Föstudagspistill 25.08.2020

Jarðhræringar

Svo virðist sem ekkert lát sé á langvinnri jarðskjálftahrinu sem verið hefur á Reykjanesi meira og minna allt þetta ár. Nú í vikunni varð snarpur jarðskjálfti skammt suðaustur af Keili, 4,2 af stærð. Þessi skjálfti fannst vel hér í Vogum, sem og reyndar víða um Suðurnesin og á höfuðborgarsvæðinu. Nágrannar okkar í Grindavík hafa ekki farið varhluta af jarðhræringunum það sem af er ári, enda hefur virknin þar til nú verið nær þeim en okkur. Það má benda lesendum á að í nýrri kortasjá sveitarfélagsins (www.map.is/vogar) uppfærast upplýsingar um jarðskjálfta sjálfkrafa, þar má því sjá hvar á svæðinu nýjustu skjálftarnir hafa átt upptök sín hverju sinni.

 

Af vettvangi bæjarstjórnar

Fyrsti fundur bæjarstjórnar eftir sumarleyfi var haldinn í vikunni. Bæjarstjórnarfundir hafa tímabundið verið fluttir að nýju í Álfagerði, svo unnt sé að virða 2ja metra reglu um fjarlægðarmörk vegna sóttvarna. Bæjarstjórnin fjallaði um fundargerðir nefnda sem hafa fundað í sumar meðan á sumarleyfi bæjarstjórnar stóð. Meðal þeirra mála sem rædd voru á bæjarstjórnarfundinum voru málefni Suðurnesjalínu 2, sem enn eru til umræðu og umfjöllunar. Á fundinum var farið yfir stöðu þeirra mála, og þá staðreynd að ekki fara saman áherslur bæjarstjórnar og Landsnets um hvernig línan skuli lögð. Þegar hefur verið stungið upp á við Landsnet að aðilar komi saman til fundar, með það að markmiði að finna ásættanlega lausn á málinu og sem er til þess fallin að þoka málinu áleiðis. Allir sem þekkja þetta mál vita hversu brýnt er að bæta afhendingaröryggi raforku á Suðurnesjum. Það hlýtur því að vera sameiginlegt hagsmunamál allra aðila sem að þessu máli koma að finna ásættanlega lausn. Það er einfaldlega ekkert annað í boði.

 

Ný kortasjá að verða tilbúin

Á forsíðu heimasíðu sveitarfélagsins er hlekkur á bæjarkort. Í sumar hefur verið markvisst unnið að uppfærslu kortsins, en stærsta verkefnið var að skanna allar teikningar allra húsa í sveitarfélaginu. Því verki er nú lokið. Á allra næstu dögum verður því unnt að opna kortið og nálgast teikningar allra húsa í sveitarfélaginu, með því að smella á viðkomandi hús á kortinu. Að auki eru nú allar veitulagnir komnar inn á kortasjána, sem er til mikilla hagsbóta og til þess fallið að auka öryggið við framkvæmdir. Uppsetning kortasjárinnar er mikið framfaraskref, og mikilvægur liður í að bæta og efla rafræna stjórnsýslu sveitarfélagsins.

 

Framkvæmdafréttir

Framkvæmdir við lagningu ljósleiðara í dreifbýli eru nú hafnar að nýju, eftir nokkuð hlé. Gera má ráð fyrir að því ljúki á næstu 2 – 3 vikum, og að því loknu hafa öll lögheimili og fyrirtæki á Vatnsleysuströnd og í Hvassahrauni aðgang að nútímalegri háhraða nettengingu. Í september er gert ráð fyrir tyrfa mön meðfram Iðndal. Framkvæmdum ársins er að öðru leyti lokið – nema auðvitað úr rætist og heimild allra landeigenda fáist til að leggja göngu- og hjólreiðastíg milli Voga og Brunnastaðahverfis.

 

Að lokum Nemendur grunnskólans eru komin til starfa eftir sumarleyfið. Höfum það hugfast að aka með varúð og gát nú þegar gangandi og hjólandi vegfarendum fjölgar á götum og stígum. Virðum hámarkshraðann og ökum gætilega. Ég óska öllum góðrar helgar.

 

Getum við bætt efni síðunnar?