Föstudagspistill 6.12.2019

Framkvæmdafréttir

Árið sem senn rennur sitt skeið hefur m.a. einkennst af þeim fjölmörgu framkvæmdum sem ráðist var í af hálfu sveitarfélagsins. Áfram var haldið á þeirri braut að endurnýja götur og lagnir, að þessu sinni var það norðurhluti Kirkjugerðis. Einnig var yfirborð hluta Stapavegar endurnýjað, auk þess sem gatan var þrengd. Ráðist var í umfangsmiklar endurbætur á tjaldsvæðinu, sem fólst m.a. í lagningu fráveitu og vatnsveitu á svæðinu. Stærsta framkvæmdin var auðvitað sú sem vígð var á dögunum, hin nýja og glæsilega þjónustumiðstöð sveitarfélagsins. Þá eru ótalin þau tvö verkefni sem enn er ólokið. Annars vegar er það ljósleiðaravæðing dreifbýlisins, undir merkjum átaksverkefnisins „Ísland ljóstengt 2020“. Hins vegar eru það endurbætur á fráveitunni, sem felst í byggingu dælubrunns og þrýstilagnar frá útrás við Akurgerði að stofnlögn og útrás við Hafnargötu. Nokkrar hindranir hafa komið upp í báðum þessum verkum, sem skýrir að þeim er enn ekki lokið þótt langt sé liðið á árið. Hvað varðar ljósleiðarann þá reyndist fleygun vera mun umfangsmeiri en forsendur höfðu gert ráð fyrir, og því hefur kostnaður aukist langt umfram það sem áætlað var. Nú er unnið að því að leita leiða til að mæta þessum kostnaðarauka, m.a. með umsókn um viðbótarframlag í Fjarskiptasjóði vegna þessara sérstöku aðstæðna. Hvað varðar fráveituna þá hafa komið í ljós fornminjar á lagnaleiðinni, þrátt fyrir að hún fari að mestu leyti um þegar raskað svæði. Nú hefur lagnaleiðin verið endurhönnuð að hluta, og heimild fengist hjá Minjastofnun um breytingu framkvæmdarinnar. Endurhönnun verksins stendur nú yfir, og vonir standa til að unnt verði að hefjast handa fljótlega að nýju og ljúka verkinu á næstu vikum.

 

 Sjálfboðaliðar UMFÞ

Starfsemi Ungmennafélagsins Þróttar byggir að miklu leyti á vinnuframlagi sjálfboðaliða, við hin ýmsu verkefni sem þarf að sinna svo allt starf félagsins gangi upp. Stjórn félagsins bauð nú í vikunni öllum þeim sem lögðu hönd á plóg á árinu til veislu í Aragerði, og tengdi það við dag sjálfboðaliða. Með þessu vill félagið þakka þetta mikilvæga vinnuframlag sem hefur mikla þýðingu fyrir starfsemina, og sýna í verki hversu vel félagið kann að meta framlagið. Sjálfboðaliðarnir áttu saman ánægjulega kvöldstund í Álfagerði, þar sem fram var borin glæsileg lambasteik með béarnaise-sósu af bestu gerð. Frábært framtak hjá Ungmennafélaginu, sjálfboðaliðarnir fá að sjálfsögðu hrós fyrir þeirra óeigingjarna framlag svo starfsemin blómstri.

 

Þrjú raðhús í byggingu

Verktakafyrirtækið Sparri ehf. sótti nýverið um leyfi til að byggja þrjú raðhús á miðbæjarsvæðinu. Um er að ræða lóðir sem áður höfðu verið ætlaðar fyrir parhús, en fyrirtækið óskaði eftir breytingu á deiliskipulagi fyrir umræddar lóðir sem fallist var á í bæjarstjórn. Framkvæmdir eru þegar hafnar, og ganga vel. Um er að ræða einingarhús, og verður hver íbúð um 85 m2, og eru sagðar verða á hagstæðu verði. Gera má ráð fyrir að fyrstu húsin rísi á allra næstu vikum.

 

Að lokum 

Aðventan er gengin í garð með allri sinni ljósadýrð sem lýsir upp skammdegið. Loks kom snjórinn sem gerir það að verkum að bjartara er yfir grundu en ella. Ég óska öllum góðrar helgar og notalegrar aðventu.

Getum við bætt efni síðunnar?