150 ára afmæli skólahalds í Sveitarfélaginu Vogum. Afmælisþættir (42) - Lesa, skrifa og reikna - í 150 ár!

42. þáttur: Lesa, skrifa og reikna – í 150 ár! 

Ein helsta hvatning presta til að stofna skóla seint á 19. öld var að börn lærðu að lesa svo þau gætu í framhaldinu tileiknað sér guðsorð. Þó skólar kæmu til var lestrarkennsla áfram á heimilum og skyldu börn hefja lestrarnám fyrir 5 ára aldur. Árið 1907 urðu tíu til fjórtán ára börn skólaskyld. Þau skyldu koma læs í skólann, en á því var misbrestur. Þegar 7 ára börn í bæjum og kaupstöðum urðu skólaskyld á 4. áratugnum eykst lestrarkennsla í skólum til muna og hljóðaaðferð ryður sér til rúms í stað stöfunaraðferðar. Gagn og gaman, sem kom fyrst út 1933, byggði á notkun hjóðaaðferðar. Bókin er ríkulega myndskreytt, fyrst eru orð kynnt og þeim síðan raðað saman í orðshluta og orð. Stöfunaraðferðin lifði þó áfram og var enn við lýði í okkar skóla á níunda áratugnum.

Þegar leikskólar koma til sögunnar í lok 20. aldar á sér þar stað markviss málörvun sem greiðir mjög fyrir lestrarnámi í skólum. Alla 5 ára veru barns í leikskóla á sér stað lestrarnám – eða undirbúningur þess. Mikið er lesið fyrir börnin og þau skoða bækur og fletta þeim. Hilla fyrir fötin þeirra er merkt með nafni þeirra og þau læra að þekkja það og fleiri áletranir á veggjum leikskólans. Bókin Lubbi finnur málbein er mikið notuð í leik og starfi að kynna og þjálfa málhljóð - hljóðlestur - og eru íslensku málhljóðin í brennidepli. Bókin er samin af talmeinafræðingum og nýtist bæði börnum sem glíma við erfiðleika í máltöku og hinum sem læra málið án vandkvæða.

 

Í 10. þætti er minnst á tilkomu stafrófskvera á 18. og 19. öld. Samt var Nýja testamentið ennþá algengasta lestrarkennslubókin í landinu upp úr aldamótunum 1900. Með fræðslulögunum 1907 minkaði kristindómskennsla í skólum. Varð lesturinn þá meira tengdur sögu og menningu þjóðarinnar, móðurmál (íslenska) varð aðalnámsgein skólans (m.a. ritgerðasmíð, stafsetning og málfræði) og réttritun varð sérstök námsgrein. Lestrarkunnátta er lykill að andans auði þjóðarinnar, sagði Guðmundur Finnbogason í byrjun 20. aldar.

Í námskrá fyrir barnaskóla sem var fyrst gefin út 1929 segir m.a. um lestur að leggja skuli höfuðáherslu á skilning á efninu, góðan framburð og eðlilegan hraða og að nemendur læri kvæði og skýri þau.

 

Hvar kreppti skóinn árið 1934? Þegar greindar voru niðurstöður landsprófs í hljóðlestri, stílagerð og stafsetningu það ár, reyndust verstu efiðleikarnir ekki vera ritun z og y, og tvöföldun samhljóða, heldur kynvillur, beygingavillur og allra mest hljóðvillur. „Maðurin er farin, en konann og börnin eru farinn“ eru algengar villur um allt land. Börn segja „mér langar“ og „mig hlakkar til“. Ruglingur á e-i og ö-u er mjög útbreiddur. 22,6% fullnaðarprófsbarna þess árs ruglar saman e og i, og tíunda hvert barn þekkir ekki mun á ö og u. Í einstaka skólahéruðum eru öll börn hljóðvillt. Skást er þetta í S-Þingeyjarsýslu.

 

Framboð á lestrarefni eykst gríðarlega þau 150 ár sem skólinn okkar hefur starfað. Það á við um blöð, tímarit, bækur og nú síðast lesefni á vef. Það á einnig við um sérhæft námsefni. Í 21. þætti segir frá námsgögnum.

