Föstudagspistill 7. mars 2019

 Samstaða

Nú er rétt rúm vika frá því flugfélagið WOW var tekið til gjaldþrotaskipta. Dagarnir sem liðnir eru frá því fréttirnar bárust hafa einkennst fyrst og fremst af mikilli samstöðu meðal allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum, sem hafa samræmt viðbrögð sín með það að markmiði að geta brugðist upp við þeim vanda sem nú steðjar að í samfélaginu. Frá fyrsta degi hafa sveitarfélögin staðið þétt saman, og samræmt aðgerðir sínar. Þingmenn kjör-dæmisins brugðust hratt við, sem og margir ráðherrar ríkisstjórnarinnar. Strax á föstudag í síðustu viku kom félags- og barnamálaráðherra til fundar við fulltrúa sveitarfélaganna og fulltrúum verkalýðsfélaganna á svæðinu, þar sem rætt var um viðbrögð við yfirvofandi atvinnuleysi. Þingmenn kjördæmisins funduðu með fulltrúum sveitarstjórnanna á laugardag, á mánudag var fundað með forsætisráðherra og ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála, mennta- og menningarmálaráðherra hitti stjórnendur skólastofnana á þriðjudag og síðast í gær funduðu fulltrúar sveitarstjórna með fjármála- og efnahagsráðherra og ráðherra ferða-, atvinnu- og nýsköpunarmála. Þá hafa forsvarsmenn sveitarfélaganna fundað með forstjóra ISAVIA, og fyrirhugaður er fundur með forstjóra HSS. Á öllum þessum fundum hefur upplýsingum um stöðu og horfur verið miðlað milli-liðalaust, ásamt því sem viðbrögð hafa verið rædd og samræmd. Enn er of snemmt að segja til um hversu alvarleg og umfangsmikil áhrif gjaldþrotsins verða á samfélagið og íbúa hér á Suðurnesjum. Hvernig sem fer eru stjórnvöld og sveitarfélögin staðráðin í að bregðast við á þann hátt að áhrifin verði eins mild og mögulegt er. Samstaðan er mikilvæg, og jafnframt mikilvægt að horfa með jákvæðum augum á öll þau fjölmörgu tækifæri sem þrátt fyrir allt eru hér í landshlutanum.

Endurskoðun aðalskipulags

Starfshópur um endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins kom saman til síns annars fundar í vikunni. Á þann fund mættu skipulagsráðgjafar sveitarfélagsins sem fóru yfir verk- og tímaáætlun verkefnisins, sem nú liggur fyrir í drögum. Gera má ráð fyrir að verkefnið taki allt að tveimur árum, enda umfangsmikið og vandasamt. Gert er ráð fyrir víðtæku samráði við íbúa jafnt sem aðra hagsmunaaðila. Markmiðið er að endurskoðað aðalskipulag sveitarfélagsins endurspegli þróunina næstu 20 árin. Það er því að mörgu að hyggja og mikilvægt að vel takist til. 

Ný heimasíða komin í loftið

Heimasíða sveitarfélagsins hefur nú verið endurnýjuð frá grunni. Síðan var sett í loftið s.l. mánudag, og hefur hlotið jákvæðar viðtökur. Heimasíðan er mun einfaldari í sniðum en sú gamla, og þar af leiðandi ætti að vera auðveldara að nálgast upplýsingar sem leitað er eftir. Allar fundargerðir nefnda verða nú aðgengilegar um leið og fundum lýkur og gengið er frá fundargerð. Pistlar bæjarstjórans hafa fengið sinn stað á heimasíðunni, og verða þeir birtir þar sama dag og þeir eru sendir út til viðtakenda. Við fögnum öllum ábendingum um það sem betur má fara, ábendingahnappar eru víða á síðunni og því auðvelt að senda orðsendingu til umsjónarmanns hennar.

Að lokum

Nú um helgina verður árshátíð starfsfólks sveitarfélagsins haldin. Vel hefur verið staðið að öllum undirbúningi, og á árshátíðarnefndin þakkir skildar fyrir vinnu sína. Það stefnir í góða mætingu, og ekki að efa að stemmingin verði góð. Ég óska okkur öllum góðrar skemmtunar – og góðrar helgar!

Getum við bætt efni síðunnar?