Föstudagspistill 27.3.2020

Covid-19

Þessa dagana og vikurnar snýst allt um kórónaveiruna, þeirri sem veldur Covid-19. Allt samfélagið þarf að aðlaga sig að breyttum aðstæðum. Þetta á vitaskuld einnig við um starfsemi sveitarfélagsins. Mikið hefur mætt á starfsfólki sveitarfélagsins við að laga starfsemina að þessum breyttu aðstæðum. Grunnskólinn og leikskólinn starfa samkvæmt sérstöku neyðarskipulagi, sem hefur verið virkjað. Íþróttamiðstöðinni hefur nú verið lokað, sem og bæjarskrifstofunni. Umhverfisdeildir starfar samkvæmt neyðaskipulagi, en félagsstarf aldraðra liggur niðri. Ég færi öllu starfsfólki þakkir fyrir hversu vel hefur verið brugðist við þessum breyttu aðstæðum, og hversu hart það hefur lagt að sér við að halda úti þeirri þjónustu sem er veitt af hálfu sveitarfélagsins. Margir hafa lagt mikla vinnu á sig til að koma breyttu skipulagi í kring, og fyrir það er sérstaklega þakkað.

Landlæknir og sóttvarnarlæknir sendu í vikunni frá sér bréf, sem var dreift til allra foreldra og forráðamanna barna í leik- og grunnskólum landsins. Í bréfinu er áréttað mikilvægi þess að nemendur í leik- og grunnskólum haldi áfram að sækja skóla þrátt fyrir takmarkanir á skólastarfi. Þetta eru mikilvæg skilaboð, sem við skulum taka mark á. Það er fátt mikilvægara fyrir börnin en að sækja skólann sinn, námið er þeim mikilvægt sem og sú virkni og aðhald sem því fylgir. Aðgerðarstjórn almannavarna kom saman á fjarfundi í vikunni, þar sem staða mála voru rædd ásamt því að miðlun upplýsinga fór fram. Aðgerðarstjórn hefur verið virkjuð að hluta, sem er í samræmi við það verklag sem Almannavarnir hafa mælt með. Lögreglustjóri stefnir í framhaldinu að vikulegum fundi með sóttvarnarlækni svæðisins ásamt bæjarstjórum. Á þeim fundum náum við að samræma upplýsingamiðlun ásamt því að stilla saman strengi almennt.

Á upplýsingasíðunni www.covid.is er að finna ýmsan gagnlegan fróðleik um faraldurinn. Ég hvet alla til að líta þangað inn reglulega, og kynna sér efni síðunnar. Samkvæmt nýjustu tölum (þegar þetta er ritað) er fjöldi smita á landinu öllu nú 802. Þar af eru 37 smitaðir á Suðurnesjum, og þar eru 450 manns í sóttkví.

Það er áhugavert að fylgjast með störfum framlínufólks okkar á sviði sóttvarna og almannavarna, og þeirra fumlausu og faglegu vinnubragða sem birtast okkur á hinum daglegu upplýsingafundum þeirra. Sérlega áhugavert nú er að fylgjast með tölfræðilegum upplýsingum og hvernig þær eru nýttar til að spá um útbreiðslu faraldursins. Mér fannst einkar athyglisvert að hlýða á sérfræðing í tölfræði lýsa því hvernig þær aðgerðir og ráðstafanir sem gripið hefur verið til hafa í raun breytt því að í stað veldisvaxtar faraldursins er hann nú í heftum vexti. Það eru góðar fréttir. Það er mikilvægt að hafa orð sóttvarnarlæknis í huga í þessu tilliti, þar sem fram kemur að það skipti í raun ekki máli hversu margir fá veiruna heldur hverjir fá hana. Sem betur fer er aldursdreifing smitaðra hagstæð hvað þetta varðar. Þá er einnig athyglisverð sú staðreynd að meirihluta þeirra sem greinast með smit eru þeir sem þegar voru komnir í sóttkví. Þannig hefur tekist að fyrirbyggja að þeir smituðu ekki út frá sér áður en einkennin komu fram.

Nú reynir á þrautseigju okkar allra. Við verðum að fara að öllu með gát, fylgja leiðbeiningum og virða takmarkanir. Með því móti verndum við viðkvæmustu hópana okkar fyrir smiti. Faraldurinn mun taka enda, og lífið mun aftur færast í eðlilegt horf.

 

Að lokum

Sólin hækkar stöðugt á lofti, og dagarnir lengjast. Senn víkur veturinn fyrir vorinu. Ég óska öllum góðrar helgar og sem fyrr hvet ég okkur öll til samstöðu!

Getum við bætt efni síðunnar?