Föstudagspistill bæjarstjóra 27. maí 2022 - kveðjupistill

Sú bæjarstjórn sem kjörin var í kosningunum 2018 lætur nú af völdum, þegar liðnir eru 15 dagar frá sveitarstjórnarkosningum. Ný bæjarstjórn tekur við sunnudaginn 29. maí n.k., og hefur þá 15 daga til að koma saman til fyrsta fundar. Við þessi tímamót rennur ráðningarsamningur minn út, og mun ég í framhaldinu láta af störfum sem bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga þar sem ég hef ekki óskað eftir endurráðningu á því kjörtímabili sem nú fer í hönd.

Ég var ráðinn hér til starfa á haustmánuðum 2011, og hóf formlega störf þann 15. desember það ár. Þetta verða því rétt um tíu og hálft ár sem ég hef setið í stóli bæjarstjóra.

Ég sat minn fyrsta bæjarstjórnarfund í desember 2011, sem var 69. fundur bæjarstjórnar. Frá því þá hafa verið haldnir 125 fundir í bæjarstjórn, ég hef setið 115 þeirra. Á þessum 115 fundum hafa alls 26 bæjarfulltrúar setið fundina, ýmist aðal- eða varamenn í bæjarstjórn hverju sinni. Af þessum hóp hef ég setið flesta fundi með fráfarandi forseta bæjarstjórnar, Ingþóri Guðmundssyni, eða samtals 109 fundi.

Mín gæfa í þessu starfi hefur verið að vinna með góðu samstarfsfólki. Gildir þar einu hvort um er að ræða kjörna fulltrúa, nefndarfólk, starfsfólk sveitarfélagsins, samstarfsaðila og síðast en ekki síst hafa samskiptin við íbúa sveitarfélagsins verið bæði fjölbreytt og gefandi. Það hefur verið ánægjulegt að vera hluti af starfsemi sveitarfélagsins, þar sem að mörgu er að hyggja. Mikilvægast af öllu er að sveitarfélagið veiti íbúum sínum góða þjónustu, með það að markmiði að gera samfélagið hér gott til að búa og starfa í.

Mér hefur þótt sérstaklega vænt um hversu farsælt samstarf mitt við kjörna fulltrúa hefur verið allan þann tíma sem ég hef sinnt starfi bæjarstjóra. Gildir þar einu hvort um er að ræða fulltrúa í meiri- eða minnihluta, ég hef átt því láni að fagna að eiga gott samstarf við þau öll. Mér hefur einnig þótt einstaklega vænt um farsælt og gott samstarf við allt starfsfólk sveitarfélagsins fyrr og síðar, fyrir það er ég þakklátur. 

Sveitarstjórnarstigið hefur tekið miklum breytingum undanfarin ár, og ég vil leyfa mér að segja að það hafi jafnframt tekið miklum framförum. Stöðugt eru gerðar ríkari kröfur til stjórnsýslunnar, og verkefnum fer fjölgandi. Lagaumhverfið verður sífellt flóknara og umfangsmeira, og því mikilvægt fyrir starfsfólk og stjórnendur sveitarfélagsins að vera meðvitað um ákvæði sveitarstjórnarlaga, stjórnsýslulaga, upplýsingalaga, skipulagslaga, lögum um opinbera starfsmenn og svo mætti lengi telja. Verkefnin eru fjölbreytt, og krefjast mikillar þekkingar svo vel sé að þeim staðið.

Að vera bæjarstjóri, eða framkvæmdastjóri sveitarfélags, er með fjölbreyttari störfum sem til eru, ímynda ég mér. Bæjarstjóranum er í raun ekkert óviðkomandi, þegar kemur að starfsemi sveitarfélagsins. Í eðli sínu eru snertifletirnir margvíslegir og af ýmsum toga. Verkefnin eru ótal mörg og afar fjölbreytt, og spanna nánast allt litróf mannlegs samfélags og rekstrarstjórnunar.

Sú bæjarstjórn sem nú lætur af störfum hefur á að skipa afar reynslumiklu og hæfum einstaklingum, sem ánægjulegt hefur verið að vinna með. Fyrir það vil ég þakka á þessum tímamótum. Ég hef átt því láni að fagna að vera tvívegis endurráðinn eftir að ég kom hér fyrst til starfa. Jafnframt þykir mér afar vænt um að í öll þrjú skiptin sem greidd hafa verið atkvæði um ráðningu mína hefur ríkt samstaða um þær ákvarðanir með öllum greiddum atkvæðum í bæjarstjórn. Það er ekki sjálfgefið að svo sé, en jafnframt dýrmætt fyrir mig.

Þrátt fyrir starfslok mín mun ég verða nýrri bæjarstjórn innan handar fyrst um sinn, samkvæmt því sem óskað verður eftir. 

Að lokum þakka ég kjörnum fulltrúum, starfsfólki sveitarfélagsins, samstarfsaðilum og íbúum öllum fyrir ánægjulegt samstarf þessi rúmu tíu ár, og óska um leið Sveitarfélaginu Vogum velfarnaðar í framtíðinni.

Getum við bætt efni síðunnar?