Föstudagspistill bæjarstjóra 17.12.2021

Fjárhagsáætlun samþykkt í bæjarstjórn

Bæjarstjórn hélt sinn 188. fund í vikunni. Á dagskrá fundarins var m.a. síðari umræða um fjárhagsáætlun 2022 - 2025, þ.e. áætlun ársins 2022 ásamt þriggja ára áætlun áranna 2023-2025. Bæjarstjórn samþykkti áætlunina samhljóða, sem og gjaldskrá fyrir næsta ár. Rekstur sveitarfélagsins hefur verið erfiður undanfarin tvö ár, og ekki náð að skila tekjuafgangi. Nú má greina hægan viðsnúning og bata í rekstrinum, bæði vegna bættra ytri skilyrða sem og vegna áhrifa aðhalds- og hagræðingaaðgerða sem ráðist var í fyrr á þessu ári. Þrátt fyrir þetta verður hallarekstur áfram fram á árið 2023, en eftir það tekur reksturinn að skila tekjuafgangi. Á hinn bóginn mun fjármunamyndun reksturins þegar á næsta ári verða jákvæð, sem eru góðar fréttir. Þá er gert ráð fyrir að reksturinn skili jákvæðu veltufé frá rekstri, sem þýðir að ekki þarf lengur að fjármagna taprekstur með lántökum. Fjárfestingar verða rúmar 300 m.kr. á næsta ári, þar er megin áherslan lögð á endurbætur fráveitunnar. Áfram er þörf á lántökum, m.a. til að fjármagna nýframkvæmdir, en þrátt fyrir áframhaldandi lántökur er ekki gert ráð fyrir að skuldsetning sveitarfélagsins fari umfram leyfileg mörk í fjármálareglum sveitarstjórnarlaganna. Til lengri framtíðar litið eru horfur í resktri góðar, enda mikil uppbygging framundan með tilheyrandi íbúafjölgun, sem skilar bæði auknum útsvarstekjum og fasteignasköttum í framtíðinni.

Endurskoðun aðalskipulags

Í upphafi þessa kjörtímabils var ákveðið að ráðast í endurskoðun aðalskipulags sveitarfélgasins. Gildandi aðalskipulag nær yfir árin 2008 - 2028. Rík hefð er fyrir því að endurskoða aðalskipulag sveitarfélaga þegar skipulagstímabilið er hálfnað. Í skipulagslögum er kveðið á um þá skyldu sveitarfélaga að í upphafi hvers kjörtímabils skuli lagt mat á hvort ástæða sé til að endurskoða gildandi aðalskipulag, t.d. vegna breyttra forsendna, ytri aðstæðna o.s.frv. Mikil vinna hefur verið lögð í þetta verkefni allt kjörtímabilið. Sérstakur vinnuhópur var skipaður til að halda utan um verkefnið, og ráðinn var skipulagsfræðingur til aðstoðar og ráðgjafar. Nú hefur afrakstur þessarar vinnu litið dagsins ljós, í formi skipulagslýsingar. Skipulagslýsingin var samþykkt á fundi Skipulagsnefndar í byrjun desember, og sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar nú í vikunni. Skipulagslýsingin fer nú í rýni hjá Skipulagsstofnun, sem að henni lokinni veitir leyfi til þess að tillagan verði auglýst og sett í lögbundið samráðsferli. Það má því gera ráð fyrir, ef allt gengur eftir, að nýtt aðalskipulag taki gildi u.þ.b. um mitt næsta ár.

Valkostagreining um sameiningu

Lokið er vinnu við valkostagreiningu vegna hugsanlegrar sameiningar sveitarfélagsins við önnur sveitarfélög, sem ákveðið var að ráðast í fyrr á þessu ári. RR Ráðgjöf hélt utan um verkefnið, sem styrkt var af Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Haldnar voru þrjár vinnustofur, en í þeim tóku þátt kjörnir fulltrúar, formenn nefnda og lykilstjórnendur hjá sveitarfélaginu. Á vinnustofunum var m.a. unnin SVÓT greining, þ.e.a.s. greining á styrkleikum, veikleikum, ógnunum og tækifærum sem sveitarfélagið hefur yfir að ráða. Einnig voru greindir þeir valkostir sem vænlegast þótti að skoða. Í október var haldinn fjölmennur íbúafundur, þar sem verkefnið var kynnt. Nú hefur lokaskýrslu verið skilað til bæjarstjórnar, sem tók hana til afgreiðslu á fundi sínum nú í vikunni. Samþykkt var að kannaður yrði hugur þeirra sveitarfélaga sem komust á blað í könnuninni til sameiningar, þ.e. Hafnarfjarðar, Grindavíkur, Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar. Í kjölfarið verði lögð fram íbúakönnun samhliða sveitarstjórnarkosningum 2022 og ákvörðun tekin á næsta kjörtímabili varðandi næstu skref. Framundan eru því óformleg samtöl við fulltrúa framangreindra fjögurra sveitarfélaga um málið. 

Skipsstrand

Grænlenskur togari strandaði skammt undan Vatnsleysuströnd að kvöldi fimmtudags 16. desember. Betur fór en á horfðist, þar sem tókst að losa skipið af strandstað með aðstoð Landhelgisgæslunnar snemma morguns föstudaginn 17. desember. Engin slys urðu á fólki. Enn á ný sönnuðu björgunarsveitir mikilvægi sitt, en hluti áhafnar skipsins voru fluttir í land í Vogahöfn með björgunarbáti björgunarsveitarinnar Skyggnis í Vogum. 

Að lokum Hátíð ljóss og friðar fer í hönd. Næstu tveir föstudagar eru frídagar, aðfangadagur og gamlársdagur, og því er þetta síðasti föstudagspistill ársins. Ég óska öllu starfsfólki sveitarfélagsins, samstarfsaðilum og lesendum öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs, með kæru þakklæti fyrir samstarfið og samskiptin á árinu sem er að líða. Það er von mín að þið njótið hátíðanna sem allra best. 

Getum við bætt efni síðunnar?