Föstudagspistill bæjarstjóra 14.1.2022

Faraldurinn

Nú styttist í að tvö ár eru liðin frá því fyrsta kórónuveirusmitið greindist hér á landi. Um þessar mundir er staðan alvarleg, þrátt fyrir að svo langt sé um liðið frá því faraldurinn hófst. Samkvæmt smittölum dagsins eru nú 50 einstaklingar í sveitarfélaginu í einangrun og með staðfest smit. Auk þeirra eru 66 einstaklingar í sóttkví. Þetta eru tæplega 10% af íbúum sveitarfélagsins. Nú höfum við neyðst til að loka íþróttamiðstöðinni, en önnur starfsemi er að mestu með eðlilegu móti. Ég er öllu starfsfólki sveitarfélagsins þakklátur fyrir vel unnin störf við þær erfiðu aðstæður sem nú ríkja. Það er ekki sjálfgefið að allt gangi jafn vel upp og raun ber vitni, þar þarf samstöðu og samheldni til að svo geti verið. Nú í hádeginu í dag var tilkynnt um hertar takmarkanir í samfélaginu, sem taka eiga gildi á miðnætti. Aðgerðarstjórn sveitarfélagsins mun koma saman til fundar á mánudagsmorgun og verður þá staðan metin og gripið til ráðstafana ef þurfa þykir. Ég ítreka þakkir mínar til alls starfsfólks sveitarfélagsins sem leggur sig fram um að láta hlutina ganga upp, við erfiðar og snúnar aðstæður.

Kjarasamningur felldur

Niðurstöður atkvæðagreiðslu Félags grunnskólakennara um nýjan kjarasamning félagsins við Samband íslenskra sveitarfélaga (fyrir hönd sveitarfélaganna í landinu) og gengið frá frá í lok síðasta árs. Niðurstaðan var býsna afgerandi, þrír af hverjum fjórum sem greiddu atkvæði synjuðu samningnum. Kjörsókn var 69%. Framundan eru því óvissutímar, sem er einmitt ekki það sem við þurfum á að halda nú um stundir. Brýnt er að víðtæk samfélagsleg sátt náist um kjör kennara, þar sem tekið er tillit til ábyrgðar, álags, umfangs, menntunarkrafna og allra annarra þátta sem varða þetta mikilvæg starf sem kennarastarfið er. Á sama hátt er brýnt að sveitarfélögin hafi tekjugrunn til að standa undir þeim útgjaldaauka sem skapast við þessar nauðsynlegu leiðréttingar á kjörum kennara. Eins og staðan er núna eru mörg sveitarfélög í rekstrarvanda, og því ekki í stakk búin til að takast á hendur aukin útgjöld. Ábyrgð ríkisvaldsins er því mikil - það þarf að forgangsraða ráðstöfun sameiginlegra fjármuna samfélagsins. Við hljótum öll að vera sammála um mikilvægi þess að stéttir eins og kennarar og heilbrigðisstarfsfólk hafi raunhæf launakjör svo unnt sé að tryggja stöðugleika og fagmennsku í þessum grundvallarþáttum sem skapa gott samfélag.

Suðurnesjalína 2

Það er væntanlega að bera í bakkafullan lækinn að ræða enn á ný málefni Suðurnesjalínu 2. Nú er að störfum verkefnastjóri í málinu, sem sveitarfélagið fékk sér til ráðgjafar og aðstoðar. Hann vinnur náið með lögmanni sveitarfélagsins, markmiðið er að fjalla á vandaðan og faglegan hátt um umsókn Landsnets hf. um framkvæmdaleyfi, eftir að Úrksurðarnefnd Umhverfis- og auðlindamála ógilti fyrri ákvörðun sveitarstjórnar þar sem synjun framkvæmdæleyfis var felld úr gildi. Við munum jafnframt leggja áherslu á að ljúka við þessa umfjöllun svo fljótt sem auðið er, án þess þó að það komi niður á vandaðri umfjöllun.

Að lokum óska ég öllum góðrar helgar. Munum að fara varlega og viðhafa persónubundnar smitvarnir.

Getum við bætt efni síðunnar?