Föstudagspistill 8. 10. 2021

Dagbók

Haustin eru annasamur tími. Helstu verkefnin á þessum árstíma er vinna við gerð fjárhagsáætlunar. Síðustu tvær vikur eru þar engin undantekning. Almannavarnir halda stöðufund mánudaga og föstudaga, þar sem helstu sérfræðingar á sviði jarðvísinda, fulltrúar almannavarna og viðbragðsaðila fara yfir stöðu og horfur. Á þriðjudag í síðustu viku var fundað með formanni UMFÞ um ýmis samstarfsverkefni, m.a. um starfsemina í íþróttamiðstöðinni. Bæjarstjórn hélt reglubundinn fund á miðvikudag í síðustu viku. Fundargerð bæjarstjórnar má sjá hér. Á fimmtudag í síðustu viku var haldinn stöðufundur fulltrúa sveitarfélaganna á Suðurnesjum og ISAVIA, sem vinna í sameiningu að innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu Þjóðanna í landshlutanum. Vikunni lauk síðan með aðalfundi Sambands Sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS), tveggja daga fundur þar sem auk hefðbundinna aðalfundarstarfa var umfjöllun og fróðleikur um ýmis áhugaverð málefni. Dagskrá aðalfundar SSS má sjá hér. Yfirstandandi vika hefur ekki verið síður viðburðarrík en sú síðasta. Vikan hófst með fundi þar sem fulltrúar Gagnaveitu Reykjavíkur komu í heimsókn, en fyrir dyrum stendur loks að fyrirtækið leggi ljósleiðara í þéttbýlið í Vogum, vonandi á næsta ári. Verkefnið er unnið í samstarfi við sveitarfélagið, og er unnið þessa dagana að útfærslu þess. Stafrænt ráð Suðurnesja tók stöðufund síðdegis á mánudag, þar sem farið var yfir næstu skref varðandi frekari innleiðingu stafrænna lausna hjá sveitarfélögunum í landshlutanum. Á þriðjudag var mánaðarlegur fundur forstöðumanna, helsta viðfangsefni fundarins var umfjöllun um gerð fjárhagsáætlunar. Á þriðjudag kom dagskrárgerðarmaðurinn Arnar Gauti og tók upp viðtal við bæjarstjóra um uppbygginguna í Grænuborg. Þáttur hans er á sjónvarpsstöðinni Hringbraut og er á dagskrá á fimmtudögum kl. 20:00. Á miðvikudag hélt bæjarráð reglubundinn fund, fundargerðina má sjá hér. Fyrir hádegi fengum við á bæjarskrifstofunni heimsókn frá leikskólanum, sem fagnar 30 ára afmæli um þessar mundir. Nemendur úr kór skólans komu og sungu fyrir okkur nokkur lög. Það var ánægjuleg heimsókn. Síðar um morguninn komu nokkrir fulltrúar nemenda 10. bekkjar Stóru-Vogaskóla til fundar við bæjarstjóra, en þau undirbúa nú útskriftarferð sína næsta vor. Það er einstaklega ánægjulegt að hitta ungmennin, sem ljúka senn grunnskólagöngunni og takast í framhaldinu á við nýjar áskoranir í lífinu. Síðdegis á miðvikudag sótti bæjarstjóri aðalfund Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Vikunni lauk síðan með fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem stendur yfir fimmtudag og föstuag. Dagskrá ráðstefnunnar er í senn áhugaverð og gagnleg, nánari upplýsingar má sjá hér á vef Sambandsins. Sambandið sendir út frá ráðstefnunni í beinu streymi, fyrir áhugasama. Sérstaklega má vekja athygli á umfjöllun um fjárhagsstöðu sveitarfélaga. Sveitarfélagið Vogar hefur ekki farið varhluta af þeirri þróun, enda reksturinn þungur bæði á síðasta og yfirstandandi ári. 

