Jafnréttisáætlun samþykkt
Nú í vikunni var ný jafnréttisáætlun sveitarfélagsins samþykkt. Öllum sveitarfélögum er skylt að setja sér slíka áætlun, þar sem sett eru fram stefna og markmið í jafnréttismálum sveitarfélagsins, og með hvaða hætti þeim skuli náð. Jafnréttisáætlunin hefur nú verið send Jafnréttisstofu til staðfestingar, og verður birt á heimasíðu sveitarfélagsins um leið og staðfestingin liggur fyrir. Engin sérstök jafnréttisnefnd er starfandi í sveitarfélaginu, umsjón málaflokksins er á hendi bæjarráðs. Jafnréttisáætlunin verður nú kynnt í öllum nefndum og ráðum sveitarfélagsins, sem og í stofnunum þess. Vandlega verður hugað að því að ná þeim markmiðum sem sett eru fram á í áætluninni, með markvissum og skipulögðum aðgerðum.
Teygjur á sorptunnur
Fyrir nokkru sendu Blái herinn, Plokk á Íslandi og Íslenski sjávarklasinn m.a. sveitarfélögum landsins áskorun um að bregðast við fjúkandi rusli með því að loka betur ruslatunnum svo koma megi í veg fyrir fjúkandi rusl. Að mati þessara aðila kemur u.þ.b. helmingur rusls á götum úr heimilissorptunnum sem opnast í roki. Nú hefur Sveitarfélagið Vogar tekið þessari áskorun, og fjárfest í sérstökum teygjum sem nú verða settar á allar sorptunnur í sveitarfélaginu. Starfsmenn Umhverfisdeildar hafa þegar hafist handa við þetta verkefni, og fara nú milli húsa og festa teygjurnar á tunnurnar. Það er von okkar að íbúar bregðist vel við þessu framtaki og nýti búnaðinn. Þetta er jú bara eitt einfalt handtak þegar tunnunni er lokað, teygjunni smeygt yfir festinguna. Gott og þrifalegt mál!
Kynningarfundur Brunavarna
Forsvarsmenn Brunavarna Suðurnesja (BS) með Jón Guðlaugsson slökkviliðsstjóra í fararbroddi, verða með almennan kynningarfund í Álfagerði um starfsemi slökkviliðsins miðvikudaginn 20. nóvember kl. 17:30. Á fundinum verður starfsemin kynnt, og fyrirspurnum svarað. Jón og hans menn vonast til að sjá sem flesta, ekki síst þá sem geta hugsað sér að skoða þann kost að leggja sitt að mörkum með því að gerast liðsmaður í varaliði BS. Sem kunnugt er verður slökkvibíll staðsettur í nýrri þjónustumiðstöð sveitarfélagsins, sem verður formlega vígð sunnudaginn 1. desember n.k. Mikilvægt er að Brunavarnir fái til liðs sig vaska sveit manna og kvenna, sem eru reiðubúin að leggja sitt að mörkum við þetta brýna samfélagslega verkefni, svo ávallt sé þjálfaður mannskapur til staðar beri vá að höndum. Ég hvet alla sem hafa áhuga á að gefa þessu þýðingarmikla verkefni gaum og mæta á kynningarfundinn.
Blaklið UMFÞ
Ný íþróttagrein hefur nú bæst við í þær greinar sem stundaðar eru undir merkjum UMFÞ. Nú hefur hópur Pólverja á Íslandi gert samkomulag við ungmennafélagið um að keppa í blaki undir merkjum félagsins. Þá verður einnig unnið í samstarfi þessara aðila að nánari kynningu íþróttarinnar fyrir íbúa sveitarfélagsins, jafnt unga sem aldna. Ég hvet alla til að kynna sér málið og mæta á heimaleiki liðanna, sem fram fara í Vogabæjarhöllinni.
Að lokum Það er margt áhugavert, jákvætt og spennandi að gerast í samfélaginu okkar. Ég óska öllum góðrar helgar, og góðra stunda!