Af vettvangi bæjarstjórnar
Reglubundinn fundur bæjarstjórnar var s.l. miðvikudag. Bæjarstjórn samþykkti endurskoðaða húsnæðisáætlun sveitarfélagsins, sem skylt er að gera með reglubundnum hætti. Uppfærð húsnæðisáætlun verður sett inn á vefinn á næstu dögum. Bæjarráð staðfesti að öðru leyti þær fundargerðir nefnda sem lagðar voru fram á fundinum. Ársreikningur sveitarfélagsins var tekinn til síðari umræðu og samþykktar á fundinum. Eins og áður hefur komið fram á þessum vettvangi var nýliðið ár sveitarfélaginu erfitt, þar sem hallinn á rekstrinum var um 188 milljónir króna. Von okkar er sú að nú takist að snúa rekstrinum við og koma honum á rétt spor að nýju. Vert er að geta þess að mörg undanfarin ár hefur reksturinn verið réttu megin við strikið, þótt rekstrarafgangurinn hafi á stundum ekki verið stórar tölur. Jafnframt er mikilvægt að halda því til haga að efnahagsreikningur sveitarfélagsins telst þokkalega „heilbrigður“, enda skuldsetning sveitarfélagsins til skamms tíma hlutfallslega lág og því viðráðanleg. Þrátt fyrir þennan mikla hallarekstur og hækkandi skuldir er sveitarfélagið enn innan viðmiðunarmarka hvað varðar skuldahlutfall og skuldaviðmið, samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaganna. Verkefnið framundan verður að ná góðum tökum á rekstrinum, leita allra leiða sem færar eru til hagræðingar og aukinnar skilvirkni. Með samstilltu átaki er það vel gerlegt. Loks var á fundinum fjallað um málefni Heiðarlands Vogajarða. Land þetta er í óskiptri sameign nokkurra aðila, en sveitarfélagið á ríflega 40% í landinu. Bæjarstjórn samþykkti að lokinni umræðu um málið að fela bæjarstjóra að óska álits lögmanns sveitarfélagsins á möguleikum þess að slíta sameigninni og um málsmeðferð slíks máls. Sigurpáll Árnason bæjarfulltrúi sat sinn síðasta fund í bæjarstjórn vegna brottflutnings. Honum voru þökkuð vel unnin störf.
Orðræðan á samfélagsmiðlum
Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga var haldið s.l. föstudag. Í ávarpi sínu vakti Sigurður Ingi Jóhannsson, sveitarstjórna- og samgönguráðherra athygli á nýlegri rannsókn dósents við Háskóla Íslands. Í rannsókninni kemur fram að ríflega helmingur sveitarstjórnarfulltrúa á landinu hefur orðið fyrir áreiti eða neikvæðu umtali vegna starfa sinna. Samfélagsmiðlar eru helsti vettvangurinn en sveitarstjórnarfólk er líka áreitt á götum úti, í verslunum og á skemmtunum. Í viðtali RÚV við formann sambandsins þessu máli tengt kom einnig fram að 21 sveitar- og bæjarstjóri hefur ýmist látið af störfum eða verið sagt upp störfum það sem af er kjörtímabilinu. Kjörnir fulltrúar í okkar sveitarfélagi hafa ekki farið varhluta af óvæginni umræðu, og að því leytinu orðið fyrir nokkru áreiti. Sumum einstaklingum virðist finnast í góðu lagi að „fara í manninn en ekki boltann“ svo notuð sé vinsæl myndlíking. Samfélagsumræða og skoðanaskipti eru af hinu góða, og jafnframt mikilvæg. Að sama skapi er mikilvægt að gæta hófs, virða mörk einkalífs fólks og einnig vert á minna á orð skáldsins: „Aðgát skal höfð í nærveru sálar“.
Framkvæmdafréttir
Í dag (föstudag) verður lagt malbik yfir lagnaskurð í Hafnargötu, þar með er því verki lokið. Unnið er að frágangi á fláum við göngu- og hjólastíginn milli Voga og Brunnastaðahverfis, malbik verður vonandi lagt á eftir um 2 vikur. Framkvæmdir eru að hefjast við gangstéttir og stíga á miðbæjarsvæðinu.
Að lokum óska ég öllum góðrar helgar.