Föstudagspistill 7.8.2020

Óvissutímar - fjölskyldudagar

Rétt þegar við héldum öll að kórónuveirufaraldurinn væri í rénun og smit greindust vart í daga og vikur, blossaði faraldurinn upp að nýju um mitt sumar. Aftur hefur verið hert á takmörkunum, samkomubann miðast nú við 100 manns og skylda er að tryggja 2ja metra fjarlægð milli manna. Þetta hefur margvísleg áhrif á samfélagið okkar. Fyrirhugaðir fjölskyldudagar eru í uppnámi – ljóst er að ekki verður efnt til hefðbundinnar dagskrár á vegum sveitarfélagsins við þessar aðstæður. Við þurfum því að hugsa í lausnum og leita leiða til að halda fjölskyldudaga hátíðlega þótt með breyttu sniði verði. Ég hvet alla bæjarbúa til að skreyta hverfin sem aldrei fyrr, þannig að ekkert fari á milli mála að þegar sá tími kemur sem halda átti hátíðina sé bærinn vel skreyttur í litum hverfanna. Í stað hefðbundinna hátíðahalda leggja fjölskyldurnar áherslu á samveru með sínum nánustu, og haldi þannig sína eigin fjölskyldudaga. Nánari útfærsla og tillögur um fyrirkomulagið verður rætt og auglýst á næstu dögum. Vonir standa til að flugeldasýningin fari fram á hefðbundnum tíma á laugardagskvöldið, nánar um það síðar.

Íþrótta- og tómstundafulltrúi

Í síðasta mánuði var auglýst laust til umsóknar starf íþrótta- og tómstundafulltrúi, í kjölfar þess að núverandi íþrótta- og tómstundafulltrúi ákvað að segja starfi sínu lausu. Íþrótta- og tómstundafulltrúi er forstöðumaður félagsmiðstöðvar unglinga (Borunnar), hefur umsjón með tómstundastarfi aldraðra, ásamt því að sinni samskiptum við íþrótta- og tómstundafélög í sveitarfélaginu. Þrjár umsóknir bárust um starfið, og hafa verið tekin viðtöl við umsækjendur. Unnið verður úr umsóknunum á næstu dögum, og stefnt að ráðningu á næstu dögum.

Hjóla- og göngustígur

Á framkvæmdaáætlun þessa árs var gert ráð fyrir að leggja nýjan göngu- og hjólreiðastíg milli Voga og Brunnastaðahverfis, meðfram Vatnsleysustrandarvegi. Hér er um að ræða stíg sem er 2,5 m. á breidd, þar sem annar helmingurinn er ætlaður gangandi vegfarendum en hinn helmingurinn hjólreiðamönnum. Stígurinn liggur að lang stærstum hluta innan s.k. veghelgunarsvæðis, en það er það svæði beggja megin við veginn sem tilheyrir veginum og er þar með á forsjá Vegagerðarinnar. Þó er á örfáum stöðum nauðsynlegt að sveigja stíginn lítillega út fyrir þetta svæði, og fara með því inn á lönd í einkaeigu. Leitað var samþykkis landeigenda fyrir þessum frávikum, og var svo komið að allir voru búnir að samþykkja. Þá gerðist það að einn landeigandi afturkallaði samþykki sitt, sem þýðir að framkvæmdin er í uppnámi. Vegagerðin hefur þegar samþykkt myndarlegan styrk vegna framkvæmdarinnar, enda er hann til þess fallinn að auka til muna öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda sem ferðast um þessar slóðir. Það lítur því út fyrir að ekkert verði af framkvæmdinni, að óbreyttu.

Knattspyrnan - óvissa

Leik Þróttar og KF sem vera átti s.l. föstudag var frestað, og nú hefur einnig verið ákveðið að fresta leik ÍR og Þróttar sem vera átti á morgun, laugardag. Þróttur er sem stendur í 5. sæti deildarinnar, með 13 stig.

Að lokum

Síðari hluti sumarsins er runninn upp, það styttist í að skólarnir hefji starfsemi sína. Lífið fer smátt og smátt aftur í fastar skorður. Ég óska öllum góðrar helgar!

Getum við bætt efni síðunnar?