Grænfáni og skólaslit
Nú í vikunni voru skólaslit í Stóru-Vogaskóla, nemendur nú haldnir á vit ævintýri sumarsins.
Vorhátíð skólans var haldin á uppstigningardag. Þar fékk Stóru-Vogaskóli grænfánann afhentan í þriðja sinn. Þessi viðurkenning var fyrst veitt árið 2013, síðan árið 2016 og nú 2019. Að baki úthlutun þessarar viðurkenningar liggur heilmikið ferli, þannig að ekki er sjálfgefið að grænfána-viðurkenningin endurnýist í hvert sinn. Stóru-Vogaskóli getur með sanni verið stolt af grænfánanum sínum.
Umhverfisnefnd skólans stóð fyrir hreinsunardegi fyrir vothátíðina. Beð voru snyrt, moltu og kurli var dreift ásamt því að plöntur voru gróðursettar. Það eru bæði fulltrúar nemenda og starfsmanna skólans sem eiga sæti í umhverfisnefndinni.
Þá fóru nemendur skólans á dögunum í sína árlegu landgræðsluferð. 1. – 4. bekkur dreifði áburði og grasfræi á ógróin svæði, Landgræðslan leggur til áburðinn og fræið. Þetta verkefni hefur verið árvisst frá árinu 1986. 5. – 7 bekkur plantaði trjám við Háabjalla, Yrkjusjóður leggur til plöntur. Þetta verkefni hefur jafnframt verið til staðar mörg undanfarin ár.
Ég óska öllum nemendum og starfsfólki skólans gleðilegs sumars.
Nýr þjónustubæklingur
Nú í vikunni kom út nýr bæklingur fyrir ferðamenn sem sækja Voga og Vatnsleysuströnd heim. Gott yfirlitskort er að finna í honum, þar sem helstu þjónustustaðir eru merktir inn. Að auki er að finna texta um nokkra áhugaverða áfangastaði innan sveitarfélagsins, jafnt á íslensku sem ensku. Umsjón með útgáfu bæklingsins var í höndum Daníels Arasonar menningarfulltrúa, en Hilmar Egill Sveinbjörnsson sá um útlitshönnun og uppsetningu.
Heilsueflandi samfélag
Nú í vikunni efndi Landlæknisembættið til opins fundar í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ. Á fundinum voru lýðheilsuvísar fyrir okkar landshluta kynntir, auk þess sem flutt voru fræðsluerindi um málefni er tengjast bættri lýðheilsu. Sveitarfélagið Vogar samþykkti á síðasta ári að hefja undirbúning að þátttöku í verkefninu „Heilsueflandi samfélag“, sem er samstarfsverkefni Landlæknis og sveitarfélaganna. Nú hafa mál þróast á þann veg, að öll sveitarfélögin á Suðurnesjum ásamt Heilbrigðisstofnun Suðurnesja munu væntanlega sameinast um verkefnið í samstarfi við Landlæknisembættið. Bæjarráð fjallaði á fundi sínum nú í vikunni um viljayfirlýsingu þar að lútandi, og hefur samþykkt hana fyrir sitt leiti. Með því að öll sveitarfélögin á Suðurnesjum verði heilsueflandi samfélög, og með samstarfi þeirra við HSS verður því unnt að huga að markvissum forvörnum og öðrum aðgerðum sem eru til þess fallnar að bæta heilsu íbúanna og auka heilbrigði þeirra. Lýðheilsuvísarnir gefa sannarlega góðar vísbendingar um það sem betur má fara og hvernig við sem íbúar getum bætt heilsufar okkar, og þar með aukið lífsgæðin og bætt lífslíkurnar.
Að lokum
Góðviðrið heldur áfram viku eftir viku. Sannarlega kærkomið nú í sumarbyrjun. Framkvæmdir ganga allar ágætlega, byrjað er að reisa stálgrind nýju þjónustumiðstöðvarinnar og framkvæmdir við tjaldsvæðið eru vel á veg komnar. Malbikun Stapavegar þarf að bíða í nokkra daga, því tækin eru mikið bókuð þessa dagana. Við horfum bjartsýn fram á veginn og njótum þessa bjarta og fallega árstíma. Hvítasunnuhelgin gengur nú í garð, ég óska öllum gleðilegrar hátíðar með von um að helgin verði okkur öllum gleðirík og góð.