Föstudagspistill bæjarstjóra 7.1.2022

Gleðilegt ár!

Árið 2022 er gengið í garð, og árið 2021 liðið í aldanna skaut. Ég óska öllu starfsfólki sveitarfélagsins, íbúum, samstarfsaðilum sem og landsmönnum öllum gleðilegs og farsæls nýs árs, með von um bjartari tíma framundan.

Faraldurinn og staða hans

Þrátt fyrir að samfélagið sé nú meira og minna allt undirlagt vegna veirufaraldursins, með tilheyrandi fjölda smita, sóttkví og einangrun, má greina bjartsýnistón hjá sérfræðingum sem hafa leyft sér að segja að e.t.v. megi nú greina upphafið að endi faraldursins. Vonandi að svo sé. Við í Sveitarfélaginu Vogum höfum blessunarlega sloppið vel í faraldrinum, tekist hefur að mestu að halda úti starfsemi skóla og leikskóla. Samkvæmt upplýsingum okkar eru nú 20 íbúar sveitarfélagsins með staðfest smit, og 50 manns eru í sóttkví. Það er því full ástæða til að fara áfram varlega, og huga vel að persónubundnum sóttvörnum. 

Kosningaár er runnið upp

Kjörtímabili sveitarstjórna landsins lýkur á vormánuðum, en kosið verður til sveitarstjórna laugardaginn 14. maí 2022. Tíminn bókstaflega þýtur áfram, og áður en varir er komið að kjördegi. Framundan hér á bæ eru ýmis verkefni, eins og endranær. Meðal annars mun nú á næstu vikum verða efnt til óformlegra samtala við fulltrúa nágrannasveitarfélaganna, þar sem kannaður verður vilji þeirra á að eiga samtal um hugsanlega sameiningu sveitarfélaga. Bæjarstjórn lauk á síðasta ári við valkostagreiningu, og samþykkti á fundi sínum í desember að kanna afstöðu fjögurra sveitarfélaga til slíkra hugmynda. Að fenginni niðurstöðu verður síðan efnt til viðhorfskönnunar meðal íbúa samhliða sveitarstjórnarkosningunum í vor, um það sem út úr þessum samtölum kemur. Það eru því spennandi tímar framundan.

Að lokum óska ég öllum góðrar helgar. Dagana er tekið að lengja - það er því bjart framundan í orðins fyllstu merkingu!

Getum við bætt efni síðunnar?