Samtal um sameiningu
Þessar vikurnar standa yfir samtöl bæjarstjórnarmanna við fulltrúa fjögurra nágrannasveitarfélaga, þar sem rætt er um þann möguleika að Sveitarfélagið Vogar hefjji viðræður um sameiningu við eitthvert þeirra. Tveimur slíkum fundum er lokið, í síðustu viku komu fulltrúar Grindavíkur í heimsókn og í þessari viku hittum við fulltrúa bæjarstjórnar Hafnarfjarðar. Framundan eru sams konar samtöl við fulltrúa Suðurnesjabæjar og Reykjanesbæjar. Samtöl þessi eru ákveðin í kjölfar valkostagreiningar sem unnin var á síðasta ári, þar sem niðurstaðan var að ræða við framangreind fjögur sveitarfélög. Fimmti valkosturinn er einnig til umræðu, þ.e. að sameinast ekki og halda áfram óbreyttri starfsemi. Þá var jafnframt ákveðið að efna til viðhorfskönnunar meðal íbúa sveitarfélagsins, sem verður að öllu óbreyttu lögð fram samhliða sveitarstjórnarkosningunum sem fara laugardaginn 14. maí n.k.
Uppbygging á Grænuborgarsvæði
Nú hefur talsvert líf færst í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á Grænuborgarsvæðinu. Nú er þrír stórir byggingakranar sem standa þar og gnæfa yfir svæðið, og mörg hús nú komin í byggingu. Þegar hafa nokkrar íbúðir verið teknar í notkun og fyrstu íbúarnir fluttir inn fyrir nokkru. Það er ljóst að mikið verður um að vera á næstu misserum, því nú þegar hafa verið laggðar inn fjölmargar umsóknir um byggingaáform. Í kjölfar alls þessa mun íbúum sveitarfélagsins fjölga ört, en samkvæmt nýjustu tölum er þeir nú 1.360 talsins.
Göngu- og hjólreiðastígur yfir Vogastapa
Á fjárhagsáætlun ársins er gert ráð fyrir að halda áfram framkvæmdum við lagningu hjóla- og göngustíga. Í ár verður hugað að tengingu við Innri-Njarðvík, með því að leggja stíg fyrir ganganda og hjólandi frá Vogum upp á Vogastapa og að lögsögumörkum Reykjanesbæjar. Þessi framkvæmd mun einnig hafa í för með sér tengingu við stígakerfið sem liggur áleiðis til Grindavíkur. Lagning þessa nýja stígs mun marka tímamót og bæta samgöngur fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, að ekki sé minnst á aukið öryggi þeirra.
Ungmennafélagið Þróttur tekur við rekstri íþróttamiðstöðvarinnar
Bæjarráð samþykkti á fundi sínum í vikunni samningsdrög við UMFÞ um að félagið taki að sér umsjón með rekstri íþróttamannvirkja sveitarfélagsins. Þetta eru tímamót, og vonandi heillaskref fyrir samfélagið. Með þessari breytingu verður nú allt starfsfólk íþróttamiðstöðvarinnar starfsfólk UMFÞ, og íþróttamiðstöðin hjarta starfsemi félagsins. Bæjarbúar munu vonandi njóta þess með bættri og aukinni þjónustu fyrir alla, jafnt iðkendur á vegum UMFÞ, skólanemendur og almenning. Samningurinn verður lagður fram til staðfestingar á fundi bæjarstjórnar miðvikudaginn 30. mars n.k., og að því loknu munu UMFÞ taka við keflinu um mánaðamótin næstu.
Að lokum Jafndægur á vori verða nú á sunnudag, en þá eru dagur og nótt jafnlöng. Framundan er enn meira hækkandi sól með yl í hjarta. Ég óska öllum góðrar helgar!