Gengið um Voga og keyrt inn á strönd

Erum að athuga með hitting fyrir alla áhugasama sem vilja koma saman í göngutúr um Voga og rútuferð inn á Strönd laugardaginn þann 24. júlí 2021
Ætlunin er að um hádegi komi þátttakendur saman í einhverjum af samkomusölunum í Vogum t.d. Lions á Sólvöllum, nýju Glaðheimum í Björgunarsveitarhúsinu, Borginni við íþróttahúsið, Álfagerði hjá eldri borgurum eða í Tjarnarsal í Stóru Voga skóla, allt eftir hversu margir taka þátt.
Reiknað er með að hver og einn sjái um að koma sjálfum sér á upphafsstað þar sem fólk getur heilsast og rabbað saman áður en eiginleg dagskrá hefst kl. 13:00. Þar verður flutt stutt kynning (ca. 30 mín.) á tilurð Voga sem þéttbýliskjarna frá 1930 og þróunina fram að deginum í dag eða í um níutíu ár.
Um kl. hálf tvö verður lagt af stað í 5 km. rólegheitagöngu um stíga og götur Voga (sjá mynd) þar sem stoppað yrði á innan við tuttugu stöðum og breytingu á stað og staðháttum, velt upp. Einhverjir í hópnum (tilkynnt síðar) mun segja frá helstu breytingum á viðkomandi svæði og fólk gæti spurt og komið með eigin vangaveltur til hópsins. Þá munum við athuga hvort ekki sé hægt að komast inní t.d. frystihúsið Voga og kannski önnur hús á leiðinni. Við verðum með einhversskonar farartæki; bíl/bíla, eða eitthvað annað sem fótlúnir gætu setið í, þar sem stoppað yrði eins og hægt er á stoppi stöðum sem sýndir eru á meðfylgjandi mynd. Reiknað er með að gönguferðin taki um tvo og hálfan tíma.
Göngunni mun ljúka á sama stað og lagt var upp frá. Þar getur fólk getur létt af sér og fengið sér smá hressingu í um 15 mínútur.
Á staðnum mun rúta bíða okkar og keyrt verður inn á Strönd þar sem stoppað verður við Brunnastaðaskóla, Kirkjuhvol (gamla samkomuhúsið), við heimakirkjuna á Minna Knarrarnesi, Kálfatjarnarkirkju og endað á Stóru Vatnsleystu. Frá Vatnsleysu verður aftur ekið að upphafsstað í Vogum. Reiknað er með að þetta taki um einn og hálfan tíma.
Komið í Voga um kl. hálf sex þar sem léttar veitingar (eitthvað einfalt t.d. kleinur, flatkökur ofl.) verða til reiðu. Þar geta þátttakendur skrafað saman um atburði dagssins og rifjað upp eitthvað frá gamalli tíð.
Miðað er við að dagur sé að kveldi kominn um kl 19:00 en eflaust verður hægt að framlengja eitthvað verði sá gállinn á fólki.
Einhverja ögn kemur þetta til með að kosta en þar sem viðburðurinn er hluti af sumardagskrá Sveitarfélagsins þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af samkomusal né rútu inn Strönd og til baka. Þegar vitað verður um fjölda þá verður samkomustaður og stærð rútu valið og við getum neglt niður kleinu og flatköku fjöldann. Grunn kostnaður er 1000 kr. plús viðbit, kaffi og gos sem skipt verður niður á þáttakendur.
Nú vonum við bara að Covid 19 sé úr sögunni þann 24. júlí og að öllum fjölda takmörkunum sem og grímuskyldu verði aflétt.
Endilega, þau ykkar sem áhuga hafið, skráið ykkur og látið aðra sem ekki eru á Facebook, en vilja vera með, vita af þessari uppákomu.
 
Nánar á facebooksíðu viðburðar HÉR