Föstudagspistill 5. mars 2021

Náttúruvá

Föstudagspistillinn lítur nú dagsins ljós að nýju, eftir tveggja mánaða hlé. Það má með sanni segja að undanfarnir dagar hafi verið viðburðarríkir. Hrina jarðhræringa hófst miðvikudaginn 24. febrúar s.l., upptök skjálftanna voru lengst framan af í námunda við Keili og í áttina að Litla-Hrút. Viku eftir að skjálftahrinan hófst varð síðan vart við s.k. óróapúls, sem er gjarnan skilgreindur sem undanfari eldgoss. Ekkert varð þó úr að kvika kæmi upp á yfirborðið eins og hætta var talin á, en þróunin varð síðan sú að skjálftavirknin færðist frá Keili og nær Fagradalsfjalli. Enn er talin hætta á að kvika geti leitað upp á yfirborðið, með tilheyrandi hraunflæði. Enn ríkir algjör óvissa um þróun mála, og alls endis óvíst hvort og hvar muni gjósa.

Okkur hefur ítrekað verið tjáð af vísindasamfélaginu að komi til goss á þessum slóðum verði um sprungugos að ræða með tiltölulega litlu hraunflæði. Af þeim sökum er fullyrt að ekki steðji nein bráð hætta að, jafnvel þótt gos hefjist. Eldgosum getur fylgt gasmengun, sem er mismikil eftir stærð og tegundum gosa. Umhverfisstofnun hefur nú þegar komið fyrir gasmæli í þéttbýlinu í Vogum, þar sem unnt er að fylgjast með hvort gasmengun geri vart við sig, komi til eldgoss. Unnt er að fylgjast með mælinum í rauntíma á vefslóðinni www.loftgaedi.is

Fylgjast má vel með þróun skjálftavirkni á skjálftavef Veðurstofunnar, á vefslóðinni skjalftalisa.vedur.is

Ég hvet einnig alla til að kynna sér vel leiðbeiningar á vef Almannavarna, www.almannavarnir.is þar sem gagnlegar upplýsingar er að finna um viðbrögð við náttúruvá. Einnig er vefur Rauða krossins með mikið af gagnlegum upplýsingum, www.redcross.is ekki síst leiðbeiningar um hvernig við getum tekist á við það álag sem fylgir þeirri óvissu sem gerir vart við sig við þessar aðstæður.

 

Rýmingaráætlun

Nú er unnið að lokafrágangi rýmingaráætlunar fyrir Sveitarfélagið Voga, sem þegar liggur fyrir í drögum. Lengi hefur verið fjallað um mikilvægi þess að gera slíka áætlun, en eftir að hrina jarðhræringa hófst í grennd við Þorbjörn og Grindavík í upphafi árs 2020 var ítrekað mikilvægi þess að ráðast í gerð áætlunarinnar. Þar sem náttúruváin steðjaði þá að Grindavík og nágrenni var eðlilegt að lokið yrði fyrst við rýmingaráætlun þar. Af ýmsum ástæðum hefur vinna við gerð rýmingaráætlunar fyrir önnur sveitarfélög á Suðurnesjum tafist, en nú er loks kominn góður skriður á þau mál. Fulltrúi okkar sveitarfélags hefur þegar fundað með lögreglunni, sem heldur utan um gerð viðbragðsáætlunarinnar. Verið er að leggja lokahönd á innri áætlanir stofnana sveitarfélagsins, sem og gerð sjálfs rýmingarkortsins. Reiknað er með að áætlunin í heild sinni verði tilbúin í næstu viku. Um leið og hún verður tilbúin verður birt frétt á heimasíðu sveitarfélagsins og áætlunin kynnt rækilega.

 

Heiðursborgari kvödd

Í dag, föstudaginn 5. mars, fer fram útför Lúllu, eða Guðrúnar Lovísu Magnúsdóttur. Lúlla var kjörin heiðursborgari sveitarfélagsins Voga vorið 2017, og fór tilefningin fram við hátíðlega athöfn á þjóðhátíðardaginn 17. júní það ár. Aðstandendum öllum er vottuð samúð við fráfall Guðrúnar Lovísu Magnúsdóttur, heiðursborgara.

 

Að lokum

Ég óska öllum góðrar helgar, um leið og ég vona að öllum líði vel þrátt fyrir erfiðar aðstæður nú um stundir. Við búum í nágrenni við öflug náttúruöfl, og þurfum að læra að lifa með því. Bestu kveðjur og góða helgi.

Getum við bætt efni síðunnar?