Betri Vogar
Á heimasíðu sveitarfélagsins er að finna upplýsingar um verkefni er snýr að hugmyndasöfnun fyrir Voga. Verkefnið er vistað inni á Betra Íslands. Íbúar eru hvattir til að skrá sig þar inn og koma með tillögur um verkefni til úrbóta í sveitarfélaginu. Viðtökur hafa nú þegar verið mjög góðar, og margar áhugaverðar hugmyndir eru komnar fram.
Öflugri slökkvibíll í Vogum
Á dögunum komu Jón Guðlaugsson slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja og hans menn og skiptu út slökkvibílnum sem staðsettur er í aðstöðu BS í þjónustumiðstöð sveitarfélagsins. Nú er því kominn "fullvaxinn" slökkvibíll sem er hér staðsettur og tiltækur. Um er að ræða bíl með stórum tank og öflugum dælum, sem og öðrum nauðsynlegum búnaði til slökkvi- og björgunarstarfa.
150 ára afmæli skólahalds
Á þessu ári eru liðin 150 ár frá því skólahald hófst með formlegum hætti í sveitarfélaginu. Velunnari sveitarfélagsins og menningarfrömuður, Þovaldur Örn Árnason, birtir um þessar mundir áhugaverða og fróðlega pistla um sögu skólahaldsins, sem fyllsta ástæða er til að benda á. Við státum af þriðja lengsta samfellda skólahaldi á landinu. Sagan er merkileg og dýrmætt að halda henni til haga. Ég færi Þorvaldi Erni kærar þakkir fyrir pistlana, en þá er að finna á heimasíðu sveitarfélagsins
Faraldurinn
Sem betur fer er veirufaraldurinn í rénum. Í dag eru 46 íbúar í sveitarfélaginu með virkt smit, 32 eru í sóttkví. Svo virðist sem veikindi séu væg, og margt sem bendir til þess að faraldurinn sé loks á undanhaldi. Það er notaleg tilhugsun að vita til þess að með hækkandi sól komi lífið til með að færast að nýju í eðlilegt hort.
Nýr veitingastaður
Þau ánægjulegu tíðindi berast að nýr veitingastaður opni í Iðndal 2 á næstunni. Það er "900 Grillhús" sem stendur fyrir framtakinu, en fyrirtækið er m.a. með starfsemi fyrir í Vestmannaeyjum. Velkomin í Voga!
Að lokum óska ég öllum góðrar helgar - og minni á að í dag er sólargangur sjö og hálf klukkustund, sem er lenging um liðlega þrjár og hálfa klukkustund frá vetrarsólstöðum. Framundan eru því bjartari tímar sem við skulum öll njóta vel.