Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga

14. fundur 07. nóvember 2006 kl. 17:00 - 17:45 Tjarnarsal

BÆJARSTJÓRN SVEITARFÉLAGSINS VOGA

 

FUNDARGERÐ

 

Árið 2006

14. fundur

 

Fundur haldinn í bæjarstjórn þriðjudaginn 7. nóvember 2006,

kl. 17 í Tjarnarsal.

 

Mættir: Birgir Örn Ólafsson, Inga Rut Hlöðversdóttir, Hörður Harðarson, Anný Helena Bjarnadóttir, Inga Sigrún Atladóttir, Íris Bettý Alfreðsdóttir og Sigurður Kristinsson. Róbert Ragnarsson ritar fundargerð.

 

 

  1. Fundargerð 9. fundar bæjarráðs dags. 10. október 2006.

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

 

  1. Fundargerð 10. fundar bæjarráðs dags. 24. október 2006.

Fundargerðin samþykkt samhljóða.

 

  1. Fundargerð skipulags- og bygginganefndar dags. 31. október 2006.

Með vísan til 1. máls þá samþykkir bæjarstjórn tillögu að breytingu á deiliskipulagi við Akurgerði og Vogagerði og felur skipulags- og byggingafulltrúa að svara framkomnum athugasemdum og senda tillöguna til Skipulagsstofnunar.

 

Með vísan til 4. máls, þá samþykkir bæjarstjórn að veita umsækjendum heimild til að skrá lögheimili sitt að Breiðagerði 17a.

 

Fundargerðin er samþykkt samhljóða.

 

  1. Greinargerð Grant Thornton endurskoðunar um fjárhagsstöðu Sveitarfélagsins Voga.

Bæjarstjóri kynnti helstu niðurstöður greinargerðarinnar á glærum.

 

Forseti bæjarstjórnar leggur fram eftirfarandi bókun fyrir hönd meirihluta:

 

Á fundi bæjarráðs Sveitarfélagsins Voga þann 22. ágúst síðastliðinn var endurskoðendafyrirtækinu Grant Thornton (GT) falið að gera úttekt á fjárhagsstöðu sveitarfélagsins miðað við 30. júní 2006, þ.e.a.s. við stjórnarskipti. Núverandi meirihluti E- listans lagði áherslu á það að vita hver staða sveitarfélagsins væri í raun og veru við meirihlutaskiptin og fá óháðan aðila til að leggja mat á rekstrargrundvöll sveitarfélagsins til framtíðar.

Helstu niðurstöður úttektarinnar eru þessar:

 

Rekstrarniðurstaða fyrir fyrstu 6 mánuði ársins sýnir halla upp á 60,4 m.kr. samanborið við 8,9 m.kr. áætlaðan rekstrarafgang, sem er rúmlega 69 milljónum lakari niðurstaða en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.

 

Veltufé frá rekstri er neikvætt um 19,9 m.kr. en samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir því að það yrði jákvætt um 43,3 m.kr. Það þýðir í raun að rekstur sveitarfélagsins er að taka til sín um 20 milljónir fyrstu 6 mánuði ársins. Æskilegt er að veltufé frá rekstri sé jákvætt svo það geti staðið undir fjárfestingum og afborgunum langtímaskulda.

 

Heildarskuldir þann 30. júní námu 613 m.kr. samanborið við 514 m.kr. í árslok 2005 og hafa þannig hækkað um 99 m.kr. frá ársbyrjun. Þrátt fyrir sölu Stóru- Vogaskóla og Íþróttamiðstöðvarinnar á síðasta kjörtímabili hafa skuldir sveitarfélagsins ekki lækkað, heldur hafa heildarskuldir ásamt langtímaskuldbindingum vegna leigusamninga þess húsnæðis sem selt var hækkað í samtals 1.569 m.kr., eða um 1.541 þús. kr. á hvern íbúa.

