Föstudagspistill bæjarstjóra 10.12.2021

Fjárhagsáætlunarvinnan í höfn

Bæjarstjórn kemur saman til fundar n.k. miðvikudag, 15. desember. Alla jafna fundar bæjarstjórn síðasta miðvikudag mánaðar, en hefð er fyrir því að fundur desember mánaðar sé haldinn um miðjan þann mánuð. Megin verkefni þess fundar verður að taka til fjárhagsáætlun 2022 - 2026 til síðari umræðu, samþykktar og afgreiðslu. Vinna við gerð fjárhagsáætlunar hefur staðið yfir allt frá því í lok júlí s.l. sumar. Margvíslegar áskoranir hafa fylgt áætlunargerðinni að þessu sinni, ekki síst í ljósi þeirra erfiðu aðstæðna sem sköpuðust í samfélaginu í kjölfar veirufaraldur, aukins atvinnuleysis og almennt erfiðra ytri skilyrða. Ráðist var í viðamikla úttekt á rekstri sveitarfélagsins fyrr á árinu, og aðgerðir innleiddar í kjölfarið sem höfðu það að markmiði að ná að snúa rekstrinum til betri vegar. Áætlunin er gerð til fjögurra ára, en megin áherslan er lögð á áætlun næsta árs. Í áætluninni má greina viðsnúning og hægan bata, allt er þetta í rétta átt. Þetta tekur hins vegar tíma, og því er áætlað að reksturinn sýni áfram neikvæða niðurstöðu árið 2022. Helsta batamerkið er að fjármunamyndun rekstursins snýst þegar við á næsta ári, þ.e. gert er ráð fyrir að s.k. veltufé frá rekstri verði jákvætt árið 2022. Að afloknum fundi bæjarstjórnar verður birt frétt á heimasíðu sveitarfélagsins, þar sem helstu niðurstöður áætlunarinnar verða birtar.

Endurskoðun aðalskipulags

Í upphafi hvers kjörtímabils er það skylda sérhverrar sveitarstjórnar að leggja mat á hvort ástæða sé til að ráðast skuli í endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins. Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga samþykkti í upphafi kjörtímabilsins, nánar tiltekið um mitt ár 2018, að hefja vinnu við endurskoðun aðalskipulags og ljúka henni fyrir lok kjörtímabilsins. Nú hillir undir lok þessarar vinnu, sem staðið hefur yfir með hléum á kjörtímabilinu. Skipulagstillagan hefur þegar verið kynnt, og kallað eftir athugasemdum og umsögnum hagsmunaaðila og annarra sem vilja koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Skipulagsnefnd fundar í dag og fer yfir athugasemdirnar, og afgreiðir síðan tillöguna frá sér. Bæjarstjórn mun á fundi sínum í næstu viku taka málið til staðfestingar. Í kjölfarið verður tillagan send Skipulagsstofnun, sem rýnir hana áður en heimild verður veitt til að auglýsa hana og hefja hið lögbundna umsagnar- og samráðsferli.

Íbúar fluttir inn í Grænuborgarhverfi

Þau merku tímamót urðu á dögunum að fyrstu íbúarnir fluttu inn í nýjar íbúðir í Grænuborgarhverfi. Þetta eru mikil tímamót hjá sveitarfélaginu. Við bjóðum alla nýja íbúa sveitarfélagsins velkomna og vonum að þeim líði hér vel. Framkvæmdaaðilum sendum við hamingjuóskir í tilefni áfangans.

Aðventan

Búið er að kveikja á jólatrénu í Aragerði, og kveikja á jólaskrauti á ljósastaurum bæjarins. Eitthvað gekk það brösulega að fá ljósin til virka fyrst um sinn, m.a. vegna umhleypinga í veðri sem höfðu áhrif á búnaðinn. Nú ætti allt að vera komið í lag, og unnt að njóta jólalýsinganna. Bæjarbúar hafa einnig margir hverjir skreytt hús sín og garða fallega, sem er góð lyftistöng í svartasta skammdeginu.

Að lokum óska ég öllum góðrar helgar og áframhaldandi notalegrar aðventu.

Getum við bætt efni síðunnar?