Ytra mat leikskólans
Á haustmánuðum fór fram s.k. ytra mat á starfsemi Heilsuleikskólans Suðurvalla í Vogum. Sótt var um matið til Mennta- og menningarmálaráðuneytisins, eins og reyndar hefur verið gert nokkur undanfarin ár. Framkvæmd matsins er á hendi Menntamálastofnunar. Nokkrir megin þættir eru metnir, þ.e. stjórnun, uppeldis- og menntastarf, leikskólabragur, foreldrasamstarf og innra mat. Undir hverjum matsflokki eru á bilinu 2 – 6 matsþættir, samtals 21 matsþættir. Gefin er einkunn í hverjum þætti, og fær hver þáttur lit eftir því hversu góð niðurstaðan er. Hæsta einkunn gefur dökkgrænan lit, því næst kemur ljósgrænn, þá gulur og loks rauður. Skilgreining á dökkgrænum lit er „flestir eða allir þættir sterkir, mjög gott verklag sem samræmist fyllilega lýsingu um gæðastarf“. Skilgreining á ljósgrænum matsþætti er „fleiri styrkleikar en veikleikar, gott verklag, flestir þættir í samræmi við lýsingu á gæðastarfi“. Til að gera langa sögu stutta þá var niðurstaðan í mati leikskólans okkar sú að 19 þættir fá hæstu einkunn (dökkgræna), og 2 þættir næsthæstu einkunn (ljósgræna). Enginn matsþáttur fær gula né rauð einkunn. Nú í vikunni var efnt til kynningar á niðurstöðunum fyrir starfsfólk leikskólans, Fræðslunefnd og bæjarstjórn. Í máli matsaðila kom fram að niðurstaðan væri einkar glæsileg, og í raun án fordæma. Það heyri nánast til undantekninga að niðurstaða mats sé á þann veg að enginn reitur í matinu sé hvorki gulur né rauður, hvað þá að nær allir séu með hæstu einkunn. Ég vil nota tækifærið og óska öllu starfsfólki leikskólans til hamingju með þennan frábæra árangur, sem færir okkur heim sanninn um það svo ekki verður um villst að starfsemi Heilsuleikskólans Suðurvalla er í hæsta gæðaflokki og með því besta sem þekkist á landinu. Frábær árangur, og góður vitnisburður. Til hamingju öll!
Fjárhagsáætlun samþykkt
Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum í vikunni fjárhagsáætlun næsta árs, ásamt þriggja ára áætlun fyrir árin 2021 – 2023. Gert er ráð fyrir að rekstur samstæðunnar skili 37 m.kr. afgangi á næsta ári. Áfram verður haldið á þeirri braut að endurnýja götur og yfirborð þeirra og gert ráð fyrir lagningu göngu- og hjólreiðastígar milli Voga og Brunnastaðahverfis. Þá verður ráðist í gerð könnunar á fýsileika þess að leggja hitaveitu í dreifbýlið á Vatnsleysuströnd. Fjárhagsáætlunin ber að öðru leyti þess merki að reksturinn er í þokkalegu jafnvægi. Í rekstrareiningu sem okkar er mikilvægt að vera stöðugt á varðbergi varðandi frávik, því þótt reksturinn sé alla jafna réttu megin við strikið þá geta forsendur fljótt breyst og því mikilvægt að fylgjast vel með allri þróun og frávikum.
Opið hús í þjónustumiðstöð
Nú um helgina er komið að vígslu nýrrar og glæsilegrar þjónustumiðstöðvar sveitarfélagsins. Á sunnudag verður opið hús fyrir íbúa sveitarfélagsins og aðra gesti, sem vilja líta við og skoða mannvirkið. Formleg vígsla verður kl. 14, en húsið opið frá kl. 13 – 16. Auk þess sem húsið verður formlega vígt og tekið í notkun þá verður einnig tekin í notkun hin nýja og glæsilega aðstaða Brunavarna Suðurnesja, og þeim merku tímamótum fagnað að nú verður slökkvibíll varanlega staðsettur hjá okkur. Síðast en ekki síst verður bílaþvottastæði fyrir almenning við húsið, þótt ekki sé rétti árstíminn til að taka það í notkun nú.
Að lokum vonast ég til að sjá sem flesta á opna húsinu á sunnudag. Minni einnig á tendrun ljósanna á jólatrénu í Aragerði. Ég óska öllum góðrar helgar!