 

Endurskoðandafyrirtækið bendir á að árlegar afborganir langtímalána sveitarfélagsins á næstu árum verði ekki undir 50-60 m.kr. miðað við óbreyttan lánstíma þeirra. Við það bætist að leigugreiðslur vegna ofangreindra fasteigna verða að lágmarki 70 milljónir kr. á ári næstu árin. Þótt tekjur sveitarfélagsins muni aukast á komandi árum samfara þeirri íbúafjölgun sem áætlað er þá er fyrirsjáanlegt að reksturinn muni ekki geta staðið undir núverandi afborgunarbyrði langtímalána og leiguskuldbindinga, jafnvel þótt ekki verði um neinar framkvæmdir að ræða hjá sveitarfélaginu á næstu árum.

 

Það er því ljóst að leita þarf allra leiða til að bregðast við viðvarandi rekstrarhalla og skuldasöfnun þannig að sveitarfélagið geti staðið við skuldbindingar sínar þegar til framtíðar er litið.

 

Óhætt er að segja að þessi skýrsla dragi upp nokkuð dökka mynd af fjármálastefnu og fjárhag sveitarfélagsins síðustu ár. Erfitt var fyrir núverandi meirihluta að gera sér góða grein fyrir stöðunni fyrirfram og er óhætt að segja að hún sé mun verri en talið hafði verið. Fjárhagsáætlun ársins 2006 gaf allt aðra stöðu til kynna, auk þess sem ekki kemur nægilega vel fram í ársreikningi hve mikil skuldbinding er falin í rekstarleigusamningum vegna Stóru- Vogaskóla og Íþróttamiðstöðvarinnar.

 

Rekstrarhalli hefur verið á sveitarfélaginu síðustu 4 ár og áætlanir ekki staðist sem skyldi. Hagnaður af sölu eigna hefur að mestu farið í að fjármagna rekstarhalla, sem er skammgóður vermir. Meirihluti bæjarstjórnar harmar að fyrrverandi meirihluti hafi valið að fara ekki þá leið að núvirða skuldbindingar vegna leigusamninga og gera betur grein fyrir þeim í ársreikningi. Ljóst er að skuldbindingin er til langrar framtíðar, þar sem sveitarfélagið hefur ekki kost á því að sækja þá þjónustu til annars aðila heldur er bundið af viðkomandi leigusamning til 30 ára.

 

Það liggur fyrir að bæjarstjórn Sveitarfélagins Voga þarf að skoða gaumgæfilega hvaða leiðir eru færar til að ná rekstri sveitarfélagsins á réttan kjöl. Því er hætt við að mörgum þeim málum sem meirihlutinn vildi koma í verk verði frestað um sinn. Meirihluti E- listans í bæjarstjórn er þó fullur bjartsýni og telur mögulegt að ná jafnvægi í rekstri og byggja upp fjölskylduvænt og gott samfélag í Sveitarfélaginu Vogum. Meirihluti bæjarstjórnar vonast eftir góðu samstarfi við bæjarbúa og minnihluta H- listans við þær aðgerðir sem nauðsynlegt er að grípa til.

 

Inga Sigrún Atladóttir bókar að munur á fjárhagsáætlun og uppgjöri fyrir fyrstu 6 mánuði ársins er að stórum hluta tilkominn vegna starfsmats og áhrifa verðbólgu á fjármagnsliði.

 

Anný Helena Bjarnadóttir óskar eftir svörum H-listans við eftirfarandi spurningum og vill að spurningarnar verði bókaðar.

 

Var ákvörðun um sölu fasteigna lögð fyrir eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, sem metur hvaða áhrif slík sala hefur á afkomu sveitarsjóðs? Ef svo er, hvar er þá greinargerð nefndarinnar?

 

Nokkrar umræður voru um greinargerðina.

 

Til máls tóku: Róbert Ragnarsson, Birgir Örn Ólafsson, Inga Sigrún Atladóttir, Anný Helena Bjarnadóttir, Hörður Harðarson, Íris Bettý Alfreðsdóttir og Inga Rut Hlöðversdóttir.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.45

Getum við bætt efni síðunnar?