Föstudagspistill 3. júlí 2020

Endurbætt kortasjá

Á heimasíður sveitarfélagsins www.vogar.is er hlekkur á bæjarkort, þar sem opnast loftmynd af sveitarfélaginu. Nú hefur sveitarfélagið gert samning við Loftmyndir ehf. sem starfrækja vefinn www.map.is. Samningurinn kveður á um að bæjarkortið verði nú uppfært með s.k. kortavefsjá, sem þýðir að inn á kortið munu bætast hlekkir á ýmsar upplýsingar sem eru gagnlegar fyrir íbúa sveitarfélagsins sem og aðra sem þurfa á upplýsingunum á halda. Stærsta framfaraskrefið verður þegar allar teikningar allra húsa og lagna í sveitarfélaginu verða tengd við kortasjána. Þar með opnast aðgengi að upplýsingum sem ella þarf að sækja t.d. með því að koma á bæjarskrifstofuna og fá ljósrit af viðkomandi teikningum. Þetta er mikilvægt framfaraskref í rafrænni stjórnsýslu sveitarfélagsins. Til að flýta fyrir innleiðingunni er sumarstarfsmaður kominn til starfa á bæjarskrifstofunni, sem hefur fengið það verkefni að ljúka við að skanna allar tiltækar teikningar sem verða síðan aðgengilegar á kortasjánni.

 

Af vettvangi bæjarráðs

Reglubundinn fundur bæjarráðs var nú í vikunni. Á fundinum var m.a. samþykkt að heimila Björgunarsveitinni Skyggni og Ungmennafélaginu Þrótti afnot af íþróttahúsinu í lok október, en félögin ætla í sameiningu að efna til s.k. „kótilettukvölds“. Þá var einnig tekið fyrir bréf frá handhafa menningarverðlauna sveitarfélagsins, Sesselju Guðmundsdóttur, sem benti á gamlan vatnsbrunn í Vogum, sem er einn fjölmargra s.k. „Gvendarbrunna“ á landinu. Guðmundur góði biskup fór víða um land á sínum tíma og vígði vatnsból. Ábendingin fólst m.a. í að brunnurinn verði hreinsaður og merktur, og merktur með vörðu líkt og áður var. Erindinu var vísað til meðferðar við gerð fjárhagsáætlunar næsta árs.

 

Samningur um fræðsluþjónustu

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum í vikunni drög að samningi við Suðurnesjabæ um fræðsluþjónustu. Þar með lýkur áralöngu samstarfi sveitarfélagsins við Hafnarfjörð, sem hafa veitt sveitarfélaginu faglega þjónustu og sérfræðiráðgjöf á vettvangi fræðsluþjónustu. Með sameiningu Garðs og Sandgerðis í Suðurnesjabæ opnaðist sá möguleiki að setja á stofn eigin fræðsluþjónustu, og lagt upp með samstarf við Sveitarfélagið Voga. Fyrir eru sveitarfélögin með sameiginlega félagsþjónustu, en bæði félagsþjónustan og fræðsluþjónustan heyra undir Fjölskyldusvið Suðurnesjabæjar. Gert er ráð fyrir öflugu teymi sérfræðinga á sviðinu, sem munu þjóna báðum þessum mikilvægu málaflokkum í framtíðinni.

 

Langhlaup

Næsta sólarhringinn fer fram keppni í langlaupi hér á Suðurnesjum. Um er að ræða nýjan og spennandi valkost fyrir utanvegahlaupara, skemmtiskokkara og náttúruunnendur, og auðvitað alla sem langar í 100km eða 100 mílur (160km), en einnig verður boðið upp á 10km, 30km og 50km utanvegahlaup. Hlaupið byrjar og endar í Vogum. Fyrsti keppandi lagði af stað í morgun, en hann hyggst hlaupa 160km! Tekur rúman sólarhring eða svo. Þeir sem hlaupa 100km leggja af stað síðdegis. Með þessu hlaupi er ætlunin að gera Rekjanesinu og Suðurnesjum hærra undir höfði hjá hlaupurum og náttúruunnendum. Við bjóðum alla ofurhlaupara velkomna með ósk um góða skemmtun!

 

Að lokum.

Nú er hásumar, veðrið er gott og dagarnir langir. Njótum árstímans- með ósk um góða helgi til ykkar allra!

Getum við bætt efni síðunnar?