Suðurnesjalína 2 - aðkoma Alþingis
Nú í vikunni sem er að líða, nánar tiltekið síðdegis miðvikudaginn 19. janúar, tók Alþingi til umræðu frumvarp Ásmundar Friðrikssonar, 6. þingmanns Suðurkjördæmis, og meðflutningsmanna hans. Frumvarpið kveður á um að veita Landsneti hf. framkvæmdaleyfi til að reisa Suðurnesjalínu 2 samkvæmt valkosti C í matsskýrslu Landsnets. Valkostur C er um að línan skuli vera loftlína samhliða Suðurnesjalínu 1.
Það er kunnara en frá þurfi að segja að samkvæmt lögum þessa lands veita sveitarfélögin í landinu framkvæmdaleyfi af þessu tagi, og fara að auki með skipulagsvald í samræmi við ákvæði stjórnarskrá lýðveldisins. Með þessu lagafrumvarpi er því beinlínis verið að taka skipulagsvaldið af sveitarfélögunum sem í hlut eiga og Suðurnesjalína 2 liggur um. Það er þyngra en tárum taki að aðalflutningsmaður þessa frumvarps skuli vera þingmaður okkar kjördæmis, auk þess sem hann hefur sjálfur setið á stóli bæjarstjóra áður en til þingmennsku kom. Það er einnig dapurt að meðflutningsmenn hans að frumvarpi skuli vera fleiri þingmenn kjördæmisins, ásamt nokkrum öðrum þingmönnum. Þessir þingmenn telja sig greinilega umkomna þess að meta hvenær ástæða er til að grípa inn og taka skipulagsvaldið af sveitarfélaginu. Þeir þingmenn kjördæmisins sem eru meðflutningsmenn þessa frumvarps eru Vilhjálmur Árnason, Guðrún Hafsteinsdóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Oddný G. Harðardóttir og Jóhann Friðrik Friðriksson. Með öðrum orðum, 6 af 10 þingmönnum kjördæmisins finnst ekkert athugavert við það að leggja til að skipulagsvaldið sé tekið af sveitarfélaginu. Það er sorglegt. Einungis einn þingmanna kjördæmisins, Guðbrandur Einarsson, sté í pontu við 1. umræðu um frumvarpið, og kom sveitarfélögunum til varnar. Fyrir það ber að þakka.
Sveitarfélagið Vogar hefur lagt sig fram um að finna lausn á þessu vandasama og erfiða máli. Lagðar voru fram tillögur til málamiðlunar áður en Landsnet sótti um framkvæmdaleyfið, sem voru til þess fallnar að ná ásættanlegri lausn fyrir alla aðila. Mikilvægt er að halda því til haga að lausn málsins snýr ekki einungis að sveitarfélaginu, nokkrir landeigendur innan sveitarfélagsins hafa alfarið hafnað samningaumleitunum um kaup á landi undir línustæðið. Þeir hafa áður farið með slík ágreiningsmál alla leið fyrir hæstarétt, og höfðu þá betur. Landsnet vísar alfarið á stefnu stjórnvalda, og segir hendur sínar bundnar af henni.
Nú vill það svo til að það er Alþingi sem mótar stefnu stjórnvalda. Núgildandi stefna er tilgreind í þingsályktun frá árinu 2015. Forsendur um t.a.m. lagningu jarðstrengja hafa mikið breyst á þeim 7 árum sem liðin eru frá því núverandi stefna var mörkuð. Alþingi hóf reyndar drög að endurskoðun þessarar stefnumótunar árið 2018, en sú vinna dagaði uppi í þinginu.
Það er mikill ábyrgðarhluti af hálfu Alþingis að svipta sveitarstjórn skipulagsvaldi. Ég hvet því flutningsmenn frumvarpsins sem og þingmenn alla til að staldra við og leita annarra lausna á viðfangsefninu en að þvinga fram ákvörðun í málinu með lagasetningu. Við slíkar aðgerðir sitja allir eftir með sárt enni og óbragð í munni. Traust sveitarstjórnarstigsins og löggjafavaldsins er í húfi.
Bæjarstjóri er ávallt reiðubúinn að veita upplýsingar um sjónarmið sveitarfélagsins í þessu máli. Fæstir þingmanna kjördæmisins né aðrir þingmenn hafa nýtt sér það.
Að lokum
Þorrinn er genginn í garð, bóndadagurinn er í dag. Ég óska öllum bændum til hamingju með daginn, og vona að þeir njóti vel súrmetis og annarra girnilegra kræsinga sem kunna að verða á vegi þeirra. Nú er bara að þreyja Þorrann og Góuna, eftir það kemur betri tíð með blóm í haga.
Ég óska öllum góðrar helgar!