 

Bókasafn Lestrarfélagsins Baldurs, sem var pakkað niður 1909 til að varna berklasmiti, var endurreist í nýju húsi Brunnastaðaskóla eftir áratuga lokun. Það hefur alltaf þjónað bæði nemendum og almenningi og verið til húsa í skólanum nema rúman áratug í lok 19. aldar að það var í Vogaseli (Iðndal 2) í Vogum. Nú er það miðsvæðis í skólabyggingunni, þröngt en mjög aðlaðandi eins og myndin ber með sér og nemendur eru þar tíðir gestir, ekki síst þeir yngri.

Lengi vel voru mun fleiri íslendingar læsir en skrifandi. Skrift var kennd frá fyrsta degi okkar skóla. Veturinn 1876 -‘77 var 5 stundum í viku varið til lestrarkennslu. Alla tíð er gefin einkunn fyrir skrift. Skriftarkennsla var síðan lögboðin 1880. Skólinn á Vatnsleysusrönd hefur lengst af útvegað námsgögn m.a. til skriftarkennslu, t.d. árið 1909 bæði ein- og tvístrikaðar forskriftarbækur.

 

 

Með verslunarfrelsi og tækniframförum varð reikningur æ mikilvægari. Í janúar 1880 setur Alþingi lög um uppfræðing barna í skrift og reikningi og skyldu prestar sjá til þess. „Reikningur skal að minnsta kosti ná yfir samlagning, frádragning, margföldun og deiling í heilum og tölum og tugabrotum.“ Í lögunum 1907 er einnig krafist grunnatriða flatarmáls- og rúmfræði. Með tilkomu unglingadeila upp úr miðri 20 öld aukast kröfurnar og var þá víða farið að bjóða upp á bókfærslu. Lengst af voru lesdæmi tengd daglegu lífi en hefur þótt skorta að nemendur læri það sem allir þurfa að kunna um eigin fjármál.

 

Á fundi skólanefndar sumarið 1969 sagði skólastjóri frá fyrithuguðu námskeiði í mengjafræði. Hann lagði til að kennarar héðan færu og hafði sótt um fyrir þrjá. Nefndin var því sammála, enda nám í mengjafræði það sem koma skuli í öllum skólum. Mengjafræði hefur síðan verið kennd, aðallega yngri börnum.

Áratug síðar, 1980, var haldið tveggja kvölda námskeið í skólanum til að kynna stærðfræðinámsefni 6 – 9 ára barna fyrir foreldrum.

Jón Ingi Baldvinsson kenndi stæðfræði frá 1980 – 2012, lengst af á unglingastigi, einkum 10. bekk. Kenndi samlagningu, frádrátt, margföldun, deilingu, almenn brot, tugabrot, flatarmál, rúmfræði, mælieiningar, hlutföll, vexti o.fl. Fyrstu árin fór hann, eins og fleiri, á kennaranámskeið í stærðfræðikennslu. Jón kenndi lengi bækurnar Almenn stærðfræði 8, 9, 10. Annað efni er kennt í dag, en Almenn stærðfræði notuð með og í sérkennslu. Hann telur þessar bækur vera góðar, sérstaklega fyrir nemendur sem gátu bjargað sér sjálfir, því þarna eru góð sýnidæmi og svör aftast í bókinni svo þeir kláru gátu vaðið áfram. Hinir fóru hægar og ekki yfir allt námsefnið, lærðu það sem þeir réðu við. Efnið er þýtt úr sænsku.

Stærðfræðinámsefni í grunnskólum hefur aukist. Þegar framhaldsskólanám styttist úr fjórum í þrjú ár, færist niður í grunnskóla framhaldsskólaáfangi sem hét stæ 103. Nú er m.a. kennt um fjármál, lán, vexti o.fl. í 10. bekk. Sami kennari fylgir krökkunum í 8., 9. og 10. bekk.

 

Alveg frá upphafi og út 20. öldina var prófað í öllum bóklegum greinum tvisvar á vetri, nálægt jólum og í lok skólaárs. Svo hafa verið samræmd próf með ýmsu sniði frá því um 1930 til 2020. Einnig hafa verið metin alls kyns verkefni og smápróf allan veturinn. Nú eru engir sérstakir próf- eða upplestrardagar lengur.

 

Heimildir m.a.: Reglugerðin frá 1872. Gjörðabók skólanefndar og reikningabók. Almenningsfræðsla á Íslandi, fyrra bindi. Reikningsbækur tveggja alda. Upplýsingar frá Ragnheiði Elísabet Jónsdóttur, Jóni Inga Baldvinssyni og Særúnu Jónsdóttur.