Föstudagspistill bæjarstjóra - 13. maí 2022

Sveitarstjórnarkosningar

Á morgun, laugardaginn 14. maí 2022, fara fram kosningar til sveitarstjórna hér á landi. Hér í Sveitarfélaginu Vogum eru þrír framboðslistar í kjöri, sem allir eiga kjörna fulltrúa í bæjarstjórn á því kjörtímabili sem nú er að ljúka. Kjörfundur hefst kl. 10:00, og lýkur kl. 22:00. Kjörstaður er í Stóru-Vogaskóla. Ég hvet alla tili að standa vörð um lýðræðið og nýta kosningarréttinn.  Öll þrjú framboðin eru með kosningaskrifstofur, þar sem tækifæri gefst til að hitta frambjóðendur og kynna sér stefnumál þeirra. 

Ársreikningur 2021

Bæjarstjórn kom saman til fundar í vikunni, þar sem ársreikningur sveitarfélagsins var tekinn til síðari umræðu og afgreiðslu. Reikningurinn var samþykktur samhljóða með öllum greiddum atkvæðum.  Annað árið í röð var mikill halli á rekstrinum. Á síðasta ári var ráðist í ýmsar aðgerðir til að spyrna við fótum og draga úr útgjaldaauknigu, sem hefur verið megin rót vandans undanfarið. Líkt og undanfarin ár gerði ég að umtalsefni hversu viðkvæm rekstrareining okkar er, og hve lítið má út af bregða þannig að rekstrarniðurstaðan lendi röngu megin við strikið. Sem betur fer hafa þær aðgerðir sem ráðist var í þegar tekið að skila árangri, sem merkja má í hægum en öruggum bata. Verkefni nýrrar bæjarstjórnar verður að fylgjast vel með rekstrinum og fylgja jafnframt eftir þeim aðgerðum sem ráðist hefur veirð í, auk þess sem stöðugt þarf að leita leiða til hagræðingar og aukinnar skilvirkni í rekstrinum. Þrátt fyrir aukna skuldsetningu bæjarsjóðs eru skuldir enn innan þeirra marka sem kveðið er á um í sveitarstjórnarlögum. Framundan er talsverð uppbygging með tilheyrandi fjölgun íbúa, sem skila mun bæjarstjóði auknum skatttekjum án þess að ráðast þurfi í mikla aukningu útgjalda. Það eru því sem betur fer bjartari tímar framundan.

Síðasti fundur bæjarstjórnar á kjörtímabilinu

Bæjarstjórn kom saman til síns síðasta fundar á kjörtímabilinu nú í vikunni. Það er til marks um mikla reynslu bæjarfulltrá að þeir sem sátu þennan fund höðu setið að meðalali yfir 90 fundi í bæjarstjórn. Forseti bæjarstjórnar kvaddi sér hljóðs í lok fundar og þakkaði bæjarfulltrúum gott og ánægjulegt samstarf á kjörtímabilinu. 

Að lokum óska ég öllum góðrar helgar - munum að kjósa og standa þannig vörð um lýðræðið!

Getum við bætt efni síðunnar?