Óvissustig – landris á Reykjanesi
Sunnudagurinn 26. janúar 2020 fer í sögubækurnar, en þann dag lýsti Ríkislögreglustjóri yfir óvissustigi Almannavarna í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum vegna landriss vestan við fjallið Þorbjörn á Reykjanesi. Þrátt fyrir að ekki hafi gosið á Reykjanesi undanfarin u.þ.b. 800 ár sannast hins vegar að þau eldstöðvakerfi sem eru hér á skaganum eru enn öll meira og minna virk, þrátt fyrir allt. Undanfarna daga og vikur hefur mælst landris vestan við Þorbjörn, sem bendir að mati jarðvísindamanna til kvikuinnskots á u.þ.b. 3 – 5 km dýpi. Þessari þróun hafa fylgt talsverðar jarðhræringar, sérstaklega á svæði norðan Grindavíkur. Jarðvísindamenn upplýsa okkur um að jarðhræringar séu alvanalegar á þessu svæði, þær eru hins vegar meiri en venjulega og fara saman með áðurnefndu landrisi. Á vef Veðurstofunnar má sjá gagnlegar upplýsingar um þessa þróun alla. Þar kemur m.a. fram að um langtímaþróun sé að ræða, og því brýnt að fylgjast vel með mælingum. Búast megi við áframhaldandi skjálftavirkni á svæðinu og að áfram muni stærstu skjálftarnir finnast í nágrenni Grindavíkur. Loks segir á vef Veðurstofunnar að algengast sé að kvikuinnskotavirkni ljúki án eldgoss.
Full ástæða er fyrir okkur í Sveitarfélaginu Vogum að fylgjast náið með þessari þróun, og þar af leiðandi vera viðbúin því sem kann að gerast. Á fundi bæjarstjórnar nú í vikunni var ákveðið að ræða þessi mál, ekki síst í ljósi þeirrar staðreyndar hversu nálægt við erum við óróleikasvæðið. Upplýst hefur verið að ekki sé tilefni til að ætla að hætta vegna hraunflæðis steðji að Vogum, komi til þess að eldgos hefjist. Vísindamennirnir gera einna helst ráð fyrir komi til eldgoss verði það á sprungu. Reikna megi með tiltölulega stuttu gosi með frekar litlu hraunflæði. Hættan sem steðjar að okkur beinist því frekar að því hvort innviðir verði fyrir skakkaföllum, þ.e. rafmagnframleiðsla og rafmagnsdreifing; dreifing heita og kalda vatnsins og fjarskipti. Viðbragðsáætlanir okkar þurfa því einkum að beinast að með hvaða hætti við getum tekist á við slíka röskun. Bæjarráð mun funda í næstu viku, og halda þar áfram umfjöllun um málið og skoða vandlega til hvaða ráðstafana skuli gripið. Þá er jafnframt fyrirhugaður fundur í Almannavarnarnefnd, en nefndin er sameiginleg fyrir Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Voga. Auk fulltrúa sveitarfélaganna eiga sæti í nefndinn lögreglustjórinn á Suðurnesjum, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, fulltrúar Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, Landhelgisgæslunnar, ISAVIA og Landsbjargar. Grindavíkurbær starfrækir hins vegar eigin almannavarnarnefnd. Sú staðreynd að lögreglustjórinn á Suðurnesjum situr í báðum nefndunum tryggir samfellu í störfum þeirra beggja.
Ég hvet alla til að fylgjast vel með fréttaflutningi í fjölmiðlum. Einnig er gagnlegt að fylgjast með vef Veður-stofunnar (www.vedur.is) og vef Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra (www.almannavarnir.is). Mikilvægt er einnig að kynna sér viðbrögð komi til rýmingar. Loks bendi ég öllum á að Rauði krossinn veitir dýrmæta þjónustu þegar náttúruvá er annars vegar. Á vef þeirra (www.redcross.is) má finna margvíslegar og gagnlegar upplýsingar, einnig er vert að benda á hjálparsímann 1717 sem alltaf er opinn og gott er að leita til ef maður finnur fyrir áhyggjum, hræðslu eða kvíða.
Að lokum Janúar er á enda, vonandi á það einnig við þá rysjóttu tíð sem verið hefur undanfarið. Sólin hækkar á lofti og dagarnir lengjast. Við skulum njóta stundarinnar og horfa bjartsýn fram á veginn. Góða helgi!