbergja og 300 fermetra verslunarhúsnæði ætlað fyrir dagvöruverslun.
Frestað
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Nefndin frestar málinu.

3.Göngustígar án lýsingar

2111042

Bæjarráð vísar erindi Birkis Rútssonar varðandi lýsingu göngustíga til Umhverfis- og skipulagsnefndar. Á fundi Skipulagsnefndar 19. nóvember 2021 lagði nefndin til að lýsing göngustíga yrði sett á fjárhagsáætlun næsta árs. Birkir biður um að göngustígar meðfram strandlengjunni fái að haldast rökkvaðir svo hægt sé að njóta næturhiminsins áfram.
Samþykkt
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Núna er í skoðun lýsing nokkura göngustíga til að bæta öryggi þeirra. Skoðaðar verða ýmsar lausnir og þar á meðal lýsing með lágum staurum minna en einn meter sem eiga ekki að vera truflandi fyrir þá sem vilja skoða næturhimininn.

4.Landeldi ehf. óskar eftir lóð undir landeldi fyrir bleikju og lax

2201014

Félagið hefur áhuga á að verja fjármunum í rannsóknir á svæðinu sumarið 2022 til að kanna físileika á stóru landeldisverkefni. Sveitarfélagið Vogar býður upp á fágæta kosti sem henta landeldi en það er aðgangur að jarðsjó og fersku vatni ásamt nálægð við hafnir og flugvöll fyrir afurðir félagsins. Það er ósk forsvarsmanna Landeldis ehf. að sveitarfélagið taki vel í erindið og í framhaldi verði hafnar formlegar viðræður um samstarf.
Samþykkt
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Nefndin tekur vel í erindið og leggur til við bæjarstjórn að kannað verði frekara samtal við Landeldi ehf. Einnig verði frekari kynning á verkefninu fyrir nefndarmenn, skipulagsfulltrúa og bæjarráð.

5.Landsnet- Kæra vegna Suðurnesjalínu 2

2104247

Lagt er fyrir nefndina minnisblað vegna Suðurnesjalínu 2 um stöðu málsins frá Ívari Pálssyni hrl. og Sveini Valdimarssyni verkfræðing og verkefnastjóra málsins.
Samþykkt
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Nefndin er sammála því að fá sérfræðinga til að leggja mat á sjónarmið Landsnets um öryggi loftlínu í ljósi eldhræringa á Reykjanesi. Nefndin heimilar fyrir sitt leiti að leitað verði ráðgjafar vegna málsins hjá hlutlausum aðilum eins og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

6.Skiltahandbók samstarfsverkefni

2111015

Kynnt er samstarfsverkefni sveitarfélaga á Suðurnesjum um samræmingu skilta. Ætlunin er útbúa sameiginlega skiltahandbók sem gæfi viðmið á útliti, litum, stærð og fleiru til að einfalda vinnuaðferðir og skapa heildrænt útlit til að einfalda íbúum og ferðamönnum að rata um sveitarfélögin.

Þessi vinna er rétt að hefjast og en er nokkur óvissa um hversu viðamikið verkefnið verður. Framvinda verkefnisins verður kynnt þegar líður á en markmiðið er að til verði sameiginleg skiltahandabók fyrir sveitarfélögin á Suðurnesjum um eða eftir næstu áramót.
Lagt fram
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Nefndin tekur vel í erindið.

Fundi slitið - kl. 18:30.

Getum við bætt efni síðunnar?