Föstudagspistill bæjarstjóra 25.2.2022

Hilmar Egill nýr skólastjóri

Starf skólastjóra Stóru-Vogaskóla var auglýst laust til umsóknar fyrr á árinu, í kjölfar þess að Hálfdán Þorsteinsson lét af störfum sem skólastjóri. Alls bárust þrjár umsóknir um starfið, meðal umsækjenda var Hilmar Egill Sveinbjörnsson, aðstoðarskólastjóri og starfandi skólastjóri í veikindaforföllum Hálfdáns. Ráðningarferlið var unnið af mannauðsráðgjafa sveitarfélagsins og Hagvangi, ráðningarþjónustu. Að afloknum viðtölum við umsækjendur var niðurstaðan að Hilmar Egill var metinn hæfastur umsækjenda. Hilmar Egill hefur starfað um árabil við Stóru-Vogaskóla, nú síðustu árin sem aðstoðarskólastjóri. Á fundi bæjarstjórnar nú í vikunni var samþykkt tillaga bæjarráðs um að ráða Hilmar Egil sem skólastjóra Stóru-Vogaskóla. Ég óska Hilmari Agli til hamingju með niðurstöðuna og óska honum farsældar í störfum sínum sem skólastjóri Stóru-Vogaskóla.

Veirufaraldurinn er afstaðinn

Í dag, föstudaginn 25. febrúar, er merkisdagur, þegar öllum takmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins hefur verið aflétt. VIð getum því, rétt eins og landsmenn allir, horft bjartsýn fram á veginn. Margir hafa smitast undanfarna daga og vikur, en þrátt fyrir það hefur tekist vel að halda allri þjónustu sveitarfélagsins gangandi. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka öllu starfsfólki sveitarfélagsins fyrir vel unnin störf við erfiðar aðstæður undanfarin tvö ár. 

Óveður og viðvaranir

Veðrið undanfarnar vikur hefur verið erfitt, ekki síst í okkar landshluta. Mikið hefur verið um veðurviðvaranir, með tilheyrandi röskun á samgöngum og færð. Starfsfólk þjónustumiðstöðvar sveitarfélagsins hefur unnið frábært starf við erfiðar aðstæður, tekist hefur að mestu að halda öllum götum og göngustígum opnum þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Þá hafa liðsmenn björgunarsveitarinnar staðið vaktina og sinnt verkefnum sem fylgja þessum aðstæðum. Öllu þessu fólki þakka ég fyrir vel unnin störf við erfiðar aðstæður. 

Að lokum óska ég öllum góðrar helgar. Marsmánuður er handan við hornið, og styttist í jafndægur á voru. Hafið það sem allra best. 

Getum við bætt efni síðunnar?