Föstudagspistill bæjarstjóra 28.1.2022

Suðurnesjalína 2

Fjölmörg viðbrögð urðu við síðasta pistli mínum, þar sem ég tók til umræðu aðkomu Alþingis að málinu. Mikilvægt er að umræðan sé málefnaleg og að hún sé til þess fallin að finna góða og farsæla lausn á því viðfangsefni sem hér er til umfjöllunar. Í næstu viku mun bæjarstjórn senda Alþingi umsögn sína um frumvarp það sem nú er til meðferðar hjá Alþingi, áhugasamir geta kynnt sér umsögnina sem birtast mun á vef sveitarfélagsins að afloknum fundi bæjarráðs n.k. miðvikudag, 2. febrúar. Þessar vikurnar er lögð mikil vinna á vettvangi sveitarfélagsins í umfjöllun um umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi Suðurnesjalínu 2, við gerum okkur von um að þeirri umfjöllun ljúki á næstu vikum. Sveitarstjórnin mun þá að nýju fjalla um og afgreiða umsókn Landsnets.

Faraldurinn

Þau ánægjulegu tíðindi berast nú frá ríkisstjórninni að hafið sé ferli afléttinga samkomutakmarkana og fleira sem sem snýr að faraldrinum. Þetta eru góðar fréttir. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að öllum sóttvarnaraðgerðum innanlands verði aflétt þann 14. mars næstkomandi. Ef vel gengur, jafnvel fyrr. Mikið hefur mætt á starfsfólki sveitarfélagsins allan þann tíma sem faraldurinn hefur staðið, ég hygg þó að á engan sé hallað þegar nefnd er til sögunnar vinna skólastjórnenda við smitrakningu. Því verkefni hefur fylgt mikið álag. Ég færi öllu starfsfólki sveitarfélagsins fyrir frábæra frammistöðu við erfiðar og krefjandi aðstæður. Vonandi erum við komin yfir það versta - og að framundan sé beinn og breiður vegur.

Íþróttamiðstöðin

Við erum um þessar mundir að móta samning við Ungmennafélagið Þrótt um að félagið taki að sér umsjón með rekstri íþróttamiðstöðvarinnar. Þetta verður án efa gæfuspor, jafnt fyrir iðkendur félagsins sem og bæjarbúa alla. Mikill metnaður ríkir af hálfu forsvarsmanna ungmennafélagsins að standa vel að þessu vandasama en mikilvæga verkefni.

Að lokum óska ég öllum góðrar helgar - nú sjáum við orðið talsverðan mun á birtustigi daganna. Framundan eru því bjartari tímar!

Getum við bætt efni síðunnar?