Veirufaraldurinn
Í upphafi þessarar viku gripu yfirvöld á ný til hertra aðgerða til að sporna við fjölgun smita í samfélaginu. Hinar hertu aðgerðir eiga þó einungis við um höfuðborgarsvæðið, þar sem lang flest smit hafa greinst og aukningin er mest. Sveitarfélagið Vogar liggur að höfuðborgarsvæðinu og margir íbúa okkar sækja þangað vinnu. Einnig er eitthvað um að fólk búsett á höfuðborgarsvæðinu sæki vinnu í Voga. Það er því eðli málsins samkvæmt talsverður samgangur við höfuðborgarsvæðið. Aðgerðarstjórn sveitarfélagsins ákvað í upphafi vikunnar að grípa til takmarkana í íþróttamiðstöðinni og sundlauginni. Þetta var gert í ljósi þess að talsvert er um að íbúar búsettir á höfuðborgarsvæðinu stunda íþróttir í Vogum, sem og til að forðast aukna ásókn í sundlaugina þar sem allir sundstaðir á höfuðborgarsvæðinu eru lokaðir. Við tókum þessa ákvörðun fyrst og fremst sem varúðarráðstöfun, ekki síst viljum við tryggja eins og frekast er unnt að skólarnir geti starfað eðlilega. Fram að þessu höfum við í Vogum verið laus við smit, en nú í morgun fengum við þær fréttir að tvö smit væru staðfest í sveitarfélaginu. Það er þess vegna afar brýnt að fara varlega, og fara í einu og öllu eftir leiðbeiningum um smitvarnir.
Teygjur á tunnur
Starfsmenn þjónustumiðstöðvarinnar hafa nú lokið við að festa teygjur á allar sorptunnur í sveitarfélaginu. Haustlægðirnar með tilheyrandi hvassviðri mega því koma án þess að við eigum á hættu að lokin á tunnunum fjúki upp. Þetta er þarft og gott framtak sem ég vona að íbúar kunni vel að meta. Ef svo ólíklega vill til að enn vanti einhverjar teygjur hvet ég fólk til að hafa samband við þjónustumiðstöðina, starfsmenn kippa því strax í liðinn.
Fjárhagsáætlunargerð
Um þessar mundir er unnið við gerð fjárhagsáætlunar, sem tilheyrir þessum árstíma. Sjaldan eða aldrei hefur ríkt eins mikil óvissa um fjárhagsáætlunargerðina eins og nú. Af augljósum ástæðum eru margar forsendur óljósar, t.a.m. er erfitt að spá fyrir um útsvarstekjur og framlög úr Jöfnunarsjóði. Á dögunum var gert umfangsmikið samkomulag milli ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um ýmsar fjárhagslegar ráðstafanir til stuðnings sveitarfélögunum í landinu. Ástand sveitarfélaga er ærið misjafnt, sum eru í mun meiri vanda en önnur. Nú er beðið upplýsinga um nánari útfærslu á þeim aðgerðum sem eru tilgreindar í samkomulaginu, og kunna að hafa áhrif á rekstur okkar sveitarfélags. Góðu fréttir dagsinns eru hins vegar þær að seint í gær var skrifað undir nýjan kjarasamning við kennara, en það var nánast eina starfsstéttin sem enn var með lausan samning. Kynning á samningnum fer fram þessa dagana, framundan er síðan atkvæðagreiðsla um samninginn.
Knattspyrnan
Meistaraflokkur Þróttar gerir það áfram gott í 2. deild Íslandsmótsins. Sem stendur er liðið í 3. sæti, sem er frábær árangur. Tvö efstu liðin fara upp í Lengjudeildina. Búið er að fresta leik morgundagsins, en þá stóð til að taka á móti ÍR. Það verður spennandi að fylgjast með lokaumferðunum framundan.
Að lokum er vert að minna okkur öll enn eina ferðina á mikilvægi sóttvarna. Virðum tilmæli um handþvott, sprittun og fjarlægðarmörk. Nú sem aldrei fyrr reynir á samstöðu. Bestu kveðjur með ósk um góða helgi!