Suðurnesjalína 2

Í vikunni kvað Úrskurðarnefnd Umhverfis- og auðlindamála upp nokkra úrskurði vegna kæru sem nefndinni hafði borist og lúta að lagningu Suðurnesjalínu 2. Þetta er mikil lesning, úrskurðina má sjá á vefsetri nefndarinnar. Einn þessara úrskurða snýr að Sveitarfélaginu Vogum, en Landsnet kærði þá ákvörðun sveitarstjórnarinnar um að hafna umsókn fyrirtækisins um framkvæmdaleyfi við að leggja Suðurnesjalínu 2 sem loftlínu um lögsögu sveitarfélagsins. Sjálfur úrskurðurinn er hér. Úrskurðurinn var lagður fram á 330. fundi bæjarráðs, þar sem lögð var fram bókun um málið. Samkvæmt úrskurði nefndarinnar var ákvörðun bæjarstjórnar um að synja framkvæmdaleyfi felld úr gildi. Málið fer því að nýju til efnislegrar meðferðar innan stjórnsýslu sveitarfélagsins, og hefur því verið vísað til umfjöllunar Skipulagsnefndar. 

Jarðhræringar

Enn skelfur jörð á Suðurnesjum. Eftir nokkuð langt hlé á eldgosinu í Geldingadölum hófst nýr kafli jarðskjálfta skammt frá Keili. Jarðskjálftarnir virðast vera á talsverðu dýpi, a.m.k. enn sem komið er. Mat vísindamanna er að kvikustreymi valdi skjálftunum, en hræringarnar eru nú einkum bundnar við norð-austur hluta gangsins sem myndaðist milli Keilis og Fagradalsfjalls í aðdraganda eldgossins sem hófst 19. mars s.l. Stærstu skjálftarnir eru enn sem komið er í kringum M3,5. Stærstu skjálftana má finna greinilega í Vogum, en misjafnt virðist vera hversu vel þeir finnast. Mjög grannt er áfram fylgst með þróun mála, og farið vel yfir margar sviðsmyndir. 

Valkostagreining um sameiningu - íbúafundur í næstu viku

Fyrr á þessu ári samþykkti bæjarstjórn að ráðast í vinnu við s.k. valkostagreiningu, þar sem skoðaðir skyldu hugsanlegir valkostir er lúta að sameiningu við annað eða önnur sveitarfélög. Þessi ákvörðun tengist m.a. áherslu ríkisstjórnarinnar um eflingu sveitarstjórnarstigsins, þar sem ljóst er að sífellt fleiri vandasamari og umfangsmeiri verkefni hafa og munu færast frá ríki til sveitarfélaga. Haldnar voru tvær vinnustofur með ráðgjafa s.l. vor, þar sem farið var yfir þá valkosti sem gætu hugsanlega komið til álita, auk þess sem farið var í greiningu á styrkleikum, veikleikum, ógnunum og tækifærum sem í sameiningu gæti falist. Fimmtudaginn 14. október verður efnt til almenns íbúafundar í Tjarnarsal, þar sem verkefnið verður kynnt. Á fundinum gefst tækifæri til að kynna sér þessa vinnu, auk þess sem kallað verður eftir þeim áherslum sem íbúar sveitarfélagsins kunna að hafa komi til þess að sameining verði skoðuð. Fundurinn hefst kl. 20:00, honum verður einnig streymt á Facebook síðu sveitarfélagsins. Allir sem taka þátt í fundinum, hvort heldur með því að mæta á staðinn eða fylgjast með útsendingunni, geta látið rödd sína heyrast í rafrænu samráðskerfi sem notað verður á fundinum.

Að lokum

Föstudagspistill bæjarstjóra hefur fram til þessa verið útúinn sem PDF skjal og sent áskrifendum. Nú verður sú breyting á, að við færum hann alfarið yfir á vefinn. Ég óska öllum lesendum pistilsins góðrar helgar!

 

 

 

 

 

.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Getum við bætt efni síðunnar?