Traustur grunnur í ört vaxandi sveitarfélagi

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga ásamt bæjarstjóra
Efri röð frá vinstri: Friðrik Valdimar Árnason,…
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga ásamt bæjarstjóra
Efri röð frá vinstri: Friðrik Valdimar Árnason, Kristinn Björgvinsson, Björn G. Sæbjörnsson, Birgir Örn Ólafsson og Andri Rúnar Sigurðsson
Neðri röð frá vinstri: Inga Sigrún Baldursdóttir, Gunnar Axel Axelsson og Eva Björk Jónsdóttir

Mikil og jákvæð uppbygging á sér stað í Sveitarfélaginu Vogum og er fyrirséð að íbúum muni fjölga ört á næstu misserum. Í fjárhagsáætlun ársins 2023 sem afgreidd var eftir síðari umræðu á fundi bæjarstjórnar í gær leggur bæjarstjórn áherslu á að standa vörð um góða grunnþjónustu og ábyrgan rekstur. Áfram verður unnið markvisst að því að auka skilvirkni í rekstri sveitarfélagsins þannig að það geti staðið við skuldbindingar sínar og sinnt nauðsynlegum verkefnum í ljósi fyrirsjáanlegs vaxtar.

Uppbygging innviða

Á næsta ári verður lögð áhersla á að ljúka við nauðsynlegar fráveituframkvæmdir í sveitarfélaginu sem er mikilvægt skref í því ferli að tryggja að sveitarfélagið geti mætt fyrirsjánlegri fjölgun íbúa og tryggt viðunandi þjónustustig. Áfram verður unnið að undirbúningi annarra mikilvægra innviðaverkefna, svo sem undirbúning að uppbyggingu á sviði skóla- og íþróttamála, lagningu göngu- og hjólreiðastíga, gatnagerðar í Keilisholti, deiliskipulagningu ofan Dalahverfis og endurnýjun á búnaði til götulýsingar. Þá verður unnið áfram í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja að undirbúningi að opnun heilsugæslusels í Vogum en áætlað er að það taki til starfa á nýju ári.

Almenn hagræðingarkrafa

Til að tryggja að sveitarfélagið geti staðið undir nauðsynlegri uppbyggingu, mætt nýjum áskorunum og verkefnum en jafnframt tryggt góða þjónustu til framtíðar, gerir fjárhagsáætlun næsta árs ráð fyrir almennri hagræðingu í öllum málaflokkum. Við útfærslu hagræðingaraðgerða er lögð áhersla á að standa vörð um grunnþjónustuna, m.a. starfsemi leik- og grunnskóla, hægja á eða takmarka nýráðningar eins og kostur er, bæta nýtingu húsnæðis og auka hagkvæmni í öllum innkaupum.

Lækkun fasteignagjalda

Sveitarfélagið Vogar lækkar álagningarhlutfall fasteignagjalda á árinu 2023 og kemur þannig til móts við hækkun fasteignamats í sveitarfélaginu og leggur sitt af mörkum til að draga úr álögum á íbúana og vinna gegn verðbólgu. Heildarálagning fasteignagjalda íbúðarhúsnæðis lækkar úr 1,14% í 1,095%.

Almennar gjaldskrár munu fylgja verðlagsþróun og er lögð áhersla á að þær séu í eðlilegu samræmi við bæði kostnað við veitingu þjónustunnar og gjaldtöku annarra sveitarfélaga fyrir sambærilega þjónustu.