Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga

23. fundur 02. júlí 2007 kl. 18:00 - 18:40 Iðndal 2

Aukafundur haldinn í bæjarstjórn mánudaginn 2. júlí 2007, kl. 18 að Iðndal 2.
Mættir: Birgir Örn Ólafsson, Anný Helena Bjarnadóttir, Hörður Harðarson, Inga Rut
Hlöðversdóttir, Inga Sigrún Atladóttir. Íris Bettý Alfreðsdóttir kemur til fundar kl.
18.30. Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri sem jafnframt ritar fundargerð.
1. Sala á hlut Sveitarfélagsins Voga í Hitaveitu Suðurnesja hf.
Bæjarstjórn tók fyrir tilboð frá Geysir Green Energy ehf. í hluti Sveitarfélagsins Voga
í Hitaveitu Suðurnesja. Tilboðið hljóðar upp á að Geysir greiði 7,1 kr fyrir hvern hlut
sveitarfélagsins.
Bæjarstjórn samþykkir að ganga til samninga við Geysir Green Energy á genginu 7,1.
Bæjarstjórn samþykkir að eignarhlutur Sveitarfélagsins Voga verði 0,1% í Hitaveitu
Suðurnesja eftir sölu á 2,62 % eignahlut til Geysir Green Energy ehf.
Samþykkt samhljóða.
Bæjarstjórn leggur fram eftirfarandi bókun.
Þann 3. maí síðastliðinn samþykkti fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins tilboð
Geysirs Green Energy í hlutabréf ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja, á kaupverðinu 6,72
kr. á hvern hlut. Sveitarfélagið Vogar, ásamt öðrum sveitarfélögum sem hlut eiga í HS
áttu þess kost að ganga inn í kaupin á grundvelli forkaupsréttarákvæðis í samþykktum
HS. Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga hefur fjallað um þann möguleika, en talið
kaupverðið of hátt til að réttlæta slíka fjárfestingu.
Síðastliðinn föstudag barst Sveitarfélaginu Vogum tilboð frá Geysir Green Energy um
sölu á hlut Sv. Voga í Hitaveitu Suðurnesja á genginu 7,1 kr. á hvern hlut. Að mati
þeirra fjármálasérfræðinga sem leitað var til er verðið mjög gott, enda rúmlega tvöfalt
á við verðmat sem framkvæmt var fyrir ríkið í aðdraganda útboðs á hlut þeirra.
Sala á hlut sveitarfélagsins við þessar aðstæður eru því taldar ákjósanlegar til að festa
frekar í sessi þann varasjóð sem bréf HS hafa verið sveitarfélaginu hingað til. Með því
að ganga að þessu tilboði hafa bæjaryfirvöld tryggt ákveðið fjármagn sem ávaxta má
með ríkulegum hætti til framtíðar, sveitarfélaginu til heilla.
Aðdragandinn að þessu samningarferli var mjög stuttur og voru því þau sveitarfélög á
Suðurnesjum sem höfðu aðkomu að þessu máli sammála um að vera samstíga í þessu
verkefni og var samstaðan mikil. Það er ljóst að þeir bæjarfulltrúar Sveitarfélagsins
Voga sem hafa samþykkt þennan samning gera það með þeirri forskrift að hér sé um
varasjóð að ræða og því er öryggisventillinn enn til staðar þó svo hann sé í formi

2
fjármagns í stað bréfa í HS. Á næstu misserum verður unnið að því að tryggja sem
best að fjármagnið nýtist íbúum Sveitarfélagsins Voga til framtíðar.
Til máls tóku: Inga Sigrún, Róbert, Hörður, Inga Rut og Birgir.
2. Fundargerð 24. fundar bæjarráðs 12. júní 2007.
Varðandi 22. lið vill bæjarstjórn fagna bættu aðgengi fyrir fatlaða að íþróttamiðstöð
Sveitarfélagsins Voga.
Fundargerðin er samþykkt samhljóða.
Til máls tóku: Inga Rut, Birgir, Inga Sigrún og Róbert.
3. Fundargerð 17. fundar fræðslunefndar dags. 18. júní 2007.
Fundargerðin er lögð fram til kynningar.
Varðandi 6. lið vill meirihluti bæjarstjórnar harma tilhæfulausar ásakanir minnihluta
fræðslunefndar í garð meirihluta fræðslunefndar á 17. fundi fræðslunefndar þann 18.
júní síðastliðinn. Meirihluti bæjarstjórnar lýsir yfir fullu trausti á störfum meirihlutans
í fræðslunefnd og þeim faglegu vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið frá upphafi
kjörtímabils. Fræðslunefnd hefur ákveðnum skyldum að gegna við að framfylgja
stefnu bæjarstjórnar og þeim lögum og reglum sem gilda í fræðslumálum.
Fulltrúum í fræðslunefnd stóð til boða að sækja námskeið um hlutverk fræðslunefnda
í vetur og sóttu allir fulltrúar meirihlutans það námskeið, ásamt einum fulltrúa
minnihluta. Að mati meirihluta bæjarstjórnar hefur fræðslunefnd verið að sinna
hlutverki sínu vel síðastliðinn vetur.
Inga Sigrún vill ítreka bókun minnihluta fræðslunefndar á fundi nefndarinnar þann 18.
júní og hafnar því að gagnrýnin sé tilhæfulaus. Ennfremur hvetur hún til þess að í
framtíðinni verði unnið sameiginlega að hagsmunum skólans.
Anný Helena tekur fram að, í fundargerðum fræðslunefndar sé ekkert að finna sem
styður ásakanir minnihlutans.
Til máls tóku: Birgir, Anný Helena og Inga Sigrún.
4. Fundargerð 6. fundar umhverfisnefndar 27. júní 2007.
Fundargerðin er lögð fram til kynningar.
Til máls tóku: Inga Sigrún, Róbert, Birgir, Hörður, Íris og Inga Rut.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18.40.

Getum við bætt efni síðunnar?