Eldgos og hraunflæði
Eldgosið í Fagradalsfjalli hefur nú staðið í liðlega 3 mánuði. Undanfarna daga og vikur hefur virknin einkum verið í einum gíg. Fjarlægðin frá Vogum að gígnum í beinni loftlínu er um 10 km. Íbúar sveitarfélagsins hafa verið blessunarlega lausir að mestu við óþægindi af gasmengun frá gosinu, enda vindátt sjaldnast þannig að mökkurinn berist yfir Voga. Náið er fylgst með þróun mála, enda ekkert sem bendir til að gosinu sé að ljúka. Sérfræðingar vinna hörðum höndum að því að greina og skoða hinar ýmsu sviðsmyndir, m.a. um hraunflæði. Mikilvægt er að varna því að hraun renni úr Geldingadölum til vesturs, því þá er opin leið m.a. til norðurs í átt til Voga. Aðgerðir þessa dagana beinast því einkum að því að byggja upp s.k. leiðigarða, sem varna því að hraunið renni þessa leið. Mikil þekking og reynsla m.a. hjá öflugum hópi vísindamanna og verkfræðinga mun án efa leiða til þess að ráðist verði í aðgerðir sem varna því að hætta steðji að byggð og mannvirkjum. Þá er jafnframt mikilvægt að muna að taka með fyrirvara vangaveltum um hraunflæði, því líkönin sýn oftast áætlað hraunrennsli án þess að ráðist sé í nokkrar aðgerðir.
Úttekt á rekstri sveitarfélagsins
Undanfarnar vikur og mánuði hefur staðið yfir vinna ráðgjafa þar sem rekstur sveitarfélagsins er greindur ítarlega. Rekstur ársins 2020 var mjög erfiður, enda margir þættir, m.a. utanaðkomandi, sem höfðu áhrif þar á. Bæjarráð hefur tvo undanfarna fundi farið yfir drög að skýrslu ráðgjafa sveitarfélagsins, og mun á næstu dögum og vikum taka ákvarðanir um úrbætur í rekstrinum. Grunnmarkmiðið verður að tryggja íbúum áfram aðgang að þjónustunni fyrir lágmarks tilkostnað.
Valkostagreining um sameiningu
Fyrr á þessu ári samþykkti bæjarstjórn að ráðast í s.k. valkostagreiningu um hugsanlega sameiningu við annað eða önnur sveitarfélög. Ráðgjafafyrirtækið RR Ráðgjöf var fengið til verksins. Þegar hafa verið haldnar tvær vinnustofur með kjörnum fulltrúum, formönnum nefnda og stjórnendum sveitarfélagsins. Á vinnustofunum var kallað eftir hugmyndum og valkostum, og þær hugmyndir sem fram komu ræddar og yfirfarnar. Að áliðnu sumri verður efnt til almenns íbúafundar og niðurstaðan úr því sem fram kom á vinnustofunum kynnt. Efnt verður síðan til þriðju og síðustu vinnustofunnar, og í kjölfarið munu ráðgjafar skila skýrslu til bæjarstjórnar sem ákvarðar næstu skref. Mikilvægt er að halda því til haga að vinna sem þessi er gagnleg, enda hefur m.a. á vinnustofunum verið unnið að s.k. SVÓT (styrkleikar, veikleikar, ógnanir, tækifæri) greiningu á starfsemi sveitarfélagsins, sem nýtist vel.
Hjóla- og göngustígurinn vígður
Á morgun (laugardaginn 26. júní 2021) verður nýi göngu- og hjólreiðastígurinn meðfram Vatnsleysustrandarvegi vígður með formlegum hætti. Vígslan fer fram kl. 13, miðja leið milli Voga og Brunnastaðahverfis. Klippt verður á borða, og því fagnað að þetta góða mannvirki skuli nú loks orðið að veruleika. Allir velkomnir!
Að lokum
Jónsmessan var í vikunni, og því lengstur sólargangur. Njótum bjartra sumarnátta og náttúrunnar sem er nú í fullum skrúða. Föstudagspistlar koma stopult út yfir hásumarið – ég óska öllum góðrar helgar og góðs sumars!