Föstudagspistill 29. mars 2019

Áfall fyrir Suðurnes
Gjaldþrot WOW er mikið áfall fyrir samfélagið, og þá ekki síst fyrir atvinnulífið á Suðurnesjum. Mikill fjöldi starfa tapast, bæði þau sem voru hjá flugfélaginu auk þess sem gjaldþrotið mun hafa djúpstæð áhrif á fjölda afleiddra starfa, sem mörg hver eru staðsett hér í okkar landshluta. Allt mun þetta hafa áhrif á einn eða annan hátt, jafnt til skamms sem langs tíma. Vonarneistinn er sá að landið okkar fagra er og verður vonandi áfram áhugaverður áfangastaður fyrir erlenda ferðamenn, með tilheyrandi eftirspurn eftir ferðum til og frá landinu. Svo framarlega sem aðilar í fluggeiranum bregðast við með auknu ferðaframboði vinnast vonandi störf til baka og áhrifin vonandi einungis skammvinn. Við hugsum með hlýhug til þeirra sem nú eiga um sárt að binda vegna atvinnumissis, og vonum að úr rætist fyrr en síðar. Bæjarstjórar á Suðurnesjum munu funda um helgina um þá alvarlegu stöðu sem upp er komin og ræða hvaða möguleikar eru til að bregðast við.

Mótun skólastefnu
Fræðslunefnd Sveitarfélagsins Voga fundaði í síðustu viku. Meðal þess sem nefndin tók til umfjöllunar var umræða um mikilvægi þess að ráðast í endurnýjun á mótun skólastefnu sveitarfélagsins. Gildandi skólastefna er komin til ára sinna, en hún var unnin og samþykkt fyrir rúmum tíu árum. Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum nú í vikunni að taka undir tilmæli Fræðslunefndar og hefjast handa við undirbúning verkefnisins. Var málinu vísað til bæjarráðs sem nú fær það hlutverk að skipa starfshóp sem verði falið að vinna að undirbúningi stefnumótunarinnar. Í þessu sambandi mun samhliða verða hugað að húsnæðismálum grunnskólans, en sérstakur starfshópur um þau mál er nú að störfum.

Hjólabrettarampur settur upp
Á dögunum var gengið frá uppsetningu aðstöðu á skólalóðinni fyrir þá sem hafa gaman að spreyta sig á hjólabrettum. Börnin í grunnskólanum hafa lengi haft áhuga á að slíkri aðstöðu verði komið upp, enda fátt skemmtilegra en þegar birta tekur og hlýna að vera úti við og iðka þessa skemmtilegu íþrótt. Nemendur í tveimur árgöngum tóku sig til á síðasta ári og skrifuðu bæjarstjóranum bréf, óskuðu eftir fundi með honum og komu þar á framfæri bón sinni um að hjólabrettaaðstöðu yrði komið upp. Erindið rataði síðan til bæjarráðs við umfjöllun um fjárhagsáætlun, og var að lokum samþykkt að ráðast í þessa framkvæmd. Það er frábært að frumkvæði nemendanna skuli leiða til þess að svo jákvætt og uppbyggilegt verkefni hljóti brautargengi.

Frisbeegolfvöllur væntanlegur
Skipulagsnefnd Sveitarfélagsins Voga samþykkti á fundi sínum í síðustu viku auglýsa grenndarkynningu fyrir íbúa nærri Aragerði vegna áforma um uppsetningu frisbeegolfvallar í og í grennd við garðinn. Upphaflega stóð til að þetta yrði 9 holu völlur, en nefndin ákvað að minnka hann og hafa brautirnar 7 talsins. Komi ekki fram athugasemdir við þessi áform munu körfurnar í kjölfarið verða settar upp, en búið er að festa kaup á þeim. Það mun því vonandi enn aukast framboðið á skemmtilegri afþreyingu útivið í Vogunum á næstunni.

Að lokum Ég hvet alla til að líta við á heimasíðu sveitarfélagsins n.k. mánudag, 1. apríl, þegar nýja síðan fer í loftið. Þetta er alveg satt – ekki aprílgabb! Vonandi fellur hún ykkur vel í geð. Ég óska ykkur öllum góðrar helgar!

Getum við bætt efni síðunnar?