Föstudagspistill 26.6.2020

Nýtt hverfi rís í Vogum

Föstudaginn 19. júní – á sjálfum kvenréttindadeginum – var tekin fyrsta skóflustunga að nýju hverfi sem rís á því svæði sem kennt er við jörðina Grænuborg. Framkvæmdir eru alfarið á hendi landeigenda, sem er Grænabyggð ehf. Svæðið er austan við byggðina í Vogum, og mun liggja að Norður-Vogum og íþróttasvæðinu. Gert er ráð fyrir að uppbyggingin standi yfir næstu 10 árin, og að í fyllingu tímans rísi þarna u.þ.b. 2.500 manna hverfi. Það er dágóð viðbót við núverandi íbúafjölda sveitarfélagsins, en nýjustu tölur okkar telja 1.337 íbúa. Við óskum forsvarsmönnum Grænubyggðar ehf. til hamingju með áfangann og óskum þeim jafnframt góðs gengis í verkefninu.

 

Barnvænt sveitarfélag

Fimmtudaginn 25. júní var undirritaður samstarfs-samningur sveitarfélagsins við Félagsálaráðuneytið og UNICEF á Íslandi um aðild sveitarfélagsins á verkefninu „Barnvænt sveitarfélag“. Í verkefninu felst innleiðing á ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna inn í stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélagsins. Sveitarfélagið Vogar er 10. sveitarfélagið sem undirritar samkomulag um þátttöku í verkefninu, og er að auki það sveitarfélag sem er með fæstu íbúana af þeim sveitarfélögum sem taka þátt.

 

Menningarverðlaun

Á þjóðhátíðardaginn, 17. júní, voru menningarverðlaun sveitarfélagsins fyrir árið 2020 afhent við hátíðlega athöfn í Tjarnarsal. Undanfarin ár hafa verðlaunin verið afhent á Sumardaginn fyrsta, en vegna veirufaraldursins var ákveðið að fresta afhendingu verðlaunanna til 17. júní. Menningarverðlaunin eru veitt einstaklingi og félagasamtökum, sem skara fram úr í að auðga mannlíf í sveitarfélaginu. Að þessu sinni hlutu verðlaunin Minja- og sögufélagið og Sesselja Guðmundsdóttir. Minja- og sögufélagið hefur staðið að varðveislu sögu- og menningarminja í sveitarfélaginu, m.a. með varðveislu og endurbyggingu sögufrægra húsa. Sesselja hefur skrifað bækur m.a. um gönguleiðir og örnefni í sveitarfélaginu, auk þess sem hún hefur verið ötull liðsmaður í að halda til haga ljósmyndum og öðru dýrmætu efni frá liðinni tíð. Verðlaunahöfunum færi ég hamingjuóskir með verðlaunin, þau eru vel að þeim komin.

 

100 fundir í bæjarstjórn

Á 170. fundi bæjarstjórnar, sem haldinn var miðvikudaginn 24. júní s.l., náðu tveir bæjarfulltrúar þeim merka áfanga að hafa setið 100 fundi í bæjarstjórn. Það voru þeir Birgir Örn Ólafsson (sem reyndar á einnig að baki setu í hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps fyrir árið 2006) og Ingþór Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar. Að auki sat pistlahöfundur einnig sinn 100. fund í bæjarstjórn. Bergur Álfþórsson bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs, náði þessum merka áfanga s.l. haust. Það er til marks um mikla reynslu bæjarstjórnarmanna að samanlagður fundafjöldi aðalmanna í bæjarstjórn er nú 539 fundir!

 

Að lokum.

Langt er um liðið frá síðasta föstudagspistli, sem vonandi stendur nú til bóta. Nýjustu fréttir um að í vændum séu frekari tilslakanir á samkomubanni eykur líkur á að unnt verði að halda hefðbundna fjölskyldudaga í ágúst. Verum bjartsýn og vonum það besta! Bestu óskir um góða helgi og áframhaldandi gleðilegt sumar.

Getum við bætt efni síðunnar?